Vel mætt á almenna bændafundi

Á vegum Bændasamtakanna voru haldnir almennir bændafundir í héraðinu mánudaginn 8. des. Um miðjan dag var fundur á Blönduósi og um kvöldið á Staðarflöt í Hrútafirði. Vel var mætt á fundina og voru 35-40 manns á hvorum fundi. Frummælendur voru Eiríkur Blöndal framkvæmdastjóri BÍ og Haraldur Benediktsson formaður sömu samtaka. Einnig mættu á fundina Freyr Rögnvaldsson blaðamaður á Bændablaðinu og Sigurður Eyþórsson framkvæmdastjóri Landssamtaka Sauðfjárbænda.

Í framsögum komu þeir félagar inn á fjölmörg mál sem brenna á bændum um þessar mundir. Má þar nefna afkomu bænda og afleiðingar efnahagsástandsins á landbúnaðinn, fyrirhugað matvælafrumvarp landbúnaðarráðherra, upprunamerkingar matvæla, matvælaöryggi og áhrif aðildar að ESB á íslenskan landbúnað.

Þær upplýsingar sem nú liggja fyrir benda eindregið til þess að áhrif aðildar að ESB yrðu mjög neikvæð fyrir íslenskan landbúnað – innlend framleiðsla myndi minnka mikið þó mismunandi milli einstakra búgreina.

Fjörugar umræður urðu á fundunum og snérust þær mikið um áhrif hugsanlegrar aðildar að ESB, afkomu bænda og verðlagningu afurða, nýliðunarstyrki svo eitthvað sé nefnt. GR

Posted in BHS