Skipulag sauðfjársæðinga

Í ár verður tekið sæði frá Sæðingastöð Vesturlands sem fyrr. Einnig verður í boði sæði af Suðurlandi dagana 2., 3. og 6. desember. Athugið að 3. des verður ekki sótt sæði af Vesturlandi en 2. og 6. verður hægt að panta af báðum stöðvum. Verð á sæðisskammti í ár er 535 kr. + vsk.

Vegna hliðrunar á vikudögum verður fyrsta vikan aðeins frábrugðin því skipulagi sem verið hefur en þá verður sætt mið. 1. des, fim. 2. des og fös. 3. des. Síðan verður sætt mán-mið. 2 vikur í röð og að lokum mánudag og þriðjudag í vikunni fyrir jól. Hægt verður hægt að nálgast sæðið í Staðarskála, við Hvammstangaafleggjara og á Blönduósi eins og verið hefur. Þar að auki eru frjálsir dagar á Vesturlandsstöðinni 3., 4. og 19. des en þá geta menn pantað sæði ef þeir hafa sjálfir far fyrir það, því það verður ekki keyrt út frá stöðinni á sama hátt og hina dagana.

Árneshreppur er sér á báti með sína sæðingadaga fyrir ferskt sæði. Gjögurflug er mánudaga og fimmtudaga og munu Árneshreppingar geta nýtt sér þá daga í desember. Eins er opinn möguleiki að fá sæði aðra daga, ef ferð fellur. Gunnar Dalkvist í Bæ sér um að halda utan um þær pantanir og allt í kringum það.

Pantanir berist á skrifstofu BHS 451-2602, netfang: rhs@bondi.is. Panta þarf sæði fyrir kl. 14:00 næsta virka dag á undan sæðingadegi. Þannig þarf að panta á föstudegi, fyrir sæðingu á mánudegi.

Allar pantanir á sæði fara í gegnum BHS. Bændur sem hafa farið á námskeið í sauðfjársæðingum, geta sætt sjálfir, en þeir sem ekki hafa sótt slíkt námskeið, verða sjálfir að semja við einhvern um að sæða hjá sér.

Þegar pantað er sæði fyrir ósamstilltar ær er mikilvægt að láta okkur hjá BHS vita í tíma ef ekki finnast blæsma ær, svo hægt sé að nota sæðið á öðrum bæjum. Sama gildir ef menn vilja fá sæði í fleiri ær en pantað er fyrir, þá þarf að láta okkur vita um morguninn og við munum reyna að ráðstafa því sæði sem kemur aukalega til þeirra.

Dýralæknar sjá um að selja svampa.

Posted in BHS