Samþykktir fyrir nýtt Búnaðarsamband Húnaþings og Stranda

Framhalds-aðalfundur Ráðunautaþjónustunnar var haldinn á Staðarflöt 30. nóvember síðastliðinn. Eina mál fundarins var að ganga frá samþykktum fyrir nýtt búnaðarsamband á Húnaflóasvæðinu. Var það og gert og munu því búnaðarsamband A-Hún, búnaðarsamband V-Hún og búnaðarsamband Strandamanna sameinast Ráðunautaþjónustunni um næstu áramót og mynda þá sameiginlega Búnaðarsamband Húnaþings og Stranda. Meðfylgjandi er fundargerð fundarins.

FRAMHALDS – AÐALFUNDUR RHS

Haldinn á Staðarflöt 30. nóvember 2006 og hófst kl 13.

Jón Gíslason formaður setti fund og skipaði Matthías Lýðsson fundarstjóra og Gunnar Ríkharðsson framkvæmdastjóra sem fundarritara. Skv. samþykktum félagsins eru 16 fulltrúar á aðalfundi þ.e. formenn búgreinafélaga á svæðinu (alls 7) og 3 stjórnarmenn frá hverju búnaðarsambandanna (alls 9).
Eftirtaldir voru boðaðir á fundinn:

Félag sauðfjárbænda í Strandasýslu Guðbrandur Björnsson, Smáhömrum
Félag sauðfjárbænda í V- Hún Böðvar S. Böðvarsson, Mýrum
Nautgriparæktarfélag í V- Hún Skúli Einarsson, Tannstaðabakka
Hrossaræktarsamtök í V- Hún Pálmi Geir Ríkharðsson, Syðri -Völlum
Félag sauðfjárbænda í A- Hún Birgir Ingþórsson, Uppsölum
Félag kúabænda í A-Hún Magnús Sigurðsson, Hnjúki
Samtök hrossabænda í A- Hún Björn Magnússon, Hólabaki
Búnaðarsamband A-Hún: Jón Gíslason, Stóra Búrfelli
Gauti Jónsson, Hvammi
Birgir Ingþórsson, Uppsölum
Búnaðarsamband V-Hún: Rafn Benediktsson, Staðarbakka
Sigurður Björnsson, Kolugili
Skúli Einarsson, Tannstaðabakka
Búnaðarsamband Strandamanna: Jóhann Ragnarsson, Laxárdal
Matthías Lýðsson, Húsavík
Þórður Halldórsson, Laugarholti

Eftirtaldir 12 fulltrúar voru mættir á fundinn:

Félag sauðfjárbænda í Strandasýslu Guðbrandur Björnsson, Smáhömrum
Félag sauðfjárbænda í V- Hún Ásgeir Sverrisson, Brautarholti
Nautgriparæktarfélag í V- Hún Enginn
Hrossaræktarsamtök í V- Hún Pálmi Geir Ríkharðsson, Syðri -Völlum
Félag sauðfjárbænda í A- Hún Gísli Geirsson, Mosfelli
Félag kúabænda í A-Hún Magnús Sigurðsson, Hnjúki
Samtök hrossabænda í A- Hún Björn Magnússon, Hólabaki
Búnaðarsamband A-Hún: Jón Gíslason, Stóra Búrfelli
Gauti Jónsson, Hvammi
Búnaðarsamband V-Hún: Rafn Benediktsson, Staðarbakka
Sigurður Björnsson, Kolugili
Búnaðarsamband Strandamanna: Jóhann Ragnarsson, Laxárdal
Matthías Lýðsson, Húsavík

Dagskrá:
1. Tillögur að lagabreytingum vegna fyrirhugaðrar sameiningar Ráðunautaþjónustunnar og Búnaðarsambanda A-Hún, V-Hún og Stranda um næstu áramót sbr meðfylgjandi skjal.
2. Önnur mál

Fundarstjóri fór yfir dagskrá og bauð síðan Jóni Gíslasyni að fara yfir og kynna samþykktir sem lágu fyrir fundinum.
Jón Gíslason rakti aðeins sögu þessa sameiningarferlis og fór yfir samkomulag búnaðarsambandanna frá 1. maí 2006 og síðan yfir þau drög að samþykktum sem lágu fyrir fundinum.
Var ákveðið að fara yfir allar greinar samþykktanna fyrst og fá fram öll sjónarmið fundarmanna áður en atkvæði yrðu greidd um einstakar greinar og samþykktir í heild sinni.
Fundarstjóri kynnti nú hverja grein fyrir sig og formaður greindi frá sjónarmiðum stjórnar varðandi einstök atriði og fundarmenn komu sínum athugasemdum á framfæri.

1. gr. Jón Gíslason hvatti fundarmenn til að tjá sig um nafngift. Magnús á Hnjúki taldi nafnið gott. Ákveðið var að árétta betur að BHS væri skammstöfun félagsins
2. gr. Engar athugasemdir
3 gr. Engar athugasemdir
4 gr. Björn taldi að skýrara væri að nota orðið búnaðarsamband í stað “samband” og var því breytt.
5 gr. Engar athugasemdir
6 gr. Ásgeir ræddi nokkuð um reglur varðandi fjölda félaga í aðildarfélögum á bak við hvern fulltrúa á aðalfund. Jón Gíslason skýrði þá hugsun stjórnar að reynt hafi verið að hafa ákveðið jafnvægi í fjölda fulltrúa frá búnaðarfélögum og búgreinafélögum á aðalfundi.
7 gr. Engar athugasemdir
8 gr. Guðbrandur gerði athugasemd varðandi formannskosningu – vildi hafa formann kosinn beinni kosningu. Jón Gíslason, Gísli Geirsson og fundarstjóri ræddu nokkuð um skyldur og skyldleika og Ásgeir gerði athugasemd um orðalag varðandi varamannakosningu. Var nú orðalagi greinarinnar aðeins breytt en ekki efnisatriðum.
9 gr. Engar athugasemdir
10 gr. Rætt um stjórn þróunarsjóðsins en fundarmenn sammála um að það komi til kasta næsta aðalfundar að ákveða það.
11gr. Rætt vítt og breitt um búnaðarþingskosningar og m.a. hvernig fyrirkomulag skv þessum samþykktum samræmist því sem gert er á öðrum landssvæðum. Engu breytt.
12 gr. Nokkrar umræður en engar breytingar.
13 gr. Björn kom með tillögur að breytingu á orðalagi þar sem ekki var talið nauðsynlegt að árétta að aðalfundur og stjórn þyrftu að samþykkja samþykktir, einungis stjórn BÍ. Var því breytt.
Engar athugasemdir komu fram um “Ákvæði til bráðabirgða”

Guðbrandur kom fram með varnaðarorð varðandi skuldbindingar BSS varðandi bókaútgáfu og yfirfærslu þeirra til hins nýja búnaðarsambands. Rafn taldi að nauðsynlegt væri að tryggja vel að þessar skuldbindingar BSS yfirfærist ekki til hins nýja búnaðarsambands. Rifjað var upp að samkvæmt samkomulagi milli búnaðarsambandanna frá 1. maí 2006 og undirritað er af formönnum allra sambandanna er skýrt tekið fram að engar fjárhagslegar skuldbindingar BSS sem til eru komnar vegna þessarar bókaútgáfu muni flytjast til hins nýja búnaðarsambands.

Þessu næst var hver grein samþykktanna borin undir atkvæði fundarmanna

Samþykktir Búnaðarsambands Húnaþings og Stranda

1. gr.
Búnaðarsamband A-Hún (BSAH), Búnaðarsamband V-Hún (BSVH), Búnaðarsamband Strandamanna (BSS) og Ráðunautaþjónusta Húnaþings og Stranda (RHS) sameinast og mynda Búnaðarsamband Húnaþings og Stranda, skammstafað BHS, 1. janúar 2007.
Félagssvæði hins nýja búnaðarsambands er A-Húnavatnssýsla, V-Húnavatnssýsla og Strandasýsla. Varnarþing búnaðarsambandsins er þar sem lögheimili þess er hverju sinni. Búnaðarsambandið er aðili að Bændasamtökum Íslands og starfar bæði á faglegum og stéttarlegum grunni.

1.grein samþykkt með öllum 12 atkvæðum fundarmanna

2. gr.
Búnaðarsamband Húnaþings og Stranda er samband búnaðar- og búgreinafélaga í A-Húnavatnssýslu, V-Húnavatnssýslu og Strandasýslu. Skv. skilgreiningu Búnaðarlaga nr. 70/1998 er búnaðarfélag, félag bænda á ákveðnu svæði, óháð þeim búrekstri sem þeir stunda en búgreinafélag er félag bænda á ákveðnu svæði sem stunda sömu búgrein. Lög og reglur þessara félaga skulu samrýmast samþykktum BHS og Bændasamtaka Íslands.
Aðild að búnaðarsambandinu geta átt þeir einstaklingar og lögaðilar sem stunda búrekstur í atvinnuskyni, eða vegna eigin nota, enda séu þeir aðilar að búnaðar og eða búgreinafélagi á sambandssvæðinu. Þegar um er að ræða félagsaðild lögaðila skal félagsaðildin bundin við einn nafngreindan einstakling, sem kemur fram fyrir hönd lögaðilans. Aðild einstaklinga skal óháð því hvort þeir stunda búrekstur í eigin nafni eða annarra. Undir búrekstur fellur hvers konar búfjárrækt, jarðrækt, skógrækt, garðrækt og ylrækt og einnig eftirfarandi starfsemi fari hún fram á lögbýlum: Eldi og veiðar vatnafiska, nýting hlunninda, framleiðsla og þjónusta.

2.grein samþykkt með öllum 12 atkvæðum fundarmanna

3. gr.
Búnaðarsambandið skal halda skrá yfir aðildarfélög sín og samræmda félagaskrá yfir alla félagsmenn þeirra. Aðildarfélög skulu skila félagaskrám til búnaðarsambandsins fyrir 1. feb ár hvert. Allir félagar í aðildarfélögum búnaðarsambandsins eru félagar í búnaðarsambandinu nema þeir óski skriflega eftir því að vera það ekki. Búnaðarsambandinu er heimilt að innheimta árgjöld af félögum sínum en upphæð þess og fyrirkomulag innheimtu er ákveðið á aðalfundi. Félagar geta misst aðild sína að búnaðarsambandinu standi þeir ekki skil á árgjöldum í samræmi við reglur sem aðalfundur setur.

3.grein samþykkt með öllum 12 atkvæðum fundarmanna

4. gr.
Tilgangur og verksvið sambandsins er:
– að annast lögboðna starfsemi búnaðarsambanda hverju sinni
– að beita sér fyrir bættum kjörum bænda á öllum sviðum og gæta hagsmuna þeirra
– að vera aðili að Bændasamtökum Íslands og vera starfandi tengiliður milli þeirra og bænda á félagssvæðinu
– að bjóða bændum á svæðinu upp á faglega ráðgjöf á sem flestum sviðum landbúnaðar
– að vinna að kynbótum búfjár með þeim aðferðum sem best henta í hverri búgrein á hverjum tíma
– að starfrækja kúasæðingar á öllu félagssvæðinu
– að vinna að öðrum þeim verkefnum sem aðalfundur sambandsins ákveður hverju sinni

4.grein samþykkt með öllum 12 atkvæðum fundarmanna

5. gr
Búnaðarsambandið mun leitast við að ná tilgangi sínum með því:
– að hafa í sinni þjónustu starfsmenn með sérþekkingu á þeim fagsviðum sem sambandið leggur áherslu á
– að hafa yfir að ráða húsnæði, nauðsynlegum tækjum og fjármagni til starfseminnar á hverjum tíma

5.grein samþykkt með öllum 12 atkvæðum fundarmanna

6. gr.
Aðalfund búnaðarsambandsins skal halda árlega og eigi síðar en í júní. Þau ár sem kosning til Búnaðarþings fer fram skulu þó ákvæði samþykkta Bændasamtaka Íslands gilda eftir því sem við á. Aðalfund skal stjórn boða á tryggilegan hátt með minnst viku fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum á aðalfundi. Samþykktum þessum má þó einungis breyta á lögmætum aðalfundi og þurfa a.m.k. 2/3 hlutar mættra fulltrúa að samþykkja breytingarnar. Tillögur til breytinga á samþykktum ber að kynna með fundarboði.
Aukafulltrúafund skal halda ef stjórn eða a.m.k. einn fjórði hluti kjörinna fulltrúa krefst þess og skal í fundarboði tilgreina ástæðu og fundarefni.
Auk kjörinna fulltrúa hafa stjórn búnaðarsambandsins og starfsmenn þess málfrelsi og tillögurétt á aðalfundi svo og allir félagsmenn aðildarfélaga. Atkvæðisrétt hafa aðeins kjörnir fulltrúar og skal enginn fara með nema eitt atkvæði. Aðeins félagar í búnaðarsambandinu geta verið löglegir fulltrúar á aðalfundi þess.
Hvert aðildarfélag innan búnaðarsambandsins kýs fulltrúa til setu á aðal- og aukafundum búnaðarsambandsins sem hér segir:
Félög með allt að 20 félaga kjósi 1 fulltrúa.
Félög með 21 til 40 félaga kjósi 2 fulltrúa.
Félög með 41 eða fleiri félaga kjósi 3 fulltrúa.
Kosning fulltrúanna gildir milli aðalfunda og skulu félögin skila kjörbréfum eigi síðar en á aðalfundi búnaðarsambandsins.

6.grein samþykkt með öllum 12 atkvæðum fundarmanna

7. gr.
Á aðalfundi skal m.a. :
– afgreiða kjörbréf fulltrúa
– leggja fram skýrslu stjórnar og ráðunauta um starfsemi á liðnu ári
– leggja fram til afgreiðslu endurskoðaðan ársreikning síðasta árs og fjárhagsáætlun yfirstandandi árs
– kjósa trúnaðarmenn skv. 8. gr.
– ákveða greiðslur til stjórnar- og skoðunarmanna fyrir störf í þágu búnaðarsambandsins
– móta faglegar og stéttarlegar áherslur í hverri búgrein fyrir sig
– ákveða árgjald og gjaldskrá búnaðarsambandsins

7.grein samþykkt með öllum 12 atkvæðum fundarmanna

8. gr.
Stjórn Búnaðarsambandsins skal skipuð fimm mönnum og skiptir stjórnin sjálf með sér verkum. Kosnir skulu jafnmargir til vara. Stjórn og varastjórn skal þannig skipuð: Úr Strandasýslu einn stjórnarmaður, úr Vestur-Húnavatnssýslu tveir og úr Austur-Húnavatnssýslu tveir. Stjórnarmenn og varamenn þeirra skulu kosnir til þriggja ára þannig að Strandamenn skulu kosnir eitt árið, Vestur-Húnvetningar annað árið og Austur-Húnvetningar hið þriðja.
Tveir skoðunarmenn reikninga skulu kosnir til eins árs í senn og tveir til vara. Öllum félagsmönnum búnaðarsambandsins er skylt að taka kosningu eitt kjörtímabil.

8.grein samþykkt með 11 atkvæðum gegn einu

9. gr.
Stjórnin getur ráðið framkvæmdastjóra og fer hann þá með daglega yfirstjórn í samræmi við ákvarðanir stjórnar og aðalfundar og ræður annað starfsfólk í samráði við stjórn.
Stjórnarfundi heldur stjórnin eftir þörfum hverju sinni og boðar formaður til stjórnarfunda. Formanni er skylt að boða til stjórnarfundar krefjist tveir stjórnarmenn eða framkvæmdastjóri þess. Halda skal fundagerðarbók um það sem fram fer á stjórnarfundum sem skal undirrituð af þeim sem sitja fund.

9.grein samþykkt með öllum 12 atkvæðum fundarmanna

10. gr.
Við stofnun BHS er settur á fót Þróunarsjóður með stofnframlögum frá búnaðarsamböndum A-Hún, V-Hún og Strandamanna skv samkomulagi þeirra í milli frá 1. maí 2006. Búnaðar- og búgreinafélög á svæðinu geta fengið framlög úr sjóðnum en aðalfundur setur nánari reglur um hvernig með fjármuni sjóðsins skuli fara. Reglur sjóðsins og breytingar á þeim þurfa samþykki a.m.k. 2/3 hluta mættra fulltrúa á aðalfundi.

10.grein samþykkt með 11 atkvæðum en einn sat hjá.

11. gr.
Fulltrúar BHS á búnaðarþing skulu kosnir svæðabundið. Félagsmenn í A-Húnavatnssýslu eða fulltrúar þeirra á aðalfundi kjósi 1 fulltrúa, félagsmenn í V-Húnavatnssýslu eða fulltrúar þeirra á aðalfundi kjósi 1 fulltrúa og félagsmenn í Strandasýslu eða fulltrúar þeirra á aðalfundi kjósi 1 fulltrúa. Ef breyting verður á fjölda búnaðarþingsfulltrúa frá því sem nú er skal kosið sameiginlega á öllu svæðinu og ekki svæðabundið.

11.grein samþykkt með 11 atkvæðum en einn sat hjá.

12. gr.
Búnaðarsambandinu verður ekki slitið nema a.m.k. 2/3 hlutar mættra fulltrúa samkvæmt samþykktum kjörbréfum samþykki það á tveimur aðalfundum í röð, enda hafi tillaga að slitum verið auglýst í fundarboði. Ráðstafar þá síðari fundurinn eignum og/eða skuldum sambandsins ef einhverjar eru.
12.grein samþykkt með öllum 12 atkvæðum fundarmanna

13. gr.
Samþykktir þessar öðlast gildi 1. jan 2007 að því tilskyldu að þær hafi verið staðfestar af stjórn Bændasamtaka Íslands.
13.grein samþykkt með 11 atkvæðum en einn sat hjá.

Ákvæði til bráðabirgða:
Núverandi stjórn Ráðunautaþjónustunnar starfar þar til kosin hefur verið stjórn búnaðarsambandsins á aðalfundi 2007. Á þeim aðalfundi skal þrátt fyrir ákvæði 8. gr. kjósa alla stjórnarmenn og varamenn þeirra. Skal hlutkesti ráða af hvaða svæðum stjórnarmenn eru kosnir til eins, tveggja og þriggja ára. Núverandi skoðunarmenn starfa þar til skoðunarmenn hafa verið kosnir á aðalfundi 2007.

Bráðabirgðaákvæði samþykkt með öllum 12 atkvæðum fundarmanna

Samykktir BHS voru síðan bornar upp í heild sinni og samþykktar með 11 atkvæðum en einn sat hjá.
Jón Gíslason óskaði fundarmönnum til hamingju með stofnun nýs búnaðarsambands. Fundarstjóri gerði að tillögu sinni að fundargerð yrði send fundarmönnum, bauð síðan fundarmönnum í kaffi og sleit síðan fundi um kl 15:30

Gunnar Ríkharðsson ritaði fundargerð

Posted in BHS