Samanburður áburðartegunda

Fyrir þá sem vinna sínar áætlanir sjálfir viljum við benda á að á heimasíðunni okkar erum við með excel-skjal sem sýnir magn fosfórs og kalí sem fylgir með hverjum 100 kg af köfnunarefni í mismunandi blöndum áburðarsalanna og verð miðað við það. Við hvetjum menn til að skoða það. Hægt er að hlaða því niður og breyta verðum eftir eigin forsendum varðandi greiðslukjör og reikna þannig gróflega út hversu miklu munar ef valdar eru sambærilegar tegundir. Einnig er hægt er að breyta magni köfnunarefnis eftir hentugleika og þá breytist magn annarra efna og verð á hektara jafnóðum.

Nokkur atriði þarf að hafa í huga við gerð áburðaráætlana. Í upphafi þarf að setja niður fyrir sér forsendur um hversu mikið af aðalnæringarefnunum (köfnunarefni, fosfór og kalí) við viljum bera á hverja spildu. Hægt er að sjá ráðleggingar um það m.a. í Handbók bænda, á heimasíðu okkar og víðar. Þar sem búfjáráburður er borinn á þarf að meta magn sem borið er á, á hvern hektara og hversu vel við getum gert ráð fyrir að hann nýtist.

Þegar búið er að draga frá það magn köfnunarefnis, fosfórs og kalís sem gert er ráð fyrir að komi úr búfjáráburðinum standa eftir þarfirnar sem tilbúni áburðurinn þarf að uppfylla. Nú er t.d. hægt að nota töfluna sem ber saman verð milli áburðarsalanna. Ef enginn búfjáráburður er borinn á er rétt að áætla 100-120 kg af N í þörfina og slá það inn í efsta reitinn. Síðan er rétt að velja þá tegund sem kemst næst því að uppfylla þarfir annarra efna.

Hafið í huga að áburðarsalarnir eru ekki alltaf með algjörlega sambærilegar tegundir en réttast er að velja þær tegundir til samanburðar sem komast sem næst þörfunum sem áætlaðar voru. Það þarf ekki alltaf að vera sú tegund sem telja má „sambærilegasta“ tegund sem valin er hjá öðrum áburðarsala ef úrvalið er mismikið. AMJ

Posted in BHS