Sauðfjárræktin 2010

Sauðfjárræktin 2010

Anna Margrét Jónsdóttir
Hér birtast skýrslu­haldstölur ársins 2010 í sauðfjárræktinni. Í heild var aukning í afurðum um 0,1 kg eftir hverja skýrslufærða á á svæðinu sem er sama aukning og í fyrra. Þetta var þó aðeins breytilegt eftir sýslum og taka Strandamenn á ný afgerandi forskot eftir nokkuð svipaðar niðurstöður hjá þeim og V-Húnvetningum árið 2009. Í heild sinni er svæðið 0,5 kg yfir landsmeðaltali sem er 26,9 kg.

Afurðir síðustu ára eru settar fram myndrænt hér fyrir neðan þar sem súlurnar sýna fædd lömb eftir hverja vetrarfóðraða á og línurnar sýna afurðir í kg eftir hverja vetrarfóðraða á. Þar sést glöggt sá mikli munur sem er á milli Stranda og V-Hún annars vegar og A-Hún hins vegar. Strandasýsla er nú í efsta sæti yfir landið og V-Hún í því þriðja meðan A-Hún er næst neðst. Þarna munar mest um frjósemina sem Austur-Húnvetningar þurfa að vinna ötullega að því að bæta á næstu árum.

Í næstu töflum má sjá þá bæi sem efst standa í hverri sýslu fyrir sig, annars vegar með mestar afurðir eftir hverja á og hins vegar með hæsta gerðarmat sláturlamba. Þar má sjá glæsilegan árangur einstakra bænda á svæðinu. Gaman er að geta þess að meðal 10 afurðahæstu bænda á landinu eigum við á svæði BHS fjóra fulltrúa og þ.á.m. þau sem efsta sætið skipa á landsvísu, Þormóð og Borghildi á Sauðadalsá. Sömuleiðis eigum við tvo fulltrúa af 10 efstu bæjum í gerðarmati sláturlamba og þ.á.m. efsta sætið á landsvísu sem þau Akurshjón, Jóhanna og Gunnar verma.

Að lokum birtum við töflur sem sýna stöðuna í lambaskoðun og sæðingum í ár. Mikil aukning varð í lambaskoðunum í haust og voru það fyrst og fremst Austur-Húnvetningar sem bættu í svo um munaði. Var aukningin hlutfallslega meiri í fjölda skoðaðra gimbra. Áhugavert er að rétt ríflega helmingur allra skoðaðra lambhrúta á svæðinu eru í Strandasýslu en gimbrarnar skiptast jafnar.

Nokkur samdráttur varð hins vegar í sæðingum á milli ára en þær hafa verið í mikilli sókn undanfarin ár eins og sjá má.



Eitt lamb mældist með 39 mm þykkan bakvöðva og var það gimbur, Krummadóttir frá Steinnesi í A-Hún. Einn lambhrútur mældist síðan með 38 mm þykkan bakvöðva og var það At-sonur á Steiná 3 í Svartárdal.

Meðal ómvöðvi gimbra á svæðinu var 26,3 mm eins og í fyrra en meðal ómvöðvi hrúta var 27,8 mm sem er sjónarmun meira en í fyrra (27,6). Þykkasti bakvöðvinn í >50 lamba gimbrahjörð var hjá Jóhönnu og Gunnari á Akri eða 30 mm. Næst á eftir þeim koma gimbrar þeirra Ara Guðmundar og Elínar Önnu á Bergsstöðum í Miðfirði með 29,4 mm og þar á eftir gimbrarnar hjá Jóni og Ernu í Broddanesi með 29,1 mm.