Sauðfjárræktin 2009

Sauðfjárræktin 2009

Kristján Óttar Eymundsson
Anna Margrét Jónsdóttir
Árið 2009 reyndist ágætt ár í sauðfjárræktinni enda vorið sérlega gott, sumarið hlýtt og haustið áfallalaust. Afurðir eftir hverja vetrarfóðraða á jukust um 0,5 kg í báðum Húnavatnssýslunum en drógust heldur saman á Ströndum og skilaði meðalærin þar 0,4 kg minna en árið á undan. Í heild var því aukning um 0,2 kg eftir hverja skýrslufærða á á svæðinu.

Afurðir síðustu ára eru settar fram myndrænt hér fyrir neðan þar sem súlurnar sýna fædd lömb eftir hverja vetrarfóðraða á og línurnar sýna afurðir í kg eftir hverja vetrarfóðraða á. Þar sést glöggt að Austur-Húnvetningar þurfa að taka sig verulega á til að ná upp þessum 12 lamba mun eftir hverjar 100 vetrarfóðraðar ær. Vestur-Húnvetningar skríða nú í fyrsta skipti aðeins upp fyrir Strandamenn í afurðum eftir hverja vetrarfóðraða á en þessar sýslur hafa lengi vel verið afar jafnar og eru nú í fyrsta og öðru sæti á landsvísu.

Í töflunni hér fyrir neðan má sjá þá sem mestar afurðir höfðu eftir hverja vetrarfóðraða á, í hverri sýslu fyrir sig. Miðað er við að á búunum séu að lágmarki 100 skýrslufærðar ær. Efsta búið á svæðinu er að sjálfsögðu Skjaldfönn sem setti á árinu íslandsmet í afurðum með 39,4 kg eftir hverja vetrarfóðraða á og má geta þess að eftir á með lambi voru afurðirnar 40,5 kg!

Sýsla Eigendur Bær Fjöldi áa Kjöt kg e. hv. á Fædd lömb
Strandir Indriði og Lóa Skjaldfönn 211 39,4 1,91
Strandir Jón og Erna Broddanesi 1 302 34,7 1,94
Strandir Ragnar og Sigríður Heydalsá 421 34,1 1,97
Strandir Guðbrandur og Lilja Bassastöðum 227 33,5 1,93
Strandir Guðjón Sigurgeirsson Heydalsá 341 33,3 1,94
V-Hún Þormóður og Borghildur Sauðadalsá 460 38 2,08
V-Hún Ellert og Heiða Sauðá 384 37 2,07
V-Hún Baldur og Olga Saurbæ 420 35,3 2,16
V-Hún Benedikt og Sigrún Bergsstöðum 399 33,2 2,03
V-Hún Magnús Guðmundsson Helguhvammi 2 170 33,2 1,98
A-Hún Lúther og Sigríður Forsæludal 245 33,4 2,04
A-Hún Magnús og Líney Steinnesi 521 32,5 1,88
A-Hún Jóhanna og Gunnar Akri 157 29,9 1,87
A-Hún Sigursteinn Bjarnason Stafni 264 29,9 1,82
A-Hún Pétur og Þorbjörg Hólabæ 210 29,6 1,78

Í næstu töflu hér fyrir neðan má sjá þá bæi sem hæst stóðu í hverri sýslu fyrir sig hvað gerðarmat sláturlamba snertir. Sem fyrr er miðað við að til grundvallar liggi mat á að lágmarki 100 sláturlömbum frá hverju búi. Þar standa hæst á svæðinu hjónin á Akri í A-Hún með stórglæsilegt gerðarmat upp á 12. Gaman er að segja frá því að efstu búin á landsvísu með annars vegar afurðir eftir vetrarfóðraða á (Skjaldfönn) og hins vegar hæsta gerðarmatið (Akur) eru bæði af svæði BHS og megum við vera stolt af því.

Sýsla Eigendur Bær Fj. slátur-lamba Fall-þungi Gerð Fita
Strandir Jón og Erna Broddanesi 1 248 18,23 11,02 7,38
Strandir Guðjón Sigurgeirsson Heydalsá 488 17,58 10,52 7,01
Strandir Guðbrandur og Björn Smáhömrum 315 17,82 10,39 8,04
Strandir Rögnvaldur Gíslason Gröf 330 17,69 10,17 7,05
Strandir Ragnar og Sigríður Heydalsá 490 17,87 10,11 6,80
V-Hún. Sigvaldi og Þóra Urriðaá 552 17,95 11,09 7,74
V-Hún Benedikt og Sigrún Bergsstöðum 723 17,17 10,35 5,89
V-Hún. Gunnar og Matthildur Þórodsstöðum 567 17,76 10,33 7,17
V-Hún Elín Anna og Ari Guðm. Bergsstöðum 694 17,31 10,18 7,51
V-Hún Magnús Elíasson Stóru-Ásgeirsá 106 17,16 10,12 6,62
A-Hún Jóhanna og Gunnar Akri 240 18,28 12,00 8,02
A-Hún Jóhanna og Grímur Reykjum 289 16,49 10,20 7,20
A-Hún Jón og Kristjana Stóra-Búrfelli 206 16,55 10,11 7,84
A-Hún Björn og Dagný Ytra-Hóli 165 17,75 10,02 7,79
A-Hún Magnús og Líney Steinnesi 891 18,20 10,00 7,71

Næstu tvær myndir sýna annars vegar umfang lambaskoðana og hins vegar sæðinga með fersku sæði á árinu 2009. Lambaskoðun tók aftur stökk upp á við á síðasta ári og vegur þar reyndar þungt að afkvæmarannsókn sæðingastöðvanna var á Heydalsár­bæjunum báðum og voru því skoðuð á annað þúsund lömb þeim bæjum einum.

Sæðingar aukast áfram jafnt og þétt og sýnir það vonandi áframhaldandi aukinn áhuga á ræktunarstarfinu.