Anna Margrét Jónsdóttir
Árið 2008 reyndist gott ár í sauðfjárræktinni. Afurðir voru talsvert meiri en árið á undan enda vorið sérlega gott, sumarið hlýtt og haustið áfallalaust. Í heild jukust afurðir eftir hverja vetrarfóðraða kind um 1 kg frá árinu 2007.
Afurðir síðustu ára eru settar fram myndrænt hér fyrir neðan þar sem súlurnar sýna fædd lömb eftir hverja vetrarfóðraða á og línurnar sýna afurðir í kg eftir hverja vetrarfóðraða á. Þar sést glöggt munurinn sem er á milli Vestur-Hún og Stranda annars vegar og A-Hún hins vegar en A-Húnvetningar eiga enn verulegt sóknarfæri í sauðfjárræktinni ef miðað er við nágrannana í vestri. Myndi þar muna mest um að ná upp frjóseminni og verður greinilega að gera sérstakt átak í því.
Í töflunni hér fyrir neðan má sjá þá sem mestar afurðir höfðu eftir hverja vetrarfóðraða á, í hverri sýslu fyrir sig. Miðað er við að á búunum séu að lágmarki 100 skýrslufærðar ær. Gaman er að segja frá því að af 5 efstu búum yfir landið eru 4 af svæði BHS eða Sauðadalsá, Skjaldfönn, Heydalsá og Sauðá enda stórglæsilegur árangur í sauðfjárræktinni á öllum þessum búum.
Í næstu töflu hér fyrir neðan má sjá þá bæi sem hæst stóðu í hverri sýslu fyrir sig hvað gerðarmat sláturlamba snertir. Sem fyrr er miðað við að til grundvallar liggi mat á að lágmarki 100 sláturlömbum frá hverju búi. Þar standa hæst á svæðinu hjónin á Akri í A-Hún en þau voru jafnframt í þriðja sæti yfir landið sem er stórglæsilegur árangur.
Næstu tvær myndir sýna annars vegar umfang lambaskoðana og hins vegar sæðinga á árinu 2008. Lambaskoðun dróst heldur saman milli ára en eins og sjá má á myndinni hefur á síðustu árum orðið gríðarleg aukning milli ára sem getur auðvitað ekki haldið endalaust áfram. Sæðingar aukast hins vegar enn jafnt og þétt og sýnir það vonandi áframhaldandi aukinn áhuga á ræktunarstarfinu.