Sauðfjárræktin 2007

Sauðfjárræktin 2007
Anna Margrét Jónsdóttir

Engin afurðamet voru slegin árið 2007 enda vor og sumar með eindæmum þurrt sem leiddi til þess að gróður í úthaga var í seinna lagi til og féll snemma. Einnig var minni haustbeit víða og grænfóðurrækt brást sums staðar nær algerlega. Má þó segja að Strandamenn hafi staðið þessi áföll einna best af sér.

Fjöldi virkra skýrsluhaldara á öllu svæðinu voru 240 á árinu og er það fjölgun um 3 frá árinu áður. Í töflunni hér fyrir neðan má sjá afurðir í félögunum, sýslunum og á svæði BHS í heild sinni síðan 2002.

Mestar afurðir eftir hverja vetrarfóðraða á má sjá fyrir hverja sýslu fyrir sig, í töflunni hér fyrir neðan. Til grundvallar liggja bú með 100 eða fleiri skýrslufærðar ær.

Hér fyrir neðan má sjá besta gerðarmat sláturlamba í hverri sýslu fyrir sig. Miðað er við að frá búunum séu lagðir inn að lágmarki 100 lömb.

Ræktunaráhugi fer sívaxandi á svæðinu sem sést best í árlegri aukningu á notkun lambamælinga að hausti og sæðinga. Eins og undanfarin ár var boðið upp á 9 sæðingadaga á öllu svæðinu og nýttu bændur sér það vel. Afar heppilegt er fyrir þá sem vilja sæða ósamstillt að hafa svona marga daga í boði, því þá eru meiri líkur á að hitta á tímabil þegar margar ær eru að ganga og hægt að velja vel.

Alltaf fjölgar þeim bændum sem láta ómmæla og stiga lömb að hausti og alltaf fjölgar þeim lömbum sem hver og einn lætur skoða. Ljóst er að við getum því ekki gert mikið annað frá um 20. september til 20. október en sinnt lambaskoðunum, þar sem nær hver einasti virkur dagur var þétt skipaður og flestar helgar líka Við fengum með okkur nýjan starfskraft á ómtækið, Stefaníu Egilsdóttur á Breiðavaði í A-Hún og munaði heilmikið um það.

Með stærri skoðuðum gimbrahjörðum á mörgum bæjum, færast afkvæmarannsóknir einnig í vöxt. Gerðar voru upp 76 afkvæmarannsóknir sem skiptust þannig: Strandasýsla 28, V-Hún 29 og A-Hún 19. Eru þetta 9 fleiri afkvæmarannsóknir en árið áður og hafa þær aldrei verið fleiri né jafn stórar að umfangi.