Kristján Óttar Eymundsson
Óhætt er að segja að árið 2006 hafi reynst sauðfjárbændum á svæðinu misjafnlega. Slæmt vor koma víða illa við bændur með tilheyrandi afföllum á lömbum. Þegar sumarið kom loksins reyndist það vel til beitar og eins fram á haustið. Þó að víða hafi verið of fá lömb til nytja og fallþungi lægri en fyrri ár, voru afurðamet samt slegin annarsstaðar eins og hjá bændum á Vatnsnesinu.
Samkvæmt bráðabirgðatölum frá haustinu 2006 var tala sauðfjár á öllu starfssvæðinu alls 84.289 talsins. Þær tölur eiga þó eftir að breytast eitthvað þegar niðurstöður úr talningu nú í vor eru komnar inn. Sauðfjárfjöldinn hefur á síðustu árum þróast misjafnt eftir sýslum. Í A-Hún er búinn að vera tiltölulega jafn stígandi í sauðfjárfjölda síðustu árin þó að eitthvað virðist hafa dregið úr ásetningi haustið 2006. Í V-Hún varð aftur á móti umtalsverð fjölgun á árinu 2006 miðað við fyrra ár. Á Ströndum hefur sauðfjáreign haldist nokkuð stöðug á milli ára.
Þróun í fjölda sauðfjár á svæðinu árin 2000-2006
Fjöldi virkra skýrsluhaldara á öllu svæðinu er um 235 talsins og hefur haldist nokkurn veginn óbreyttur á milli ára. Þó kemur það því miður fyrir að einhverjir skila ekki inn skýrslu á hverju ári sem leiðir til þess að þeir detta út úr gæðastýringunni það árið. Enn eru til bændur sem ekki eru í gæðastýringunni. Ef bornir eru saman skýrsluhaldsbæir og sauðfjáreigendur á svæðinu haustið 2006 kemur í ljós að 48 aðilar eiga kindur en eru ekki í gæðastýringu. Þar inni eru reyndar nokkrir sem eiga mjög fáar kindur en þó er meðal sauðfjáreign þessara 48 aðila rétt tæplega 100 kindur. Heildarfjöldi sauðfjár sem ekki eru í gæðastýringu samkvæmt því er 4.674 eða tæplega 6% af öllu sauðfé á svæðinu.
Greiðslumarkseign á öllu svæðinu var í lok árs 68.623 ærgildi. Skiptingin er þó ekki jöfn hlutfallslega eftir svæðum miðað við sauðfjáreign. Í Strandasýslu er greiðslumarkið 99% af sauðfjárfjölda, 76% í V-Hún og 75% í A-Hún.
Þó að fénu hafi fjölgað í heild sinni á svæðinu má segja að áhugi á ræktunarstarfinu hafi aukist enn meira. Alltaf fjölgar þeim bændum sem láta ómmæla og stiga lömb að hausti og alltaf fjölgar þeim lömbum sem hver og einn lætur skoða. Má láta nærri að um 16.000 lömb hafi verið skoðuð haustið 2006. Gekk sú skoðun hratt og vel fyrir sig enda Ráðunautaþjónustan óvenju vel mönnuð þetta árið. Með stærri skoðuðum gimbrahjörðum á mörgum bæjum, færast afkvæmarannsóknir einnig í vöxt. Gerðar voru upp 68 afkvæmarannsóknir sem skiptust þannig: Strandasýsla 25, V-Hún 25 og A-Hún 18. Til samanburðar má geta þess að 67 afkvæmarannsóknir voru gerðar árið áður en þær voru margar hverjar minni að umfangi en nú.
Umfang sæðinga með fersku sæði árin 2002-2006 | |||||
2006
|
2005
|
2004
|
2003
|
2002
|
|
A-Hún |
1.677
|
1.733
|
1.378
|
1.144
|
1.089
|
V-Hún |
1.515
|
1.193
|
1.174
|
838
|
1.229
|
Strandir |
401
|
558
|
338
|
463
|
586
|
Samtals |
3.593
|
3.484
|
2.890
|
2.445
|
2.904
|
Eins og árið áður var boðið upp á 9 sæðingadaga á öllu svæðinu og nýttu bændur sér vel þetta mikla framboð á dögum. Það er mjög ánægjuleg þróun, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að sennilega hefur aldrei verið verslað með fleiri kynbótahrúta en einmitt nú í haust. Fram til þessa hafði Ráðunautaþjónustan boðið upp á sæðingaþjónustu en því var hætt nú í haust vegna þess hve óhagkvæm hún var í rekstri. Þess í stað var boðið upp á sæðinganámskeið sem var mjög vel sótt. Bændur fóru því meira út í það að sæða sjálfir. Ráðunautaþjónustan sá um að halda utan um pantanir og deila sæði út til bænda. Má segja að þetta kerfi hafi gefið ágæta raun.
Með bættri afkomu greinarinnar er greinileg vakning orðin hjá bændum. Hún lýsir sér m.a. í því að sífellt fleiri bændur eru farnir að huga að fjárhúsabyggingum, nýgreftri og endurræktun túna. Þessir þættir samfara miklum ræktunaráhuga ættu að skila sér í enn betri árangri í greininni þegar fram líða stundir.