Dómstigi við mat á lifandi fé

Dómstigi við mat á lifandi fé
Jón Viðar Jónmundsson,
Bændasamtökum Íslands

Hér á eftir er birt lýsing á stigagjöf sauðfjár eftir þeim reglum sem nú er unnið eftir. Lýsingin er miðuð við mat á lambhrútum en hún á að sjálfsögðu við alla hópa sauðfjár sem stigagjöfin er notuð fyrir. Auk þess sem kindin er stiguð þá eru fyrir hendi upplýsingar um þunga hennar, mælingar á brjóstummáli, spjaldbreidd og fótleggjarlengd, ásamt ómsjármælingum.
Samtals níu mismunandi þættir eru tölusettir við stigagjöf. Fyrir öll atriðin utan eitt er hámarkseinkunn 10, en fyrir læri er gefið að hámarki 20. Möguleg heildareinkunn er 100. Í raun er það þannig að meginþorri hrútlamba, sem til stigunar kemur, fær á bilinu 75 til 85 stig í heildareinkunn. Gripir, sem stigast hærra en það, eru miklir afburðaeinstaklingar. Neðri mörk á vel nothæfum ásetningshrútum er eðlilegt að setja við um 80 stig, miðað við það mikla úrval, sem nú er orðið í íslensku sauðfé.
Hér á eftir er lýsing á stigakvarða fyrri einstaka þætti sem stigaðir eru.

Haus

Þegar þessi eiginleiki er metinn þá er eingöngu horft til galla sem ástæða er til að lækka einstaklinginn vegna. Ekki er hins vegar gefið hærra en 8 þannig að þessi eiginleiki hefur í raun lækkað vægi í heildarstigun gripsins. Stigun verður þá eftirfarandi;
8,0:
Ekki ástæða til að lækka gripinn í mati vegna þessa eiginleika.
7,5:
Ákaflega svip- og þróttlítill haus, gróf horn, leiðinlegir hnýflar, bit ekki alveg í lagi en án alvarlegra galla.
7,0:
Alvarlegir bitgallar, hnýflar til vandræða. Þessi einkunn væri reiknuð sem falleinkunn við ásetning.
6,5:
Verulega gallað bit þannig að lambið er útilokað til ásetnings, hnýflar í haus.
6,0
: Vansköpun.

Háls og herðar. Bringa og útlögur

Þessa tvö þætti er eðlilegt að meta í vissu samhengi, horft á frambygginguna sem heild fyrst, þannig að hægt sé að hnika stigagjöf til um hálft til heilt stig fyrir hvorn þátt til að lýsa því hvar kostir og gallar koma fram í frambyggingu. Þegar þessir þættir eru metnir er ástæða til að taka tillit til þess hve feitt lambið er og reyna eins og mögulegt er að forðast ofstigun fituhjassa, en þeir dylja betur galla en fituminni lömb. Heildarstigagjöf fyrir þessa þætti gerist þannig að 16 samtals sé það sem telst vel boðlegt á ásetningslambi, 15,5 gallað, en samt ekki til að fella sem ásetningslamb, 15 er til merkis um þann augljósa galla að lambið er ekki ásetningshæft. Færri stig útiloki með öllu ásetning.

Háls og herðar
10,0:
Er tæplega nokkru sinni gefið og því aðeins gefið fyrir það sem talið er að geti ekki orðið betra.
9,5:
Fádæma góð gerð. Stuttur sver, ákaflega vel bundinn háls. Herðar feikilega breiðar, ávalar og fádæma vel holdfylltar.
9,0:
Frábær gerð. Stuttur sver háls, vel bundinn. Herðar mjög breiðar, kúptar og ákalega vel holdfylltar.
8,5:
Mjög góð gerð. Vel gerður, stuttur og vel bundinn háls. Breiðar vel lagaðar og holdfylltar herðar.
8,0:
Góð gerð. Fremur stuttur vel bundinn háls og herðar fremur breiðar og vel holdfylltar.
7,5:
Greinilegir minniháttar gallar í gerð. Háls í lengra lagi, háar herðar, tæplega nægjanleg fylling um bóga.
7,0:
Áberandi byggingargallar. Grannur háls og langur, háar, hvassar herðar, áberandi slöður og léleg holdfylling um herðar.
6,5:
Stórgallaður gripur í gerð.

Bringa og útlögur
10,0:
Er tæplega nokkru sinni gefið en gerist það er það aðeins fyrir eitthvað sem menn hafa ekki áður séð.
9,5:
Fádæma góð gerð. Brjóstkassi sívalur, með fádæma útlögur og bringa feikilega breið og löng.
9,0:
Frábær gerð. Sívalur brjóstkassi, mjög miklar útlögur, mjög breið og framstæð bringa.
8,5:
Mjög góð gerð. Mjög vel hvelfdur brjóstkassi og breið bringa.
8,0:
Góð gerð. Góðar útlögur og breið vel löguð bringa.
7,5:
Augljósir gallar. Útlögur í slöku meðallagi, bringa full stutt eða mjókkar of mikið aftur eða vantar á breidd.
7,0:
Verulegir gallar. Flatvaxinn, fjalarlaga gripur, mjög mjó bringa, alltof stutt bringa.
6,5:
Stórgallaður gripur.

Bak

Við stigagjöf fyrir þennan þátt er mjög stuðst við ómsjármælingu bæði mælitölur og stigun fyrir lögun bakvöðva. Hér væri 7,5 orðið slakt ásetningslamb og færri stig hrein falleinkunn.
10,0:
Eitthvað alverg einstakt sem tæpast hefur áður sést. Þykkt bakvöðva í allra efstu mörkum þess sem mælst hefur, þunn fita og lögun bakvöðva 5. Í átaki væri feikilega þykkt, breitt og sterkt bak.
9,5:
Fádæma góð bakhold. Þykkt bakvöðva í allra efstu mörkun, lítil fituþykkt, lögun 5. Átak frábært og bak breitt.
9,0:
Frábær bakhold. Mjög þykkur bakvöðvi, fremur lítil fita, gerð vöðva ekki lægri en 4. Átak feikilega gott og spjaldbreidd mikil.
8,5:
Mjög góð bakhold. Bakvöðvi mælist mjög þykkur í ómsjá, fituþykkt innan hæfilegra marka, lögun ekki lægri en 4. Átak mjög gott, bak sterkt og spjaldbreidd góð.
8,0:
Góð bakhold. Þykkt ómvöðva í góðu meðallagi (æskilegt að sett séu tiltekin lágmörk, að teknu tilliti til fallþunga fyrir hverja ómsjá) og fita ekki óhæfileg. Lögun ekki lægri en 3. Gott átak á baki, háþorn eða þverþorn finnist vart og spjaldbreidd í góðu lagi.
7,5:
Greinileg aðfinnsluatriði, en lambið kemur þó til greina sem ásetningslamb. Þykkt ómvöðva í meðallagi, of mikil fita, leiðindalögun bakvöðva. Átak lítilega gallað, spjaldbreidd í neðri mörkum, linur í baki.
7,0:
Áberandi gallar. Ómmælingu talsvert áfátt, bæði um þykkt og lögun. Átak greinilega gallað, greinilega finnst fyrir háþornum og þverþornum. Spjaldbreidd áfátt.
6,5:
Áberandi gallar, slakt sláturlamb.

Malir

Hér eru viðmiðanir líkar og fyrir bak. Ásetningshrútar helst með 8 eða meira, 7,5 sleppur, en 7 væri falleinkunn. Við mat á þessum eiginleika er einnig mikil þörf á að reyna að glöggva sig á hvort um geti verið að ræða fitupunga og forðast ofstigun þeirra.
10,0:
Eitthvað einstakt og því vart notað.
9,5:
Fádæma góð malahold. Feikilega breiðar, langar malir með kúptum mjög þykkum vöðva.
9,0:
Frábær malahold. Mjög breiðar, jafnar malir með góða lengd.

          Vöðvafylling feikilega mikil og vöðvi vel kúptur.

8,5: Mjög góð malahold. Ágætlega breiðar, jafnar, nokkuð langar malir með þykkan vel fylltan og kúptan vöðva.
8,0:
Góð malahold. Breiðar, jafnar og vel holdfylltar malir. Malir mega vera hallandi eða afturdregnar ef holdfylling er góð.
7,5:
Greinilegir gallar. Malir full grannar, full stuttar malir, afurdregnar malir, aðeins tortuberir. Holdfylling ekki meiri en í meðallagi.
7,0:
Áberandi gallar. Mjög grannar malir, alltof stuttar malir, áberandi tortuber. Vöðvafylling slök, þannig að líklega er ekki um að ræða nema O lamb.
6,5:
Óhæfur gripur, slakt sláturlamb. Lamb sem áreiðanlega getur ekki flokkast ofar en í O flokk.

Læri

Þetta er vafalítið langmikilvægasti þátturinn í mati á lömbunum. Hér þarf að leggja mikla áherslu á skýran mun á milli 16 og 15,5 í mati. Stigun 16 á að vera lágmarksmat fyrir ásetningslamb, en 15,5 í einkunn fyrir læri á að jafngilda því að lambið sé ekki, vegna læraholda, talið hæft í ásetning.
20,0:
Tala sem tæplega er notuð.
19,5:
Einstök lærahold. Ótrúlega mikil vöðvafylling í lærum, bólgnir vöðvar sem bunga alls staðar bæði utan- og innanlæris. Öruggt að lærafylling mætir kröfum um E flokk í kjötmati.
19,0:
Fádæma góð lærahold. Feikilega þykkur, kúptur vöðvi sem klæðir alveg niður á hækil og einstök fylling í krika. Nánast víst að ætti að flokkast sem E.
18,5:
Feikilega mikil lærahold. Gífurlega mikill þykkur og kúptur vöðvi með frábæra fyllingu í krika. Mjög líklega E flokkur.
18,0:
Gríðarlega mikil lærahold. Mjög þykkur kúptur vöðvi sem fyllir vel í krika. Áreiðanlega U flokkur, jafnvel E.
17,5:
Umtalsverð lærahold. Mjög mikill og þykkur lærvöðvi með góða fyllingu í krika. Nokkuð víst að flokkaðist í U flokk.
17,0:
Veruleg lærahold. Mikill og þykkur lærvöðvi sem fyllir vel í krika. Góðar líkur að sé U lamb, en áreiðanlega ekki neðar en R.
16,5:
Mjög góð lærahold. Góð fylling bæði niður á hækil og í krika og vel þykkur lærvöðvi með ávölun línum þannig að áreiðanlega sé um R flokk að ræða.
16,0:
Góð lærahold. Vöðvinn fyllir bæði niður á hækil og upp í krikann og er um leið nokkuð þykkur og ávalur, þannig að yfirgnæfandi líkur eru á að um R lamb sé að ræða.
15,5:
Gallar í læraholdum. Vantar vöðva niður á hækil, fyllingu í krika ábótavant, vöðvi of langur og ekki nægjanlega þykkur. Talsverðar líkur á að um O flokks lamb sé að ræða.
15,0:
Verulega gölluð lærahold. Lamb sem áreiðanlega getur ekki flokkast nema í O flokk.
14,5:
(eða lakara). Afleit lærahold. Um er að ræða lömb sem líkur eru á að gætu farið að flokkast í P.

Ull

Fyrir þennan eiginleika skal miða við að helst eigi ásetningshrútar að ná 8 (nema mislitir eða dökkir hrútar), lömb með 7,5 teljast samt ásetningshæf, 7 verður hins vegar falleinkunn fyrir þennan eiginleika.
10,0:
Einstakir ullareiginleikar og feikilegt ullarmagn, tæplega notað. Um væri að ræða einstaklega mikla, hreinhvíta, hrokkna, en um leið silkimjúka ull með mikinn gljáa.
9,5:
Fádæma ullargæði. Gífurlega mikið ullarmagns, en um leið að öllu leiti gallalaus ull að gæðum og mjög fín og tog mjúkt og liðað.
9,0:
Frábær ull að magni og gæðum. Mjög mikið ullarmagn en um leið frábær ullargæði, alhvít kind með mjúka og fína og glansandi ull.
8,5:
Mjög góð ull. Ullarmagn mikið og ullargæði góð. Um er að ræða alhvítan einstakling með fremur fína ull.
8,0:
Góð ull. Ullarmagn hið minnsta í meðallagi. Yfirleitt vel hvít kind, má finnast gult á haus og fótum en vart finnast gul hár á bol, ef til vill örlítið í skæklum eða á mölum. Svört og mórauð lömb með hreinan, jafnan lit, mikið ullarmagn og fína ull.
7,5:
Greinilegir gallar. Ullarmagn ef til vill í tæpu meðallagi. Gul hár greinileg í ull en ullin samt ekki áberandi gróf, ekki augljósir aðrir áberandi gæðagallar á ull. Dökkar kindur með hreina liti og meðalull að magni og fínleika fá einnig þessa einkunn. Refsað er með þessari einkunn fyrir áberandi dökkar dropur á haus.
7,0:
Verulega gölluð ull. Mjög lítil ull að magni. Mjög áberandi gular illhærur í ull. Mjög gróf og ójöfn ull. Óhreinir dökkir litir. Tvílitar kindur. (Þessi einkunn fellir að sjálfsögðu ekki tvílitt lamb sem ásetningslamb).
6,5:
(eða lægra). Óhæf ull. Ullarsnoðin, algul kind, hvítar illhærur, úr hófi gróf ull, áberandi dökkir blettir á bol. Slæmur dökkur litur eða mislitur, einnig t.d. goltótt sem er áberandi gult um leið á bol.

Fætur

Hér er beitt sömu aðferð og við stigun fyrir haus. Ekki er stigað hærra en 8 fyrir þennan eiginleika en 8 stig fá hins vegar öll lömb sem eru í lagi, 7,5 er gallað og 7,0 er orðin hrein falleinkunn.
8,0:
Fótstaða í lagi þannig að ekki er ástæða til að lækka heildareinkunn vegna þessa eiginleika.
7,5:
Greinilegur galli. Náin fótstaða, áberandi grannir og veiklulegir fætur, linar kjúkur, vottar fyrir snúningi í fótstöðu.
7,0:
Verulega gallað, þannig að ekki komi í ásetning. Greinilega snúin fótstaða. Mjög slakar kjúkur. Fótstaða sem greinilega háir hreyfingum lambsins.
6,5:
(eða lægra). Ákaflega alvarlegir gallar eða hrein vansköpun.

Samræmi

Þessi eiginleiki er samsafn nokkurra atriða sem eðlilegt er að horfa til þegar verið er að meta væntanleg ásetningslömb, en eru atriði sem koma ekki beint í mat á öðrum eiginleikum. Þarna ber að nota 8 fyrir það sem við erum vel sátt við. Hærri einkunnir eru notaðar fyrir áberandi kosti, bollöng, kviðlétt lömb með gott samræmi í byggingu. 7,5 sett á galla, sem eru samt ekki meiri en svo að við getum fellt okkur við lambið sem ásetningslamb. Einkunn 7 eða lægra væri hins vegar túlkað þannig að lambið sé, vegna augljósra galla, sem ekki koma í stigun á öðrum eiginleikum, ekki tækt sem ásetningslamb. Við þessa stigagjöf hlýtur fyrst og fremst að verða að horfa á atriði sem eru ekki með í annarri stigun eða mælingum á lambinu. Rétt er að geta hnikað heildareinkunn til um hálft stig upp eða niður, hafi lambið verið of stíft eða vægt metið í heild með þessari einkunn.
Þættir sem eðlilegt er að valdi því að lamb falli niður á 7 eða lægri einkunn ættu að vera: Eineistungar, ákaflega bolstutt lömb, áberandi kviðmikil lömb, sérstaklega baggakviðuð lömb, mjög háfætt lömb, og áberandi siginn hryggur. Aðrir útlitsgallar sem eru það áberandi að lambið komi ekki til álita sem ásetningslamb. Hér er hins vegar rétt að athuga að alls ekki ber hér að draga niður fyrir alvarlega galla á haus eða fótum sem áður er búið að refsa eða fella viðkomandi einstakling fyrir.

Ætíð verður að hafa hugfast að stigun sem þessi á búfé er mat. Þess vegna verður ætíð einhver breytileiki í áherslum og vægi hjá einstökum dómurum. Í eðli sínu er ætíð talsverður munur á mati, eins og hér er lýst, og hins vegar mælingum með stöðluðum mælitækjum.