Ullarmat

 

Matsreglur á ull eru eftirfarandi:

  1. HVÍT ULL

H – Lambsull: Hvít haustrúin ull af lömbum. Eingöngu vel hvít og fremur togfín og gljáandi ull sem er nær alveg laus við gul hár. Ullin skal vera algerlega laus við rusl eða heymor og húsagulku.

H – I. flokkur: Hvít ull, sem er nær alveg laus við gular illhærur, gallalaus og óskemmd. Í þennan flokk fer eingöngu ull sem er algerlega laus við rusl, mor, húsagulku og tvíklippingu. Ullin skal vera fremur togfín, þelmikil og gljáandi. Kviðull, læraull og hnakkaull skal að jafnaði tekin frá og sett í lakari flokk. Snoð skal vera lengra en 6 sm og uppfylla að öðru leyti ofangreindar kröfur.

H – II. flokkur: Hvít ull sem ekki er tæk í I. flokk vegna gulra illhæra, lítils háttar húsagulku (ekki hlandbrunnin) eða lítils háttar þófa en laus við heymor. Einnig ull með gróft tog eða þellítil, en að mestu laus við tvíklippingu, ásamt snoði sem er lengra en 4,5 sm. Mikið gul ull og ull með miklu af dökkum hárum er ekki tæk í II. flokk.

  1. MISLIT ULL

M – I. flokkur svart: Óskemmd svört ull með jafnan og hreinan svartan lit. Laus við grá hár, þófa, heymor, rusl og aðrar húsvistarskemmdir og laus við tvíklippingu. Svart snoð lengra en 6 sm. Kviðull og læraull skal að jafnaði tekin frá.

M – I. flokkur grátt: Óskemmd grá ull með steingráan litblæ, laus við gulan eða grámórauðan litblæ. Að öðru leyti eins og M – I. fl. svart.

M – I. flokkur mórautt: Óskemmd mórauð ull með jafnan og hreinan mórauðan lit (ekki grámórauð). Að öðru leyti eins og M – I. fl. svart.

M – II. flokkur. Öll önnur óskemmd mislit ull, þ.e. ull af flekkóttu, grámórauðu, botnóttu og golsóttu fé, ásamt „hvítri“ ull með miklu af gulum illhærum, dökkum hárum eða blettum. Einnig svört grá og mórauð ull sem ekki er tæk í I. flokk vegna galla á litblæ. Óskemmt mislitt snoð lengra en 4,5 sm.

Ull sem ekki flokkast í einhvern ofangreindra flokka fer í úrkast og telst ekki söluvara. Við mat á ull er eðlilegt að skipta reyfum á milli gæðaflokka.

Nú verður staðfest með reglugerð, að bændum er heimilt að flokka eigin ull, og verða þeim sem það gera greiddar 15 kr á kg af óhreinni ull. Samkvæmt reglunum þurfa bændur að sækja sérstakt námskeið til að geta metið ullina sjálfir, en samkvæmt undanþáguákvæði hafa menn tíma til 1. nóvember 2006 til að ljúka slíku námskeiði, ef ekki gefst kostur á því fyrr.

Ullarmatsnefnd skal standa fyrir námskeiðum í ullarmati fyrir bændur sem vilja flokka ull sína sjálfir. Nefndin skal og annast fræðslu og leiðbeiningar um ullarmat og ullargæði til ullarmatsmanna og bænda.