Komnar eru nýjar niðurstöður úr mælingum á fóðurgildi grassýna sem tekin eru vikulega víðs vegar um landið. Niðurstöðurnar sýna að þurrkurinn undanfarnar vikur hefur greinilega haft áhrif á vöxt og viðkomu túngrasanna. Grös taka fyrr að skríða og því fellur fóðurgildið fyrr en annars.
Það sést vel á línuritunum hér fyrir neðan en þetta eru sýni sem tekin voru í Sauðanesi í A-Hún. Árið 2005 var kalt sumar og orkugildi nýræktargrassins féll hægt fram eftir sumri. Árið 2006 var ágætis sprettusumar og vætusamt og má ætla að orkugildið hafið fallið nokkuð eðlilega með tíma. Í ár er júnímánuður búinn að vera mjög þurr og niðurstöður sýna að orkugildið fellur mjög hratt á milli vikna. Til að mynda er orkugildi grasanna orðið mun lægra núna en það var síðustu tvö ár á sama tíma.
Svipaða sögu má segja um eldri tún. Það er ljóst að þeir sem lítið eru farnir að heyja geta ekki vænst þess að eiga mikið af orkuríkum 1.sláttar heyjum næsta vetur. Við þessar aðstæður þarf að íhuga vel hvort ekki eigi að slá túnin strax, þó að eittvað vanti upp á fulla uppskeru. Bera síðan áburð á og freista þess að ná góðri sprettu í öðrum slætti.