Nýir hrútar á sæðingastöðvunum

Nú er búið að velja alla nýja hrúta inn á sæðingastöðvarnar. Óhætt er að segja að hrútakosturinn lofi góði fyrir sæðingavertíðina í desember. Hér fyrir neðan er skrá yfir alla hrútana nema Hesthrútana.

 

Nýir sæðingastöðvarhrútar


Einnig er nú nýlega búið að velja fjóra Hesthrúta inn á stöðvarnar. Upplýsingar um þá fylgja hér á eftir en þær voru fengnar af vef Landbúnaðarháskóla Íslands. KÓE

Þann þriðja október síðastliðinn var slátrað hrútlömbum sem voru í afkvæmarannsókn á kennslu- og rannsóknafjárbúi LbhÍ á Hesti. Slátrað var hjá SAH Afurðum ehf. á Blönduósi og var meðalfallþungi 230 hrúta 15,88 kg. Meðaleinkunn fyrir gerð var 9,96 og 5,60 fyrir fitu. Hlutfallið milli gerðar og fitu var því 1,78. Öll lömb á Hesti eru ómmæld og var meðalómvöðvi hrútlamba í afkvæmarannsókninni 26,27 mm, ómfita var 2,29 mm að meðaltali og lögun 3,49. Að fengnum niðurstöðum voru fjórir hrútar valdir, af sérfræðingum sæðingastöðvanna ásamt landsráðunaut BÍ í sauðfjárrækt, til þess að fara á sæðingastöðvarnar.

Dökkvi (07-203), Bifurssonur, skilaði 20 lambhrútum til slátrunar og var meðal þungi þeirra á fæti 39,56 kg, meðalómvöðvinn 27,15 mm, meðalfitan 2,44 mm og 3,62 í lögun. Þá var meðalfallþunginn 15,87 kg og flokkunin, 10,11 í gerð og 5,32 í fitu. Dökkvi er sammæðra Kveik 05-965 og er með verndandi arfgerð gagnvart riðusmiti.

Mjöður (07-204), Bjórssonur, skilaði 17 lambhrútum til slátrunar og var meðal þungi þeirra á fæti 40,49 kg, meðalómvöðvinn 26,66 mm, meðalfitan 2,28 mm og 3,62 í lögun. Þá var meðalfallþunginn 16,23 kg með 10,81 í gerð og 5,50 í fitu. Mjöður er með verndandi arfgerð gagnvart riðusmiti.

Prjónn (07-209), Þráðarsonur, skilaði 19 lambhrútum til slátrunar og var meðal þungi þeirra á fæti 40,18 kg, meðalómvöðvinn 25,55 mm, meðalfitan 1,88 mm og 3,54 í lögun. Þá var meðalfallþunginn 15,75 með 10,90 í gerð og 5,73 í fitu.

Freyðir (07-216), Flúðarssonur, skilaði 17 lambhrútum til slátrunar og var meðal þungi þeirra á fæti 39,01 kg, meðalómvöðvinn 26,70 mm, meðalfitan 2,49 mm og 3,57 í lögun. Þá var meðalfallþunginn 15,70 með 10,57 í gerð og 5,17 í fitu. Freyðir er sammæðra Rafti 05-966.

 

Posted in BHS