Beit nautgripa
![]() |
|||
Höfundur | Útgefandi | Útgáfuár | Útgáfustaður |
Þóroddur Sveinsson | BÍ | 2000 | Reykjavík |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
Rit | Árgangur | Tölublað | Bls. |
Handbók bænda | 50 | 254-271 | |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
|
![]() |
![]() |
INNGANGUR
Myndun beitilands Í náttúrulegu gróðurlendi hér á landi, þar sem engir stórtækir grasbítar fyrirfinnast, ræðst gróðurfarið af samspili umhverfis (jarðvegi, veðurfari og landslagi) og lífríkis. Í beitarhólfum verða þess vegna alltaf breytingar á gróðurfarinu með tímanum. Þar sem beitarálaginu er stillt mjög í hóf verður það til þess að fjölbreytileiki gróðurs og lífríkis eykst miðað við fyrra ástand. Þegar beitarálagið er aukið fer fjölbreytileikinn aftur minnkandi þó að framleiðslugeta (kg kjöt eða mjólk/ha) haldi áfram að aukast, að minnsta kosti tímabundið. Ef álagið er aukið enn frekar er nauðsynlegt með einhverjum hætti að viðhalda eða auka frjósemi landsins ef ekki á að ganga verulega á beitarþolið. Það er fyrst gert með t.d. framræslu, áburðargjöf og beitarstjórnun og ef það dugar ekki, með ræktun og enn stífari beitarstjórnun. Tilkostnaður bóndans eykst að sama skapi. Hversu langt á að halda í þessa átt ræðst af virðisaukanum sem fæst af því að umbreyta náttúrulegu landi í þannig nytjaland. Það skiptir til dæmis máli hvort beitilandið er ætlað eða hentar fyrir kjöt- (uppeldi) eða mjólkurframleiðslu. Verðmæti landsins ræðst m.a. af landrými og landgæðum sem bóndinn hefur til þess að framleiða eftirsótt magn af mjólk og kjöti. Meðfylgjandi mynd á að lýsa þessu sambandi á einfaldan hátt ![]() Beitargróðurinn
Grænfóður til beitar eru ræktaðar einærar tegundir og ætlað að auka beitaraðgengi á þeim tíma þegar önnur beit er ekki nægjanleg af gæðum eða magni. Þetta eru aðallega tegundirnar rýgresi, repja, mergkál og næpa og sums staðar kemur til greina að rækta vetrarrúg til vorbeitar. Ítarlegri umfjöllun um grænfóður er að finna í Handbók bænda 1998. Samspil beitargróðurs og nautgripa Grasspretta, gæði og beitarþol beitilandanna eru mjög breytileg yfir sumarið á meðan þarfir gripanna (hópanna) haldast nokkuð stöðugar. Aðalsprettutími beitargrasa í úthaganum og túnunum er fyrri hluti sumarsins. Þegar líður á sumarið dregur óumflýjanlega úr beitargæðum fjölæra gróðursins. Á meðfylgjandi mynd má sjá hvað beit af fjölæru ræktunarlandi getur fullnægt miklu af heildarfóðurþörfum mjólkurkúa á fyrri hluta mjaltaskeiðs yfir beitartímann. Þar sést að hvort heldur sama beitarþunga eða beitarálagi er haldið út beitartímann dregur verulega úr getu landsins til þess að fullnægja fóðurþörfum kúnna. Þetta stafar af því að beitaraðgengið hefur minnkað. Annars vegar er það vegna þess að það hægist á vexti fjölæru grasanna þegar líður á sumarið og hins vegar vegna þess að gæði og lystugleiki (fóðrunarvirði) beitarinnar minnkar. Ef beitin á að fullnægja fóðurþörfinni sem mest frá upphafi til loka beitartímans þarf beitarstjórnun sem felur í sér að minnka beitarálag eftir því sem líður á og ræktun grænfóðurs fyrir haustbeit. Þannig er hægt að viðhalda svipuðu beitaraðgengi allan beitartímann. Beitarþol úthagans og túnanna miðað við sama beitarþunga eða beitarálag er minnst á vorin og haustin. Mikill beitarþungi að vorinu dregur úr heildarsprettu það sumarið en þung haustbeit sumarið eftir. Beitarskipulag Það ætti að vera kappsmál kúabænda að hafa alla nautgripi úti og sem mest á beit yfir sumartímann. Undantekningin eru kynþroska nautkálfar sem nánast ómögulegt er að hemja innan girðinga þegar náttúran kallar. Slíkt fyrirkomulag sparar ekki bara vinnu við gjafir yfir hábjargræðistímann heldur er einnig mikilvægt að ungneytin kynnist og njóti útiveru og beit sem mest. Beitarskipulag hefur það að markmiði að setja upp kerfi sem hentar bóndanum og aðstæðum á hverjum stað best. Alltaf skal reynt að hafa kerfið sem einfaldast. Fyrir beit er eðlilegast að flokka bústofnin í ungneyti, geldkýr og kálffullar kvígur og mjólkandi kýr. Í langflestum tilvikum er það ekki fyrirhafnarinnar virði að flokka bústofninn frekar nema hugsanlega þar sem landrými er mjög takmarkað. Til dæmis í hámjólka og lágmjólka kýr. Það er kúm eðlilegt að eftir því sem líður á mjaltaskeiðið minnkar átlystin þannig að þær eru að taka lítið umfram eðlilegar þarfir og holdasöfnun, fyrr en kemur að geldstöðu. Ávinningurinn er þess vegna lítill við að skilja þær að, auk þess að oftar en ekki skapar það óróa í hópnum. Mikil holdasöfnun á seinni hluta mjaltaskeiðsins er óæskileg og best að stýra tímanlega með minnkandi kjarnfóðurskömmtum. Hugsanlega mætti einnig að flokka ungneytin í kvíguhóp og uxa sem eru að nálgast sláturstærð og þurfa sterkara eldi eða eftir aldri í tvo hópa óháð kynjum. Þar ræður aðgangur að hentugu beitilandi og aðrar aðstæður miklu. Til eru ótal útfærslur á beitarkerfum sem byggjast þó í grundvallaratriðum á einu af tvennu; randbeit eða hólfabeit af einhverju tagi. Randbeit er aðallega notuð á gæðamikilli og verðmætri beit sem til er í takmörkuðu magni, eins og til dæmis grænfóðri. Randbeitin gefur möguleika á að ná mjög góðri beitarnýtingu en getur auðveldlega orðið of mikið á kostnað minnkandi afurða (vexti, mjólk) eftir grip af beitinni ef ekki er að gætt. Hólfabeitin gefur möguleika á að ná hámarkafurðum eftir grip af beit en á kostnað lakari beitarnýtingar. Með réttri stjórnun er þó hægt ná svipaðri nýtingu og í randbeitinni. Hólfabeitin er yfirleitt ekki eins vinnufrek og randbeit. Flestir bændur hafa aðgang að góðum úthaga eða heimalöndum þar sem hægt er að koma ungneytum fyrir yfir sumarið. Best er að hafa slík beitarhólf það nærri að kvígukálfarnir venjist umferð og mannaferðum. Úthagabeit fyrir kvígukálfa á þessum aldri (3–15 mánaða) er mjög heppileg því of sterkt eldi er ekki talið æskilegt með tilliti til þroska kirtilsvefs í júgri og mjólkurlagni þeirra á komandi mjaltaskeiðum. Uxar á þessum aldri passa ágætlega með kvígunum því ósennilegt verður að teljast að þeir borgi fyrir dýrari beit. Erfitt er að ráðleggja óséð landþörf ungneyta á úthaga. Til þess eru gæði úthagans of breytileg frá einum stað til annars. Í vel grónu landi ætti í flestum tilvikum hektari á grip að nægja yfir beitartímann. Ekki er verra að hafa beitarhólfin eins rúm og kostur er til þess að draga úr beitarálagi og halda fjölbreytni í gróðurfari og lífríki sem lengst. Einnig getur hófleg hrossabeit farið ágætlega saman við beit ungneyta. Úthaginn er alltaf töluvert seinni að taka við sér en ræktunarlandið en úr því má bæta að einhverju leyti með hóflegri áburðargjöf á sama tíma og borið er á ræktunarlönd. Áburðargjöf á þurran úthaga margfaldar beitaruppskeru og gefur þess vegna möguleika á að auka beitarþunga verulega, en svarar því aðeins kostnaði ef landrými er knappt. Mjög auðvelt er að ofmeta gæði úthagans, sérstaklega þegar fer að líða á. Fyrir geldkýr og kálffullar kvígur getur grösugur úthagi hentað ágætlega í einhvern tíma yfir sumarið. Æskilegast er þó að hafa þær nálægt mjólkurkúnum, bæði af félagslegum ástæðum en einnig til þess að auðveldara sé að fylgjast með þeim. Skoða þarf hvort ekki sé hægt að koma upp kerfi þar sem þessi hópur er látinn taka við beitinni strax eftir mjólkurkúnum til þess að hreinsa upp eftir þær og ná þannig betri nýtingu á landinu. Kýrnar og kvígurnar þarf að flytja tímanlega til mjólkurkúnna fyrir burð. Sérstaklega er þetta mikilvægt fyrir kvígurnar til þess að þær venjist reglulegum rekstri, mjaltabásnum eða bindingunni í básafjósinu og kjarnfóðri. Á síðustu fjórum vikunum fyrir burð þurfa þær að aðlagast nýju og sterkara fóðri smátt og smátt þannig að þær verði tilbúnar fyrir mjaltaskeiðið. Undirstaða beitarinnar fyrir mjólkurkýr þarf að koma af ábornu ræktuðu landi, frá vori til hausts. Ef rétt er staðið að skipulagi er hægt að láta kýr mjólka mikið af beitinni eingöngu og meira heldur en af úrvals gróffóðri á innistöðu. Fræðilega er talað um að mjólkurkýr af íslenskri stærð geti mjólkað allt að 20–22 kg á dag af beitinni. Óraunhæft er þó að ætla að það náist við venjulegar aðstæður, þrátt fyrir gott skipulag en 16–18 kg ætti að vera raunhæft markmið. Hér er líka vert að taka tillit til gæða beitarplantnanna í ræktunarlandinu. Æskilegt er að í landinu sé mikið af grastegundum eins og vallarfoxgrasi, vallarsveifgrasi og ungu háliðagrasi en húsapuntur, snarrót, túnvingull og hugsanlega língresi eru síðri nema kannski allra fyrst á vorin. Varpasveifgras og haugarfi eru afbragðs beitarplöntur þó ekki séu þær æskilegar í ræktunarlandi að öðru jöfnu. Ef nýta á þessar tegundir er nauðsynlegt að gera það tímanlega því þær sölna upp úr miðju sumri. Til þess að beitaraðgengið sé sem mest er ekki ráðlegt að bera mykju að vorinu á beitilönd, nema niðurplægðri fyrir grænfóður, eða að beita kúm á endurvöxt grasa sem hefur verið beitt fyrr um sumarið. Ef það er nauðsynlegt þarf að gera ráð fyrir því sérstaklega í fóðuráætlunum. Á sumum bæjum er lögð ofuráhersla á að hafa allar kýr sem næst geldstöðu að haustinu. Þar sem það hefur tekist er útbreidd skoðun að það taki því ekki að rækta grænfóður til haustbeitar. Þessir sömu ættu að íhuga að vel heppnað grænfóður er að öllu jöfnu ódýrara en sambærilegt hey sem þyrfti að koma í staðinn og það dregur úr beitarálagi á túnum að haustinu þegar beitarþol þeirra er í lágmarki. Margt bendir til þess að haustbeit geti dregið umtalsvert úr sprettu túnanna sumarið eftir. Eðlilega eru beitilönd fyrir mjólkurkýr höfð sem næst fjósinu og algengt er að bændur séu með sérstök nátthólf enn nær til þess að spara frekari tíma við smölum fyrir morgunmjaltir. Kýrnar eru ekki eins virkar við beitina á nóttunni, sérstaklega eftir að tekur að dimma meira síðsumars. Af þeim sökum þarf nátthólfið ekki að vera eins stórt og daghólfið. Engu að síður þarf beitaraðgengið að vera álíka mikið í báðum hólfum ef nást á sem mest nyt af beitinni. Þegar líður á og ekki hægt að halda sama beitaraðgengi í nátthólfinu er hægt að bæta það upp með til dæmis að bjóða meira viðbótarfóður sem jafnframt gæti verið upphafið að aðlögun á innistöðufóðrinu. Frá innistöðu til beitar – vorbeit Nú er það þannig að veðurfarið leyfir yfirleitt að nautgripir geti verið úti löngu áður en nægjanleg beit er til staðar. Flest íslensk fjós eru þannig gerð að það er tímafrekt að leysa og binda kýrnar bara til þess að viðra þær og þess vegna draga margir að hleypa kúnum út. En kýrin skynjar vorilminn í loftinu snemma og verður óróleg og spennt eftir að komast út til að teygja úr stirðum limum. Fyrir alla nautgripi er mikilvægt að þeir fái tíma til þess að aðlagast gjörbreyttum aðstæðum þegar þeir fara af innifóðrun og yfir á beit. Sérstaklega er það vegna þess hvað umskiptin eru stórkostleg fyrir vambarflóruna sem þarf tíma til að venjast allt öðruvísi fóðri. Þrátt fyrir góða aðlögun er ómögulegt að komast alveg hjá vaxtartruflunum og röskun á nyt í einhvern tíma. Á vorin er beitarþol lands í lágmarki. Því lengra sem dregið er að beita landið því betra er það í stakk búið að gefa mikla uppskeru. Málamiðlunar er þörf. Fyrstu dagana sem kýrnar eru úti eiga þær að vera á fullri gjöf. Á þessum tíma er best að vera með þær í nálægu litlu hólfi með mjög takmarkaðri beit. Til þess að lengja útiveruna yfir daginn og meðan beðið er eftir sprettu væri hægt að koma fyrir heygrind og gefa í hólfinu. Þegar grassprettan er komin á fullt má fara að treysta meira á beitina. Til að minnka beitarálagið er best að hleypa kúnum á sem víðfeðmust tún að vorinu, jafnvel þau lökustu. Hversu mikið á að hólfa þau niður fer svolítið eftir aðstæðum, en að lágmarki í tvennt. Rétt í byrjun gætu geldkýr og kálfullar kvígur verið með mjólkurkúnum, en síðan yrðu mjólkurkýrnar fluttar yfir í nýtt hólf en geldkýr og kvígur skildar eftir og svo koll af kolli ef hólfin er fleiri. Þannig ætti að vera hægt að tryggja gott beitaraðgengi og jafnframt góða nýtingu á beitilandi. Vorbeittur vetrarrúgur er annar möguleiki fyrir bændur í innsveitum norðanlands og er honum lýst í Handbók bænda 1997 og 1998. Til þess að koma geldneytum snemma út, oft beint á úthaga, þarf að hafa aðstöðu til þess að gefa hey úti. Úthaginn er lengur að koma til á vorin en ræktað land og þess vegna er mikilvægt að gefa ungneytum næg hey fyrstu dagana eða vikurnar með beitinni. Það gefur þeim um leið möguleika að aðlagast beitinni sem best. Sumarbeit Það er oft erfiðleikum bundið að útvega nægjanlega góða og mikla beit fyrir mjólkurkýrnar um mitt sumarið. Endurvöxtur fyrstu sláttutúnanna er ekki tilbúinn til beitar og ósleginn frumvöxtur flestra túna er orðinn of trénaður fyrir mjólkurkýr. Hvað er þá til ráða? Grænfóður til miðsumarbeitar er dýr kostur vegna þess hvað nýtta uppskeran verður lítil. Besta grænfóðrið til þessa er sumarrýgresi sem þarf að sá eins snemma og mögulegt er, en það þarf um 40–45 sprettudaga til þess að vera tilbúið til beitar. Annar kostur, sem reyndur hefur verið á Möðruvöllum síðan 1993, er að beita á vallarfoxgras en það sprettur úr sér seinna en flest önnur grös. Það má því randbeita það langt fram eftir júlímánuði. Reynsla okkar af þessu er mjög góð og ekki er hægt að merkja að beitin hafi dregið úr þekju vallarfoxgrassins sem var á 6. og 7. ári sumarið 1999. Þegar mólkurkýrnar eru settar á þessa beit eru geldkýr og kvígur skildar eftir um tíma á vorbeitartúnum. Þær fylgja síðan eftir mjólkurkúnum, þegar pláss leyfir, en hólfaðar frá. Þegar vallarfoxgrasið eða sumarrýgresið er uppurið er venjulega orðið það áliðið að áborin há af fyrstu sláttutúnum er tilbúin til beitar. Í flestum sveitum ætti snemmsána vetrarrepjan að vera tilbúin til beitar í byrjun ágúst. Vetrarrepjan er hugsuð sem smá viðbót í upphafi með hánni en áður en langt um líður fær hún sífellt meira vægi í beitinni á kostnað háarinnar. Þar sem kál er talsvert frábrugðið annarri beit er gott að gefa kúnum góðan tíma til þess að venjast henni. Af geldneytunum í úthaganum þarf ekki að hafa áhyggjur. Þau una vel við sitt. Frá beit til innistöðu – haustbeit Haustið er sá tími sem er hvað vandmeðfarnastur í fóðrun mjólkurkúa, enda allra veðra von þá og gæði fjölæru beitargrasanna orðin rýr. Þá er mikilvægt að rækta grænfóður fyrir mjólkurkýr í einhverri nyt til að framlengja nægjanlegt beitaraðgengi. Innlendar rannsóknir benda eindregið til þess að há, innifóðrun eða kjarnfóður nái ekki að halda eins vel í nyt kúnna og gott grænfóður á þessum tíma. Vetrarrepjan er mest notuð hér á landi enda gefur hún mikla og árvissa uppskeru ef rétt er staðið að ræktuninni. Endurvöxtur rýgresis, sem slegið hefur verið fyrr um sumarið, er einnig mjög góður til beitar og nýtist sérstaklega vel. Bygg og hafrar sem sáð er mjög seint væri einnig hægt að nota til haustbeitar en er dýr valkostur. Í slagviðrum og kuldaköstum getur verið nauðsynlegt að hýsa kýrnar tímabundið og náttbeit verður fljótt sjálfhætt. Viðbótargróffóður verður þess vegna sífellt stærri hluti fóðursins og góður aðdragandi fyrir innistöðuna. Mjólkurkúnum á að gefa sem kjarnmesta og þurrasta heyið með haustbeitinni. Þegar kýrnar eru endanlega komnar inn væri síðan æskilegast að í stað beitarinnar yrðu gefnar grænfóðurrúllur ef þær eru til eða gott, fremur blautt rúlluhey. Á haustin þarf einnig að huga að ástandi beitarinnar hjá ungneytunum. Nauðsynlegt er að hefja tímanlega að gefa viðbótargróffóður með beitinni. Ungneyti geta verið úti lengi fram eftir hausti ef þeim er gefið vel með. Þau eru einnig ágæt til þess að hreinsa upp óklárað grænfóður eftir mjólkurkýrnar. Mat á uppskeru beitilands Það er engin auðveld hagnýt leið sem getur metið nákvæmlega nýtanlega uppskeru beitilands. Til eru lýsingar á aðferðum sem annaðhvort hafa ekki hagnýta þýðingu eða eru ófullnægjandi. Dæmi um hlutlægt uppskerumat, sem kemst næst því að vera hagnýtt, eru staðlaðar grashæðarmælingar eins og gerðar hafa verið á Möðruvöllum um árabil (sjá mynd). ![]() Þær gefa mikilvægar upplýsingar við mat á beitarálagi en engar upplýsingar um beitaraðgengið nema til viðbótar komi huglægt mat á gæðum beitarinnar. Uppskerumat þarf bóndinn að gera og hvernig sem það er gert hlýtur það að byggjast m.a. af uppsafnaðri reynslu. Á Möðruvöllum hefur uppskera beitilands mjólkurkúa verið reiknuð óbeint. Útreikningarnir byggjast á því að flatarmál beitilandsins, beitardagar, fjöldi kúa, magn viðbótarfóðurs og afurðir á beitartímanum eru þekktar. Þannig má reikna út hvað beitin hefur gefið mikið. Á Möðruvöllum er 10% af ræktunarlandinu nýtt til beitar eingöngu og 10% til viðbótar er nýtt til beitar og slægna. Um 15% af beitinni er af grænfóðri. Landrýmisþörf af ræktuðu landi er um 0,40–0,50 ha/árskú eða 2,5–2,0 árskýr/ha fyrir allt sumarið. Meðalárskýrin á Möðruvöllum tekur 9–10 FEm á sólarhring af beitinni og meðalnýtta uppskera af beitilandinu er 1.800–2.300 FEm.Mikilvægt er að bóndinn hafi þrennt í huga við mat á landrými. Í fyrsta lagi áætlaða nýtta uppskeru af beitilandinu í upphafi beitar. Í öðru lagi væntanlega sprettu (vaxtarhraða beitargróðursins) á beitartímanum. Og í þriðja lagi fóðurþarfir gripanna og hversu stór hluti þeirra á að nást af beitinni. Um fóðurþarfir nautgripa er getið í Handbók bænda 2000 og verða þær því ekki raktar frekar hér. Hér verður hins vegar gefinn leiðarvísir sem má nota til þess að áætla landþörf beitar yfir sumarið miðað við ákveðnar forsendur. Niðurstöðu höfundar er að finna í meðfylgjandi töflu sem sýnir áætlað magn, gæði og nýtingu. Í töflunni er beitartímanum skipt upp í þrjú nokkuð jöfn tímabil, vor, sumar og haust, sem hvert um sig er um 30 dagar að lengd. Hausttímabilið getur þó verið lengra, mælt í dögum. ![]() ![]() Þó að hér sé sett upp eitt dæmi um svona útreikninga er það bóndans, hugsanlega með aðstoð ráðunautar, að meta hvaða stærðir á að miða við. Þættir sem hafa áhrif eins og í þessu dæmi er frjósemi landsins, gróðursamsetning, beitarskipulag og hversu fljótt kúnum er ætlað að fullnægja fóðurþörfum sem mest af beitinni. Kjarnfóðurgjöf með beit er vandasöm. Kjarnfóðrið þarf að gefa á meðan á mjöltum stendur og tíminn sem kýrnar hafa til að innbyrða það er því mjög takmarkaður. Þetta, og þó ekki síst hin auðmelta beit, hefur þau áhrif að kjarnfóðrið dregur mjög úr átlyst kúnna á beitinni. Talað er um að með hverri fóðureiningu í kjarnfóðri minnki kýrin át á allt að sem svarar einu þurrefniskílói í beitinni, þ.e. næstum kíló á móti kílói. Þess vegna er ávinningurinn af kjarnfóðurgjöfinni lítill ef beitaraðgengið er eins og það á að vera. Eins og áður segir ættu kýr að geta mjólkað 16–8 kg á dag af góðri beit eingöngu og kraftmikilar kýr jafnvel meira. Ef verið er að gefa kúm kjarnfóður undir þessum mörkum er beitaraðgengið ekki nægjanlegt en þar ætti gott viðbótargróffóður í mörgum tilfellum að koma í stað kjarnfóðurs. Þörf á steinefnagjöf með beit er afar mismunandi. Í innsveitum a.m.k. er lítið af natríum í beitargróðri og þess vegna gæti verið þörf á að hafa saltsteina í beitarhólfum fyrir ungneyti. Steinefni fyrir mjólkurkýr er yfirleitt hægt að gefa á mjaltatímum en einnig væri hægt að hengja saltsteina á t.d. heygrindur þar sem viðbótar gróffóður er gefið úti. Áburður á beitiland Ekki eru til neinar innlendar rannsóknir á áburðaþörf ræktaðs beitilands. Þess vegna eru þær vangaveltur sem hér fara á eftir byggðar mest á tilfinningum og skoðunum höfundar. Áburðarþörf grasa til beitar eða slægna er sjálfsagt svipuð miðað við gefnar uppskeruvæntingar, kannski heldur meiri í beitinni. Í beitinni verður þó að hafa í huga að kýrnar skila mestu af næringaefnunum til baka til beitilandsins með saur og þvagi. Á Möðruvöllum hefur verið áætlað það magn næringarefna sem mjólkurkýrnar skilja eftir með saur og þvagi á beitilandinu, brúttó. Það svarar sem nemur um 80% af N, 98% af P og 86% af K sem kýrnar innbyrða af beit. Þar sem viðbótarfóður er stærri hluti af heildarfóðri en á Möðruvöllum og beitarþungi er mikill geta kýrnar jafnvel skilað að magni til meiri næringarefnum á beitilandið en það sem þær fjarlæga með beit. Hins vegar verður að ætla að nýting mykjuefna til vaxtar sé takmörkuð, sérstaklega köfnunarefnis. Kúadellu- og þvagblettir dreifast ójafnt um landið en dreifingin getur verið mjög breytileg eftir því hvernig beitin er skipulögð og eftir staðsetningu brynningaraðstöðu og landslagi. Æskilegast er vitanlega að hún sé sem jöfnust. Þessi áburðarefni er mikilvægt að hafa í huga við gerð áburðaráætlana fyrir ræktuð beitilönd. Bent skal sérstaklega á að beitarþunginn ræður að sjálfsögðu öllu um hvað fellur mikið til á hverja flatarmálseiningu. Að framansögðu má ætla að gamalgróin tún til vorbeitar þurfi í mesta lagi hálfan köfnunarefnisskammt samkvæmt Handbókinni, lítinn sem engan fosfór og um 0–¼ af eðlilegum kalískammti. Hér ætti einnig haustdreifing í stað vordreifingar að vera álitlegur kostur. Haustdreifing köfnunarefnis (um 60 kg N/ha) fyrir miðjan september skilar sér vel vorið eftir og flýtir fyrir sprettu. Vallarfoxgrastún, sem eru ætluð og hafa verið notuð til sumarbeitar, þola eitthvað meira af köfnunarefni. Hægt er að nota Handbókartölur til þess að meta áburðarþörf grænfóðurs til beitar. Áburði, þá aðallega köfnunarefni á há eftir slátt til beitar fyrir mjólkurkýr, er yfirleitt hægt að mæla með. Innlendar tilraunir á úthaga sýna að hægt er að margfalda uppskeru og beitarþunga með áburði. Áburðargjöf á úthaga er þó einungis réttlætanleg í ofbeittum hólfum, því að þar sem beitarálag er hóflegt eða lítið svarar hún ekki kostnaði þó að vissulega megi auka vöxt af hverjum hektara með þeim hætti. Viðhald beitilands Þegar kýr eru teknar af vorbeitartúnunum, sem að gæðum eru oft í lakari kantinum, er mikilvægt að hreinsa túnin á eftir. Það er gert með því að slá (loðið) og hirða kúanögurnar af túnunum. Slóða síðan (innfæddir Eyfirðingar tala einnig um að herfa!) og bera á til sláttar síðsumars. Þannig er hægt er hægt að fá í versta falli einhver geldstöðuhey en samt góða nýtingu af landinu. Þessi tún eru þá jafnframt tilbúin til beitar næsta vor. Einnig væri hægt að beita ungneytum og kvígum á þessi tún að haustinu ef ekki á að nýta þau til beitar næsta vor. Sömu meðferð, þ.e. hreinsun og slóðadrátt, ættu sumarbeitt tún að fá að haustinu og fyrr en seinna. Tilgangurinn með þessu viðhaldi er tvenns konar. Annars vegar að undirbúa túnin fyrir næstu törn, hvort heldur fyrir slátt eða beit, og hins vegar til að hámarka nýtingu beitilandsins. Sömu reglur gilda um ræktuð beitarlönd og sláttutún. Þ.e. að eftir því sem fást fleiri nýttar fóðureiningar af hektaranum því ódýrara verður fóðrið. Venjulega er lítið hirt um úthagahólf en þó getur verið nauðsynlegt að hvíla þau af einhverjum ástæðum, t.d. vegna tímabundinnar ofbeitar eða uppsafnaðra illgresisvandamála. Í úthagahólfum, þar sem er hæfilegt beitarálag, er eðlilegt að einhver sina myndist. Sinulaust beitarland að haustinu bendir eindregið til ofbeitar. Þegar þannig hólf eru hvíld verður oftast í upphafi mikill grasvöxtur og sinumyndun sem eykst með tímanum. Þegar þessi hólf eru aftur tekin í notkun er sinubrennsla valkostur ef þarf að flýta fyrir nýgræðingi snemmsumars. Sinubrennsla kallar á ýtrustu varkárni og getur, ef ekki er að gætt, valdið gífurlegu og óbætanlegu tjóni. Um sinubrennslu gilda strangar reglur og nauðsynlegt er að leita ráðgjafar ráðunautar og sækja um leyfi hjá sýslumanni fyrir slíku. Illgresi í beitilandi Kúadellublettir og rof í landinu vegna traðks skapa ákjósanlegt vaxtarstæði fyrir nýgræðing sem oft á tíðum hefur lítið beitargildi. Hversu hratt gróðurfarsbreytingin á sér stað fer eftir beitarþunga og öðrum umhverfisaðstæðum. Tegundir sem bítast illa eða alls ekki ná að fjölga sér vegna þess að þær fá frið til að dafna á meðan lystugum tegundum er haldið niðri. Brennisóley og njóli eru dæmi um tegundir sem geta fjölgað sér hægt og bítandi við slíkar aðstæður. Þessar tegundir geta rýrt beitilandið umtalsvert ef ekkert er að gert. Njólaskógi er erfitt að útrýma með öðrum hætti en sérvirkum lyfjum og hugsanlega með endurvinnslu þar sem því er hægt að koma við. Í upphafi dreifir njólinn sér í landið frá einum njóla eða njólaþyrpingu, oft utan við eða í jaðri beitilandsins og er mikilvægt að uppræta hann sem fyrst. Ef útbreiðslan er takmörkuð við einstaka plöntur er hægt að rífa hann upp með rótum eða eitra með handdælu. Mikilvægt er að hann blómstri ekki. Brennisóley er hægt að eyða með slætti, kölkun, bættri framræslu eða eitri. Mikilvægt er, ef illgresislyf eru notuð, að fara eftir leiðbeiningum og reglum um útskolunartíma. Heilsufar nautgripa á beit Þrif og heilsa nautgripa á beit eru yfirleitt ágæt og án vandamála. Þó eru nokkur atriði sem vert er að vera meðvitaður um til þess að komast hjá vandræðum. Í beitilandi er aragrúi sníkjudýra sem geta haft áhrif á þrif nautgripa. Sérstaklega verður vart við vanþrif af völdum sníkjudýra í ungneytum fyrsta sumarið sem þau eru sett á beit nema þar sem gripið hefur verið til forvarna. Í eldri nautgripum myndast þol upp að vissu marki gegn algengustu tegundunum og einkennin þess vegna mun vægari ef þeirra verður vart. Yfirleitt eru það svokallaðir vinstraormar sem valda hvað alvarlegustum aukaverkunum sem lýsa sér í greinilegum vanþrifum, skitu og þyngdartapi en þráðormar geta einnig valdið svipuðum einkennum. Vinstraormar eru það útbreiddir að alls staðar þar sem ungneyti eru sett í föst beitarhólf eða sama úthagann er nauðsynlegt að gefa ormalyf. Mikilvægt er að kynna sér vel virkni lyfsins og reglur um meðhöndlun. Einkenni hníslasóttar af völdum hnísildýra lýsir sér mjög svipað og ormasýking en ekki er vitað um útbreiðslu hennar í íslenskum kálfum. Fyrir utan lyfjagjöf og alltaf þar sem stundaður er svokallaður lífrænn búskapur er beitarstjórnun áhrifarík forvörn. Beitarstjórnunin felst í því að hvíla beitarhólfin með reglulegu millibili og annaðhvort nýta til slægna ef það er mögulegt eða beita öðrum húsdýrum. Graskrampi verður vegna magnesíumsskorts í blóði mjólkurkúa og lýsir sér í óróa, vöðvatitringi, stirðum gangi og þvinguðum hreyfingum, skitu, gnístan tanna, lömunum og krampa. Graskrampa verður helst vart í vel fullorðnum hámjólka kúm sem eru nýbyrjaðar á beit á velábornu kalíríku graslendi eða grænfóðri. Þar sem graskrampi er vandamál er mælt með sem forvörn magnesíumríkri steinefnablöndu síðustu fjórar vikur innistöðunnar og fyrstu fjórar vikur beitartímans. Þemba verður vegna meltingartruflana sem getur stafað af mörgum ólíkum orsökum, m.a. vegna mikil áts á blautu, próteinríku grasi í miklum vexti eða belgjurtum. Þemban hefst við vinstri lend og síðan þenst allt kvíðarholið út, kýrin verður óróleg, á erfitt með að anda sem getur endað með krampa og skjótum dauða. Fyrirbyggjandi aðgerð er að hleypa ekki svöngum kúm á slíkt beitiland, þ.e. að hafa gefið þeim hey áður. Nítriteitrun getur komið fyrir þar sem kúm er beitt á nitratríkan en lystugan gróður. Mest er af nítrati (NO3–) í grösum þegar nýbúið er að bera á köfnunarefnisríkan áburð og í káli (repja, mergkál, næpa) á haustin eftir frostnætur. Ungir nautgripir eru viðkvæmastir fyrir miklu nitrati í fóðurgrösum vegna þess að þeir hafa takmarkaðri hæfileika en fullorðnir gripir til þess afnítra nítrat nógu hratt í vömbinni með þeim afleiðingum að of mikið nítrit (NO2–), sem er milliefni við afnítrun, sogast í blóðið og veldur súrefnisskorti. Fyrstu og kannski einu einkennin lýsa sér sem öndunarerfiðleikar sem getur leitt til dauða. Væga nítriteitrun er oft ómögulegt að greina en getur verið ein af ástæðum fósturláts hjá kúm. Fyrirbyggjandi aðgerðir felast í að setja ekki svangar kýr á kálbeit snemma morguns eftir frostnótt, auka beitarálagið eða minnka beitaraðgengið að slíku landi og gefa í staðinn hey með eða hafa aðgang að úrsérsprottnu grasi. Það er afar mikilvægt að nautgripir hafi aðgang að hreinu vatni. Mengað vatn getur borið með sér skaðlega sýkla, eins og t.d. salmonellu, og orsakað faraldur í hjörðinni. Æskilegast væri að nautgripir hafi aðgang að lindarvatni en þar sem því verður ekki við komið að umhverfi yfirborðsvatnsins sé haldið sem hreinlegustu. Til að minnka slysahættu þarf að ganga vel um beitilöndin og fjarlæga jafnóðum girðingaleifar, rúlluplast, baggabönd og annað rusl. Rafgeyma fyrir rafgirðingar þarf að verja fyrir saltþyrstum nautgripum. Niðurlag Beitartíminn á Íslandi er stuttur og erilsamur og beitarstjórnun er vandasamt verk sem þarf að byggja á stöðugt uppfærðri áunninni þekkingu en ekki gömlum vana. Það er mikilvægt að þekkja sem flesta valkosti og vera opinn fyrir að prófa áhugaverðar og mögulegar lausnir. Þetta gildir sérstaklega um beit mjólkurkúa. Það er engin ein rétt leið að settu marki sem er samt það sama hjá öllum; meiri framlegð!. Framlegðaraukningin getur falist í mörgu eins og t.d. í vinnuhagræðingu, bættri áburðarnýtingu (meiri uppskeru), minni viðhaldskostnaði eða öllu þess |