Í síðustu viku fóru fram dómar á kynbótahrossum á Blönduósi. Dómar fóru fram á miðvikudag og fimmtudag og yfirlitssýning á föstudag. Góð þátttaka var á sýningunni og gekk hún vel fyrir sig í góðu og þurru veðri. Alls komu 49 hross til dóms og þar af einn stóðhestur. Það var Hrímfari frá Tunguhálsi 1 undan Smára frá Skagaströnd. Hann fékk 8,02 fyrir byggingu, 7,59 fyrir hæfileika og 7,76 í aðaleinkunn.
Í flokki 7 vetra hryssna og eldri var úrval góðra hrossa. Efst stóð Hallmarsdóttirin Hekla frá Hofstaðaseli með 8,17 í aðaleinkunn. Hún fékk 8,5 í einkunn fyrir alla þætti hæfileika nema skeið sem var 7,5. Skorradóttirin Rán frá Lækjamóti stóð í öðru sæti með 8,12 í aðaleinkunn, 8,08 fyrir byggingu og 8,14 fyrir kosti. Fyrir kosti fékk hún hæst fyrir skeið og vilja og geðslag eða 8,5 í einkunn. Í þriðja sæti stóð klárhryssan Komma frá Garði. Hún er undan Áka frá Hala og fékk hvorki meira né minna 9,0 í einkunn fyrir tölt, brokk, vilja og geðslag og fegurð í reið. Eins og tölurnar gefa til kynna er hér á ferðinni mikið reiðhross með frábært rými og mikla útgeislun.
Í flokki 6 vetra hryssna átti Gustur frá Hóli tvær efstu hryssurnar. Efst stóð Nóta frá Útnyrðingsstöðum en hún var jafnframt hæst dæmda hrossið á sýningunni. Hér er á ferðinni mikið hæfileikahross með 8,50 fyrir hæfileika og 8,27 í aðaleinkunn. Hún fékk 8,5 fyrir tölt og fegurð í reið og 9,0 fyrir brokk og vilja og geðslag. Krafla frá Brekku stóð í öðru sæti með 8,31 fyrir hæfileika og 8,22 í aðaleinkunn. Þetta er mikið fjörhross með 9,0 fyrir tölt, brokk, vilja og geðslag og fegurð í reið. Í þriðja sæti var hástökkvari sýningarinnar hún Röst frá Hellulandi undan Penna frá Kirkjubæ. Með 8,09 fyrir byggingu, 7,98 fyrir hæfileika og 8,02 í aðaleinkunn. Þetta er feikna klárhryssa með 9,0 fyrir brokk og 8,5 fyrir tölt, stökk, vilja og geðslag og fegurð í reið. Þess má geta að á sýningu fyrr í sumar í Eyjafirði var hún með 7,61 fyrir sköpulag og 7,44 fyrir kosti. Hér er því um mikla breytingu að ræða á ekki meiri tíma.
Í flokki 5 vetra hryssna var Gustur áfram áberandi með hryssur bæði í fyrsta og þriðja sæti. Hér náði þó engin hryssa 1. verðlaunum í aðaleinkunn. Efst var Gnótt frá Lindarholti með 7,96 í byggingu, 7,75 fyrir hæfileika og 7,84 í aðaleinkunn. Marey frá Sigmundarstöðum var önnur en hún er undan Leik frá Sigmundarstöðum. Hún fékk 7,78 fyrir sköpulag, 7,85 fyrir hæfileika og 7,82 út. Hennar hæsta einkunn var 8,5 fyrir vilja og geðslag. Í þriðja sæti var Gerpla frá Hólabaki með 8,01 fyrir byggingu, 7,62 fyrir hæfileika og 7,78 í aðaleinkunn. Hún fékk 9,0 fyrir tölt og 8,5 fyrir stökk og fegurð í reið.
Í flokki 4 vetra hryssna voru sýndar 2 efnilegar merar frá Grafarkoti. Roðadóttirin Skinna stóð hærra með 7,75 í aðaleinkunn og fékk hæst 8,5 fyrir háls og herðar. Kænska undan Víkingi frá Voðmúlastöðum kom síðan á eftir með 7,59 í aðaleinkunn.
Hægt er að skoða alla dóma eftir yfirlitssýningu með því að ýta hér.
KÓE