Þá er loksins búið að taka endanlega saman hæst dæmdu lambhrútana frá því í haust. Síðastliðið haust voru skoðuð um tvö þúsund fleiri lömb en árið á undan eða 19.672 lömb í allt. Skiptist það í 16.241 gimbur og 3.431 hrút. Tvær gimbrar mældust með 39 mm þykkan bakvöðva eins og í fyrra og voru það annars vegar Prjónsdóttir á Akri og hins vegar Glámsdóttir (08-210) í Víðidalstungu. Ein Fannarsdóttir á Akri mældist með 38 mm bakvöðva og 5 lömb mældust með 37 mm bakvöðva, þar af þrjár gimbrar. Meðal ómvöðvi gimbra á svæðinu var 26,3 mm en meðal ómvöðvi hrúta var 27,6 mm. Þykkasti bakvöðvinn í >50 lamba gimbrahjörð var hjá Jóni og Stellu á Stóra-Búrfelli en þar var meðaltalið 29,38 mm. Næst á eftir þeim koma gimbrar þeirra Sigvalda og Þóru á Urriðaá með 29,27 mm og þar á eftir hjá Ellert og Heiðu á Sauðá með 29,25 mm.
Af sonum stöðvarhrúta voru synir Fannars frá Ytri-Skógum að koma almennt best út. Þeir stiguðust að meðaltali hæst og voru með þykkasta bakvöðvann. Eins voru lömb undan Rafti að koma sérlega vel út, með þykkan bakvöðva, litla fitu og góða lærastigun. Af kollóttu hrútunum bar Bogi frá Heydalsá af sem var að skila afskaplega vel gerðum lömbum á allan hátt.
Hér er hægt að sjá yfirlit yfir lambhrúta sem hlutu 87 stig eða fleiri. Þeim er raðað eftir heildarstigum en síðan eftir þykkt á ómvöðva, ómfitu og lögun á ómvöðva.