Lambaskoðanir

Lambaskoðun verður unnin með svipuðum hætti og undanfarin ár. Gjaldtaka er sú sama á öllu svæðinu og verður tímagjaldið 3.700 kr./klst/ráðunaut án vsk. Þeir sem óska sérstaklega eftir skoðunum um helgar greiða 50% álag ofan á það gjald. Lágmarksgjald á hverjum stað er fyrir 0,5 klst. Mikilvægt er að lömb og vinnuaðstaða séu tilbúin og nægur liðsafli, svo þessi þjónusta verði sem ódýrust.

Panta þarf ómskoðun með nokkrum fyrirvara til að hægt sé að skipuleggja vertíðina vel. Því fyrr sem bændur panta því meiri líkur eru á að hægt sé að verða við óskum þeirra um tíma. Til að auðvelda skipulagningu er gott að bændur séu búnir að gera sér nokkurn veginn í hugarlund hvað þeir ætla að láta skoða mikinn fjölda áður en þeir panta skoðun. Hægt er að panta símleiðis og eins með því að senda tölvupóst á rhs@bondi.is.

Líkt og undanfarin ár verður Dagatal ómskoðunar 2011 uppfært reglulega á hér heimasíðunni okkar sem getur vonandi hjálpað bændum við að finna tíma sem þeim hentar.

Langflestir bændur eru farnir að slá sjálfir dómana inn í fjárvísi. Við hjá BHS munum taka tímagjald fyrir innslátt dóma þar sem menn gera það ekki sjálfir. Eru menn hvattir til að slá alla dóma inn sem fyrst eftir skoðun svo þessar upplýsingar nýtist sem best í áframhaldandi fjárragi og ásetningsvali. Bændur geta síðan sjálfir keyrt afkvæmarannsókn til að sjá hvernig hrútarnir koma út miðað við ómskoðun og þau sláturlömb sem komnar eru upplýsingar um. Við munum þó einnig gera upp afkvæma­rannsóknir eins og verið hefur þegar lambaskoðunum er lokið.

Við val á lömbum til skoðunar er kynbótamatið (BLUP-ið) í haustbókinni sjálfsagt hjálpartæki. Það byggir á ætternismati og er því mun öruggara eftir því sem ættfærslur eru áreiðanlegri. Áherslur á mismunandi eiginleika fara eftir stöðu á hverju búi, ef t.a.m. ekki er næg frjósemi í stofninum, ætti að leggja áherslu á að velja ásetningslömb eftir kynbótamati fyrir frjósemi o.s.frv. Hægt er að taka lambabókina út í excel af fjarvis.is og merkja lömb með mismunandi litum t.d. eftir kynbótamati, ætterni og fleiru. Þeir sem vilja fá aðstoð við það geta haft samband við Önnu Möggu hjá BHS.

Posted in BHS