Lambaskoðanir haustið 2009

Lambaskoðun verður unnin með svipuðum hætti og undanfarin ár. Gjaldtaka er sú sama á öllu svæðinu og verður tímagjaldið 3.200 kr./klst/ráðunaut án vsk. Þeir sem óska sérstaklega eftir skoðunum um helgar greiða 50% álag ofan á það gjald. Mikilvægt er að lömb og vinnuaðstaða séu tilbúin og nægur liðsafli, svo þessi þjónusta verði sem ódýrust.

Panta þarf ómskoðun með nokkrum fyrirvara til að hægt sé að skipuleggja vertíðina vel. Því fyrr sem bændur panta því meiri líkur eru á að hægt sé að verða við óskum þeirra um tíma. Til að auðvelda skipulagningu er gott að bændur séu búnir að gera sér nokkurn veginn í hugarlund hvað þeir ætla að láta skoða mikinn fjölda áður en þeir panta skoðun. Hægt er að panta símleiðis og eins með því að senda tölvupóst á rhs@bondi.is.

Líkt og í fyrra verður dagatal ómskoðunar uppfært reglulega á heimasíðu búnaðar­sambandsins www.rhs.is sem getur vonandi hjálpað bændum við að finna tíma sem þeim hentar.

Þeir bændur sem eru með Fjárvís geta sjálfir skráð dómana inn hvort heldur sem er í gömlu dosFjárvísi eða Fjarvis.is. Eru menn hvattir til að gera það sem fyrst eftir skoðun svo þessar upplýsingar nýtist sem best í áframhaldandi fjárragi og ásetningsvali. Bændur geta í báðum forritum sjálfir keyrt afkvæmarannsókn til að sjá hvernig hrútarnir koma út miðað við ómskoðun og þau sláturlömb sem komnar eru upplýsingar um.

Við val á lömbum til skoðunar er kynbótamatið (BLUP-ið) í haustbókinn sjálfsagt hjálpartæki. Það byggir á ætternismati og er því þeim mun öruggara eftir því sem ættfærslur eru áreiðanlegri. Áherslur á mismunandi eiginleika fara eftir stöðu á hverju búi, ef t.a.m. ekki er næg frjósemi í stofninum, ætti að leggja áherslu á að velja ásetningslömb eftir kynbótamati fyrir frjósemi o.s.frv.

www.fjarvis.is
Við viljum hvetja þá sem ekki eru komnir í netskil í Fjarvis.is en hafa aðgang að góðri nettengingu að skoða þenna möguleika alvarlega nú með haustinu. Haustvinnan í skýrsluhaldinu minnkar geysilega með því að vera í fjarvis.is og fá t.a.m. sláturupplýsingar sendar beint heim í tölvu frá sláturhúsinu. Hægt er að útbúa hvers konar skýrslur og útprentanir úr lambabók sem nýtast vel í fjárhúsunum í haustraginu.

Afkvæmarannsóknir
Samanburður á hrútum í gegnum afkvæmarannsóknir er tvímælalaust árangursríkasta leiðin til að meta kynbótagildi þeirra til kjötgæða. Þar eru hrútarnir metnir með tilliti til þess hvernig afkvæmi þeirra flokkast í sláturhúsi og stigast og mælast á fæti. Ljóst er að margir bændur hafa náð miklum framförum í kjötgæðum með markvissri ræktun og notkun afkvæmarannsókna.

Framkvæmd afkvæmarannsóknanna verður eins og verið hefur, þ.e. skilyrði er að ómskoðuð séu að lágmarki 8 lömb (eingöngu gimbrar eða eingöngu hrútar) undan hverjum hrút og að kjötmatsupplýsingar liggi fyrir um a.m.k. 10-12 lömb. Til að uppgjör geti farið fram þarf bóndi að hafa skilað vorbók.

Haldið verður áfram að styrkja tvo flokka afkvæmarannsókna. Fyrir 5-7 hrúta í afkvæmarannsókn eru greiddar 5.000 kr, en þar sem eru 8 hrútar eða fleiri eru greiddar 10.000 kr. Þessir peningar verða nú teknir af rannsóknar- og þróunarfjárhluta sauðfjársamnings. Það er því bændum til verulegra hagsbóta að ná hrútum í afkvæmarannsókn, bæði með tilliti til ræktunarstarfsins og til að lækka kostnaðinn við ómmælingarnar. Þeir bændur sem hafa dosFjárvís eða netFjárvís og slá sjálfir inn lambadóma fyrir 25. október, fá allan styrkinn greiddan en annars verða teknar 2.000 kr. á bú fyrir uppgjör afkvæmarannsóknar. Þetta er hugsað til að þessar upplýsingar séu sem mest komnar til okkar þegar lambaskoðun er lokið, svo við getum hafist handa af fullum kröftum við að ganga frá afkvæmarannsóknum fyrir fengitímann og komið upplýsingum um dóma sæðingalamba til uppgjörs fyrir hrútaskrána.

Posted in BHS