Lambaskoðun verður unnin með svipuðum hætti og undanfarin ár. Gjaldtaka verður samræmd á öllu svæðinu og verður tímagjaldið 2.500 kr./klst/ráðunaut án vsk. Þetta setur aukna kröfu á bændur um að hafa góða vinnuaðstöðu og mannskap til aðstoðar, svo þessi þjónusta verði sem ódýrust.
Panta þarf ómskoðun með nokkrum fyrirvara til að hægt sé að skipuleggja vertíðina vel. Því fyrr sem bændur panta því meiri líkur eru á að hægt sé að verða við óskum þeirra um tíma. Til að auðvelda skipulagningu er gott að bændur séu búnir að gera sér nokkurn veginn í hugarlund hvað þeir ætla að láta skoða mikinn fjölda áður en þeir panta skoðun. Hægt er að panta símleiðis og eins með því að senda tölvupóst á rhs@bondi.is.
Afkvæmarannsóknir hrúta
Samanburður á hrútum í gegnum afkvæmarannsóknir er tvímælalaust árangursríkasta leiðin til að meta kynbótagildi þeirra til kjötgæða. Þar eru hrútarnir metnir með tilliti til þess hvernig afkvæmi þeirra flokkast í sláturhúsi og stigast og mælast á fæti.
Til að hægt sé að gera upp afkvæmarannsókn á búi eru gerðar eftirfarandi kröfur:
– Búið verður að vera í skýrsluhaldi fjárræktarfélaganna
– Vorbók verður að hafa verið skilað.
– Að sláturupplýsingum verði búið að skila til RHS fyrir 1. nóvember
Framkvæmd afkvæmarannsóknanna verður með líkum hætti og verið hefur, þ.e. skilyrði er að ómskoðuð séu að lágmarki 8 lömb (eingöngu gimbrar eða eingöngu hrútar) undan hverjum hrút og að kjötmatsupplýsingar liggi fyrir um a.m.k. 10 skrokka.
Framleiðnisjóður styrkir tvo flokka afkvæmarannsókna. Fyrir 5-7 hrúta í afkvæmarannsókn eru greiddar 5.000 kr, en þar sem eru 8 hrútar eða fleiri eru greiddar 10.000 kr. Þessi styrkur verður greiddur til bænda þegar hann kemur frá Framleiðnisjóði. Það er því bændum til verulegra hagsbóta að ná hrútum í afkvæmarannsókn, bæði með tilliti til ræktunarstarfsins og til að lækka kostnaðinn við ómmælingarnar. Þeir bændur sem slá sláturupplýsingar inn í Fjárvísi og koma með á disklingi eða senda í tölvupósti fyrir 1. nóvember fá allan Framleiðnisjóðsstyrkinn greiddan en annars verða teknar 2.000 kr. á bú fyrir uppgjör afkvæmarannsóknar. Þeir sem hafa Fjárvísi geta að sjálfsögðu leitað aðstoðar hjá ráðunautum um uppgjör afkvæmarannsókna.
Í haust verður lögð sérstök áhersla á að skila niðurstöðum afkvæmarannsókna sem allra fyrst til bónda svo að niðurstöðurnar nýtist ræktunarstarfinu strax.