Kuldatíð – nokkur atriði til umhugsunar

Sumarið hefur enn sem komið er svikið okkur um hlýindi og vætu hér í Húnavatnssýslum og á Ströndum. Við höfum þó að mestu sloppið við kal utan fáeina bæi norðan við Hólmavík þar sem kal var umtalsvert. Ljóst er nú þegar í júnílok að árið 2011 verður ekki metár hvorki í afurðum né þá heyfeng eða bygguppskeru.

Enn er fé víða í heimahögum og hefur nokkuð víða borið á því að lömb séu komin með skitu. Hún getur verið tilkomin af nokkrum orsökum, t.a.m. annað hvort ormaveiki eða hníslasótt sem getur blossað upp þegar þröngt er í högum og beit orðin snögg. Rétt er fyrir sauðfjárbændur að velta fyrir sér að gefa lömbum og jafnvel ám ormalyf áður en þau eru flutt eða rekin á afrétt. Eins er hægt að fá lyf við skitu, t.d. Colinovina hjá dýralæknum sem kunna að hjálpa þeim lömbum sem eru ennþá með skitu. Þetta tvennt getur hugsanlega skilað nokkrum afurðaauka í haust.

Byggakrar eru víðast hvar lítið sprottnir og má búast við að í einhverjum tilfellum muni bygg ekki ná þroska í ár. Byggið þarf einfaldlega um 1.200 daggráður yfir sprettutímann og ef ekki hlýnar hraustlega í bráð eru litlar líkur á að það náist. Ágæt þumalfingursregla er að ef byggið er ekki skriðið um mánaðamótin júlí/ágúst muni það trúlega ekki skila nothæfu korni. Þá er skynsamlegast að slá byggið og verka sem grænfóður en hægt er að fá ágætt fóður út úr því ef það er slegið fyrir skrið. Ef byggið er skriðið þegar það er slegið í grænfóður eru brögð að því að skepnur fúlsi við því út af títunum, auk þess sem fóðurgildið fellur hratt eftir skrið.

Fyrri sláttur er óvíða hafinn og má gera ráð fyrir því að talsvert minni uppskera verði bæði úr fyrri og seinni slætti víðast hvar. Hafi fé verið lengur en vanalega á ábornum túnum kann að vera skynsamlegt að bæta á þau einhverjum áburði þegar féð er farið, til að hressa upp á sprettuna. Sú staðreynd að óvanalega margir bændur gáfu upp sín hey í vor og eru því heylausir, segir okkur að í sumar veitir ekkert af að nýta allar mögulegar slægjur. Enn er einhver tími til stefnu að hressa aðeins upp á aflögð tún með áburði til að auka sprettu og fóðurgildi.

Posted in BHS