Kúabændaferð í Skagafjörðinn


Kúabændur í A-Hún , bæði núverandi og fyrrverandi, fóru í skemmti og kynnisferð í Skagafjörðinn fimmtudaginn 29. apríl og voru hátt í 40 manns í ferðinni. Byrjað var að heimsækja Sverri í Efra-Ási í Hjaltadal sem á síðustu árum hefur breytt sinni gömlu aðstöðu í lausagöngu með legubásum og gjafaaðstöðu. Sverrir hefur alla tíð verið mikill ræktunarmaður bæði á gripi og fóður og miðlaði af reynslu sinni. Var hann nokkuð samþykkur þeirri skoðun að íslenski kúabóndinn væri oft á tíðum meira vandamál heldur en íslenska kýrin.
Taldi hann líklegt að hann hætti búskap á þessu ári og flytti á “Garfarbakkann”.

Næst var farið í Hóla og staðurinn skoðaður undir styrkri leiðsögn Skúla rektors og Jóns biskups. M.a. var skoðað glænýtt 196 hesta hesthús sem nefnt hefur verið “Brúnastaðir” og svo kirkjan og Auðunnarstofa að loknum hádegisverði.

Þá var ekið að Stóru-Ökrum til Gunnars bónda. Þar er nýlegt stálgrindafjós með mjaltabás og fóðurblandari sem staðsettur er í opnu skýli utan við fjósið blandar og saxar saman gróffóður og korn og gefur það inn á 20 m langt hringlaga færiband. Taldi Gunnar þetta góða lausn og með þessu móti fer mjög lítið pláss undir gjafaaðstöðuna fyrir gripina en einnig eru kjarnfóðurbásar í fjósinu. Á móti kemur að allir gripir hafa aðgang að sömu heilfóðurblöndunni sem á að duga kúm til að mjólka 20 kg á dag svo einhverjir gripir fá alltaf betra fóður en þeir hafa raunverulega þörf fyrir.
Eins og þeir vita sem til þekkja hefur Gunnar sterkar skoðanir á því hvernig standa á að kúabúskap og stefnir á að stækka búið verulega á næstu árum. Sigurði á Brúsastöðum þótti vænt um að sjá að á meira að segja á nýtískulegum búum eins og á Stóru-Ökrum moka menn ennþá blautu korni með reku – að sögn bónda þó eingöngu til að halda sér í líkamlegu formi.

Að lokum var farið að Flugumýri og skoðað hvernig til hefur tekist við að breyta gömlu fjórstæðu fjósi og hlöðu í legubásafjós með gjafaaðstöðu og mjaltaþjóni. Fóru þá sumir að velta fyrir sér hvort þeir gætu breytt sinni aðstöðu heima fyrir til að létta vinnu og bæta umhverfi gripanna.

Eins og alltaf eru svona ferðir bæði skemmtilegar og gagnlegar og gott framtak hjá Félagi kúabænda í A-Hún að standa fyrir henni. GR

Posted in BHS