Í vor var sáð korni til þroska í um 50 ha í A-Hún en nokkrir bændur fóru yfir í Skagafjörðinn og sáðu korni þar í rúmlega 60 ha. Alls sáðu Austur-Húnvetningar því korni í um 110 ha en það er mikil aukning frá árinu áður.
Til að sjá hvernig til hafi tekist fóru ráðunautarnir Þórður og Kristján í ferðalag fimmtudaginn 17. ágúst um héraðið til að skoða kornakrana. Farið var í heimsóknir á 9 bæi. Í Langadalnum leit kornið vel út. Kornþroski var yfirleitt komin langt á veg og gulur blær var komin á akrana.
Myndarlegur akur á Holtastöðum í Langadal
Í ferðalaginu var athyglisvert að sjá hve afgerandi munur var á þroska kornsins eftir því hvort það var á sandi eða í frjósömum jarðvegi (eins og mýrarjörð). Í rigningarsumri eins og búið er að vera núna nær sandurinn að hitna mun meira en mýrarjarðvegurinn sem hefur meira og minna verið vatnssósa í allt sumar. Í Svínavatnshrepp og fram í Vatnsdal þar sem korn var í frjósömum jarðvegi var kornið að ljúka grænþroskastigi og rétt að byrja að safna í sig. Þroskinn þar mun því ráðast mikið af tíðarfarinu á næstunni. Veðurspáin lofar reyndar góðu, hita og bjartviðri.
Kornakur á Brúsastöðum í Vatnsdal, séð yfir í Hof
Það er ljóst að Langidalurinn verður að teljast nokkuð öruggt kornræktarsvæði og vert fyrir bændur að hafa í huga að þar er enn mikið af ónýttu landi fyrir hendi.
Þórður og Ingibjörg virða fyrir sér „hveitiakurinn“ á Auðólfsstöðum