Jarðræktarstyrkir

Rétt er að vekja athygli bænda á því að ákveðnum fjármunum verður varið til gras- og grænfóðurræktar vegna þessa ræktunarárs. Fjármagnið kemur úr samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar og samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu sem m.a. er ætlað til eflingar í jarðrækt. Til ráðstöfunar fyrir þetta ræktunarár koma rúmar 55 milljónir kr. fyrir allt landið.

Umsóknir og afgreiðsla þeirra verður með sama hætti og gert er í þróunar-og jarðabótaverkefnum samkvæmt Búnaðarlagasamningi.

Framlag fæst til sáningar þar sem tún- og grænfóðurrækt er ætluð til fóðurframleiðslu eða beitar samtals á a.m.k. tveimur ha. Uppskera er kvöð. Ráðunautur sannreynir hvort um sé að ræða góða hefðbundna tún- eða grænfóðurrækt. Framlag á ha fyrir hvert bú ræðst af umfangi ræktunar á landinu, en gert er ráð fyrir að það verði að hámarki kr. 14.000 á hvern ha upp að 30 ha ræktun, en skerðist á hvern ha ef fjármunir hrökkva ekki til. Ef afgangur verður deilist hann á alla ræktaða hektara. Aðeins er greitt út á heila ha og venjulegar reglur um upphækkanir gilda.

Umsókn til búnaðarsambands um úttekt að hausti jafngildir umsókn um styrk. Þetta verður aftur auglýst í haust en þegar bændur eru búnir með sína jarðvinnslu er ekkert því til fyrirstöðu að þeir láti okkur vita strax af því svo það gleymist ekki. KÓE

Posted in BHS