Jarðræktin 2009

Töluverð vinna fór í jarðræktina á árinu að vanda. Nokkuð svipað umfang var í áburðaráætlanagerð og undanfarin ár en það er nokkuð sem fleiri bændur mættu nýta sér. Í mars var góð mæting á stórskemmtilegan kornfund í Víðihlíð þar sem Jónatan Hermannsson og Ingvar Björnsson héldu erindi. Á vormánuðum mættu ráðunautar á aðalfundi hjá búnaðarfélögum ef þess var óskað. Þar var m.a. rætt um skýrsluhaldsforritið jörð.is og sitthvað fleira.

Búnaðarsambandið hefur undanfarin ár tekið þátt í sameiginlegu átaki á landinu í að fylgjast með þroska túngrasa. Sýni voru tekin af túnum í Sauðnesi, A-Hún annars vegar af nýrækt og hins vegar gömlu túni með viku millibili fjórum sinnum í júní. Niðurstöðurnar eru birtar á www.bondi.is og er fróðlegt að sjá hversu hratt meltanleiki og prótein % í heyjum fellur eftir því sem líður á mánuðinn.

Vorið 2009 varð talsverð aukning í jarðræktinni og munar þar mest um kornræktina. Alls sáðu húnvetnskir bændur í 300 hektara af korni og var stærsti hluti þess innan héraðs þó svo 5 bændur hafi sáð sínu korni í Skagafirði og Eyjafirði. Er þetta aukning um ríflega 100 hektara frá fyrra ári og munar þar mest um mikla aukningu þeirra Vestur-Húnvetninga. Kornræktin gekk þokkalega á árinu þó ljóst megi teljast að þurrkar í vor og fyrri hluta sumars hafi víða dregið mikið úr uppskeru. Gerðar voru þurrefnismælingar á nokkrum kornsýnum sem sýndu að þurrefnið er í flestum tilfellum rétt undir eða um 50% við þreskingu.

Bæir Korn Gras Grænfóður Samtals ha
A-Hún 76 216 164 263 643
V-Hún 46 84 79 132 295
Strandir 13 0 30 25 55
Alls 135 300 273 420 993

Mikil úttektarvinna fylgir jarðabótunum, sér í lagi eftir að farið var að taka út alla jarðrækt og fer sú vinna fram að hausti. Jafnframt þurfti að taka út framkvæmdir vegna vinnuhagræðingar og bættrar aðbúnaðar í útihúsum, uppgröft úr skurðum og fleira. Eins sjá ráðunautar um að taka út vatnsveituframkvæmdir. Árni Snæbjörnsson kom á svæðið í september til að aðstoða við að mæla fyrir skurðum og nýttu talsvert margir bændur sér það.

Of lítill áhugi hefur verið á jarðvegs- og heysýnatöku á svæðinu. Með hækkandi áburðarverði er ljóst að þetta er þáttur sem bændur verða að nýta sér betur til að geta verið með nákvæmari áburðargjöf. Það hefur líka komið ljós í gegnum árin að sýrustig túna er víða alltof lágt. Víða þarf að kalka mýrartún og eitthvað sem ætti skilyrðislaust að fylgjast að með endurræktun túna.

Áburðar- og jarðræktarnámskeið var haldið í apríl í Sævangi á Ströndum og var ágæt þátttaka. Kennari var Ríkharð Brynjólfsson.

Með nýjum loftmyndagrunni sem búnaðarsambönd fengu aðgang að á árinu 2007 opnuðust nýir möguleikar til að þjónusta bændur. Í þeim grunni er nú hægt að gera túnkort fyrir bændur. Á árinu 2009 voru teiknuð 18 túnkort fyrir bændur og fyrir liggur að teikna mun fleiri á árinu 2009. Nær öll túnkort sem teiknuð voru fyrir Vestur-Húnvetninga í jarðræktarátaknu 2003 eru auk þess komin þar inn. Inn í þennan grunn var einnig teiknuð inn öll korn-, gras- og grænfóðurrækt á landinu og upphreinsun úr skurðum.

Þeir sem látið hafa teikna túnkort inn á þennan grunn geta nú fengið aðgang að sínum spildum á www.jörð.is en það forrit er á góðri leið með að valda mikilli byltingu í öllu jarðræktar­skýrsluhaldi. Inni á jörð.is er hægt að gera áburðaráætlanir, skrá uppskeru og ástand spildna, skoða loftmynd af spildum og margt margt fleira. Þetta er eins og gefur að skilja miðlægur gagnagrunnur sem auðveldar mikið leiðbeiningastarf og samskipti milli bænda og ráðunauta. Allir bændur sem hafa aðgang að bufe.is eða skýrsluhaldsforritum BÍ á netinu geta óskað eftir að láta virkja þann aðgang inn á jörð.is og komast þá inn á sínar jarðir.