Jarðræktin 2007

Kristján Óttar Eymundsson

Síaukið starf fer í jarðræktina á hverju ári. Í byrjun árs fer töluverður tími í að ganga frá umsóknum vegna jarðabótastyrkja. Það felst fyrst og fremst í vinnu við skráningu á lið sem er um endubætur á húsum til bættrar aðbúnaðar gripa og/eða bættrar vinnuaðstöðu. Á þessum tíma eru áburðaráætlanir fyrir bændur í fullum gangi en það er þjónusta sem fleiri bændur mættu nýta sér. Á vormánuðum mættu ráðunautar á aðalfundi hjá búnaðarfélögum ef þess var óskað. Þar var m.a. rætt um mikilvægi endurræktunar og kölkunar. Fyrstu vikuna í júlí kom Árni Snæbjörnsson á svæðið til að aðstoða við að mæla fyrir skurðum á nokkrum bæjum. Bændur tóku þeim leiðbeiningum mjög vel.

Búnaðarsambandið tók þátt í sameiginlegu átaki á landinu í að fylgjast með grasþroska um sumarið. Niðurstöðurnar sýndu að þurrkarnir í júní höfðu mikil áhrif á vöxt og viðkomu túngrasanna. Grös tóku fyrr að skríða og því féll fóðurgildið hratt.Það sést vel á línuritinu hér til hliðar en þetta eru sýni sem tekin voru í Sauðanesi í A-Hún. Árið 2005 var kalt sumar og orkugildi nýræktar­grassins féll hægt fram eftir sumri. Árið 2006 var ágætis sprettusumar og vætusamt og má ætla að orkugildið hafið fallið nokkuð eðlilega með tíma. Árið 2007 var júnímánuður mjög þurr og niðurstöður sýna að orkugildið féll mjög hratt á milli vikna. Svipaða sögu mátti segja um eldri tún.

Vorið 2007 sáðu 13 bændur korni til þroska í 74 ha í A-Hún en 7 bændur fóru yfir í aðrar sýslur og sáðu korni þar í 73 ha. Alls sáðu Austur-Húnvetningar því korni í 147 ha en það er mikil aukning frá árinu áður en þá var sáð í alls 110 ha. Til að sjá hvernig til hafi tekist fóru ráðunautar í kornskoðunarferðalag seinnipart ágústmánaðar. Kornakrar litu misjafnlega út og ljóst að uppskeran í heild yfir héraðið yrði undir meðallagi. Afgerandi munur var á korninu eftir jarðvegsgerð. Miklir þurrkar um sumarið höfðu komið illa við kornið sem var ræktað á grynnra landi, sem er jú algengasta kornræktarlandið. Þar var það víða lágvaxið og með stutt öx. Hálmurinn varð þ.a.l. lítill og kornuppskera líka. Þessir akrar urðu samt þroskaðir og það korn sem náðist var vel þurrt. Þar sem korn var í vatnsheldnum jarðvegi var kornuppskeran góð. Samkvæmt forðagæslutölum var heildaruppskeran í A-Hún um 172 tonn af votverkuðu byggi sem gerir um 2,3 tonn af korni á ha.

Þó að kornuppskeran á síðasta ári hafi verið lítil verða ráðunautar varir við síaukinn áhuga hjá bændum. Hjálpast þar eflaust ýmislegt að eins og hækkandi kjarnfóðurverð og almenn ræktunarvakning á svæðinu. Aðstoðað var við að athuga kornræktarmöguleika á Bakásum í A-Hún en fyrirhugað er að rækta þar korn nú í vor. V-Húnvetningar eru líka farnir að hugsa sér til hreyfings og ætla nokkrir bændur að rækta þar korn í vor.

Lítill áhugi var á jarðvegssýnatöku á svæðinu þetta árið. Í heildina voru ekki tekin nema 20 sýni. Með hækkandi áburðarverði er ljóst að þetta er þáttur sem bændur verða að nýta sér betur til að geta verið með nákvæmari áburðargjöf. Það hefur líka komið ljós í gegnum árin að sýrustig túna er víða alltof lágt. Víða þarf að kalka mýrartún og eitthvað sem ætti skilyrðislaust að fylgjast að með endurræktun túna.

Um haustið voru jarðabæturnar teknar út. Vinnan fólst fyrst og fremst í úttektum á framkvæmdum vegna vinnuhagræðingar og bættrar aðbúnaðar í útihúsum, uppgreftri úr skurðum og þreskingu á korni. Eins sjá ráðunautar um að taka út vatnsveituframkvæmdir.

Með nýjum loftmyndagrunni (LUK) sem búnaðarsambönd fengu aðgang að á árinu opnuðust nýir möguleikar til að þjónusta bændur. Í þeim grunni er nú hægt að gera túnkort fyrir bændur. Vinna hófst við það seint á árinu og nú í vetur verða sennilega gerð túnkort fyrir 15-20 jarðir. Inn í þennan grunn voru einnig teiknaðir inn allir kornakrar á landinu og upphreinsun úr skurðum. Þessi grunnur bíður líka upp á það að hnitsetja lóðir og landamerki. Í framtíðinni er gert ráð fyrir að bændur geti fengið aðgang að sinni jörð í grunninum og að þar verði hægt að safna saman öllum jarðræktarupplýsinum á einn stað eins og hey- og jarðvegssýna­niður­stöðum, heyuppskeru og áburðargjöf.