Ef bornir eru saman skýrsluhaldsbæir og sauðfjáreigendur á svæðinu haustið 2006 kemur í ljós að um 48 aðilar eiga kindur en eru ekki í gæðastýringu. Þar inni eru reyndar nokkrir „hobby“ bændur sem eiga mjög fáar kindur, þó er meðal sauðfjáreign þessara 48 aðila rétt tæplega 100 kindur. Heildarfjöldi sauðfjár sem ekki er í gæðastýringu samkvæmt því er 4.674 eða tæplega 6% af öllu sauðfé á svæðinu.
En hvað eru þessir aðilar að missa af með því að vera ekki í gæðastýringunni?
Búum til lítið reikningsdæmi:
Haustið 2006 var greitt tæplega 85 kr á hvert gæðastýrt kg sem lagt var inn í sláturhús. Við skulum taka meðalbóndann sem er með 100 kindur og reiknum með meðalfallþunganum 15,0 kg. Eins skulum við reikna með að hann hafi um 1,4 lömb til að leggja inn eftir hverja vetrarfóðraða kind. Innleggið eftir 100 kindurnar væri þá um 2.100 kg sem gæti gert um 180.000 kr í gæðastýringargreiðslur á ári.
Þegar nýr sauðfjársamningur tekur gildi um næstu áramót verða 300 milljónir króna lagðar til viðbótar í gæðastýrða framleiðslu. Það þýðir, ef miðað er við innlegg á landsvísu árið 2006, að greitt verður um 135 kr á hvert kg haustið 2008. Það gerir um 280.000 kr eftir hverjar 100 vetrarfóðraðar kindur. Bóndi sem væri með 200 kindur væri þá að fá 560.000 kr á ári!!
Það er ljóst að mörgum sauðfjárbóndanum munar um minna. Því er óhætt að hvetja þessa bændur til að gerast þátttakendur í gæðastýringunni. Starfsfólk búnaðarsambandsins hefur ánægju af að hjálpa öllum af stað, bæði með skýrsluhaldið og gæðahandbókina. Nú er meira að segja verið að endurskoða gæðahandbókina og stefnt á að einfalda skráningu í hana á næsta ári. Skýrsluhaldið ætti ekki nokkur maður að hræðast enda er nú öllum skylt að einstaklingsmerkja sitt fé og skráning því mun þægilegri en þegar kindur voru ómerktar.
Allir áhugasamir eru hvattir til að hafa samband við skrifstofu búnaðarsambandsins í síma 451-2602.