Skemmtilegt var að sjá hve mikið var sótt í að panta lambhrúta til kynbóta nú í haust. 46 bæir sóttu um að kaupa alls 106 hrúta. Margir sóttu um að kaupa hrúta úr N-Þingeyjarsýslunni en þar er búið að ákveða að hafa einn hrútakaupadag þann 30. september næstkomandi. Þeir bændur sem ætla að kaupa af því svæði eru því hvattir til að tala sig saman og gera góða ferð austur. Dagurinn verður nánar auglýstur í næsta Bændablaði en fyrirhugað er að hafa dýralækni á staðnum til að sprauta selda hrúta þannig að bændur geti tekið þá með sér heim.
Á öðrum svæðum er mikilvægt að bændur hafi samband við þá bæi sem að þeir ætla að kaupa hrúta af svo að seljendurnir viti af þeim.