Áhrif fóðrunar á efnainnihald mjólkur

Höfundur Útgefandi Útgáfuár Útgáfustaður
Gunnar Ríkharðsson BÍ, RALA 1990 Reykjavík
Rit Árgangur Tölublað Bls.
Ráðunautafundur 1990 235-244


INNGANGUR


Á síðustu árum hafa víða verið teknar í notkun nýjar reglur við mat á verðmæti mjólkur. Byggjast þær einkum á vaxandi áherslu á efnainnihald mjólkurinnar og þá ekki síst próteins, og er nú fyrirhugað að stíga skref í þessa átt hérlendis. Við slíkar aðstæður verða framleiðendur áhugasamir um að vita hvaða þættir hafi áhrif á efnainnihaldið og hvernig það breytist við gefnar forsendur.


Mjög mikið er til af tilraunaniðurstöðum um fóðrun og afurðir mjólkurkúa en fæstar tilraunanna hafa þó verið skipulagðar með það að markmiði að skoða náið áhrif einstakra þátta á efnainnihald mjólkur. Það er oftar en ekki „aukaafurð“ með öðru sem leitað var svara við, sem veldur því að ýmis áhrif eru oft samtvinnuð og því erfitt að fá skýr svör.


Í þessari grein mun ég reyna að gefa almennt yfirlit yfir áhrif fóðrunar á efnainnihald mjólkur. Þar sem líta má á mest af því sem hér kemur fram sem „skólabókarþekkingu“ þá kafa ég ekki djúpt eftir frumheimildum, en styðst að mestu við yfirlitsgreinar sem getið er um í lokin.


Ótal þættir geta haft áhrif á efnainnihald kúamjólkur svo sem nautgripakyn, aldur gripa, tími frá burði, mjaltir, fóður og fóðrun. Í eðli sínu getur fóður og fóðrun haft áhrif á efnin í mjólkinni með tvennum hætti. Í fyrsta lagi ræðst magn næringarefna í blóði að miklu leyti af magni, efnainnihaldi og gerð þess fóðurs sem gripurinn étur. Í öðru lagi getur fóðrunin haft áhrif á nýtingu á þessum næringarefnum og koma þau áhrif þá oftast fram gegnum hormónastarfsemina í líkamanum. Þessi stjórnun á nýtingu á næringarefnunum felst m.a. í því að beina þeim til ákveðinna vefja líkamans og jafnvel til ákveðinna lífefnaferla innan þeirra vefja, á kostnað annarra. Rétt er því í byrjun að rifja upp helstu einkenni meltingar hjá jórturdýrum og hvaða næringarefnum hún skilar í blóðið.

MELTING HJÁ JÓRTURDÝRUM

Kolvetni

Kolvetnin í fóðrinu meltast að mestum hluta í vömbinni og afurðir þeirrar meltingar eru rokgjarnar fitusýrur; edikssýra (2C), própionsýra (3C), smjörsýra (4C) og í minna mæli mjólkursýra (3C). Almennt má segja að gróft og trénisríkt fóður auki hlutfall edikssýru, fínt og sterkjuríkt fóður auki hlutfall própionsýru en sykurríkt fóður (rófur, melassi) auki hlutfall smjör og mjólkursýru. Þótt grunneiningin bæði í sterkju og sellulósa (tréni) sé glúkósi, þá veldur mismunandi uppröðun á einingunum því að vambargerjunin fer í mjög mismunandi farveg eftir því um hvort efnið er að ræða, en í báðum tilfellum er mjög lítið af glúkósa á meðal afurða meltingarinnar. Þetta er þó að nokkru háð fóðurtegund og meðhöndlun fóðurs og t.d. berst mun meira af glúkósa niður í mjógirnið úr maís en byggi og verulegt magn ef fóðrað er á heilum maís.


Rokgjörnu fitusýrurnar berast úr vömbinni inn í blóðið og smjörsýran umbreytist í beta-OH-smjörsýru í vambarveggnum. Própionsýran berst til lifrarinnar og nýtist aðallega við nýmyndun á glúkósa (gluconeogenesis), en einnig við myndun á amínósýrum. Segja má að efnaskipti hjá hámjólka kúm snúast að stórum hluta um það að tryggja nægilegt framboð á glúkósa til myndunar mjólkursykurs, enda er þar um verulegt magn að ræða eins og sést í töflu 1.
Edikssýran og ßOH-smjörsýran nýtast aftur á móti aðallega sem orkugjafar og við uppbyggingu á fitu t.d. í fituvef og mjólkurkirtli. Við fitumyndunina tengjast einingar af þessum sýrum saman í lengri keðjur (fitusýrur) en rétt er að leggja áherslu á, að hvorki edikssýra né smjörsýra geta nýst sem sykurgefandi efni og nýtast þær því ekki við nýmyndun glúkósa.

Prótein
Amínósýrurnar í blóðinu eru komnar beint úr torleystu próteini fóðursins eða frá örverum vambarinnar. Þær amínósýrur sem ekki teljast lífsnauðsynlegar geta einnig myndast í vefjum t.d. mjólkurkirtli, en skv. skilgreiningu, verða hinar lífsnauðsynlegu að koma annars staðar frá. Aukin torleysni próteins í fóðrinu getur því aukið amínósýrur í blóðinu en myndun örverupróteins er háð bæði framboði á orku og köfnunarefni í vömbinni. Langflestar amínósýrur eru sykurgefandi (glucogenic) þ.e. geta nýst til myndunar glúkósa í lifrinni sem síðar er nýttur t.d. í mjólkursykur.

Fita
Það sem í daglegu tali er nefnt fita eru þríglyseríð þ.e. þrjár fitusýrur bundnar einu glyseróli. Í fóðri jórturdýra eru margs konar fituefni (lípíðar) t.d. vax, sterólar, karótín o.fl. en fitusýrurnar sjálfar eru yfirleitt frekar lítið mettaðar eins og þekkt er með jurtafitu.


Í vömbinni er fitan brotin niður í frjálsar fitusýrur og glyseról og ómettaðar sýrur eru mettaðar (hertar) af örverunum. Glyserólið gerjast síðan eins og önnur kolvetni en fitusýrurnar eru ekki brotnar meira niður í vömbinni. Fitusýrurnar sem berast í mjógirnið eru því mun mettaðri en þær sem eru í fóðrinu en einnig er um verulegar breytingar á afbrigðum (isomerum) að ræða í vömbinni t.d. úr cis- í trans form (Börsting & Weisbjerg, 1989).


Sumar fitusýrurnar geta haft bein áhrif á starfsemi örveranna í vömbinni og minnkað niðurbrot á próteini og tréni og þar með lækkað meltanleika í vömbinni og breytt hlutföllum milli rokgjörnu fitusýranna t.d. aukið própionsýru. Neikvæð áhrif á meltanleika virðast aukast með vaxandi leysanleika fitusýranna í vatni. Styttri sýrur eða ómettaðri eru hlaðnari (pólaðri) og því leysanlegri í vatni heldur en lengri og mettaðri sýrur. Þar sem fitusýrurnar eru sem anjónir við pH í vömbinni (6-7) má minnka leysanleika þeirra með því að binda við þær t.d. Ca++ eða Mg++ jónir og minnka þannig neikvæð áhrif þeirra (Börsting & Weisbjerg, 1989). Á svipaðan hátt má einnig vernda fitu gegn niðurbroti í vömbinni og er það ein leið til að hafa áhrif á hlutföll fitusýra í mjólkurfitunni.


Örverur vambarinnar geta ekki nýtt sér fitusýrur úr fóðrinu sem orkugjafa en geta hins vegar nýtt þær við uppbyggingu á eigin fitu. Orka úr fitu í fóðrinu skilar því ekki auknu örverupróteini í mjógirnið, öfugt við orku úr kolvetnum. Úr mjógirninu berast styttri fitusýrurnar í portæð og flytjast þannig til lifrarinnar, en lengri sýrurnar eru bundnar aftur í þríglyseríð og flytjast með fitupróteinum (lipoprotein) í sogæðakerfið og síðar í blóðið. Þannig berast þær um líkamann t.d. til fituvefs og mjólkurkirtils og nýtast þar við fitumyndun en fara ekki til lifrar (Moore & Christie, 1984).

NÝTING Á NÆRINGAREFNUM ÚR BLÓÐI

Við burð og í byrjun mjaltaskeiðs verða miklar breytingar á líkamsstarfsemi hjá kúnni sem miða að því að fullnægja þörfum mjólkurkirtilsins fyrir næringarefni til mjólkurmyndunar. Aukning verður á þeim hormónum (vökum) sem stuðla að niðurbroti efna í fitu og vöðvavef t.d. vaxtarhormóni (GH), en minnkun á hinum sem stuðla að uppbyggingu í sömu vefjum t.d. insúlíni. Upptaka næringarefna í mjólkurkirtil er hins vegar ekki háð insúlíni svo lækkun á því háir ekki myndun mjólkurefnanna. Samhliða þessu verða breytingar á stærð og virkni meltingarfæra, lifrar og mjólkurkirtils og blóðflæði til þessara vefja eykst, en allt þetta stuðlar að því að beina næringarefnum til mjólkurmyndunar (Vernan, 1988).


Við upphaf mjaltaskeiðs meðan átgeta er takmarkandi má hugsa sér að framboð á hráefnum til mjólkurmyndunar sé sá þáttur sem mest takmarkar mjólkurmyndun. Þegar líður á mjaltaskeiðið breytist þetta, átgeta og framboð á næringarefnum eykst, en þeim er nú í vaxandi mæli beint til uppbyggingar í öðrum vefjum en mjólkurkirtli, vegna breytinga á hormónastarfsemi. Þessari stýringu má breyta t.d. með notkun á vaxtarhormóni, sem viðheldur því ástandi lengur inn á mjaltaskeiðið að beina næringarefnum frekar til mjólkurmyndunar en fitusöfnunar (Chalupa & Galligan, 1989).

MJÓLKURMYNDUN

Það er nokkuð vel vitað hvernig þeir framleiðsluferlar sem mynda mjólkurefnin eru og hvaða hráefni þurfa að vera til staðar, en minna er vitað um stjórnun á einstökum ferlum.


Helstu hráefni (næringarefni, byggingarefni) sem berast með blóðinu og notuð eru við mjólkurmyndunina eru glúkósi (blóðsykur), amínósýrur, edikssýra, ßOH-smjörsýra og langar fitusýrur (C16).


„Öll“ efni sem finnast í mjólkinni eiga það sameiginlegt að uppruna sinn hljóta þau að rekja til fóðurs (efna) sem gripurinn hefur innbyrt, nema þau berist í mjólkina upp um spenaopið. Eins og mjög margar lífrænar afurðir (kjöt, ávextir, gras) er mjólkin að langstærstum hluta vatn. Steinefni, vatn, vítamín og sum prótein (immunoglobulin, albumin) berast óbreytt úr blóðinu í mjólkina en fitan, mest af próteininu og mjólkursykurinn eru mynduð í mjólkurkirtlinum.
Ógrynni af öðrum efnum má finna í mjög litlum mæli í mjólkinni svo sem ýmis snefilefni, fituefni, sýrur, hormón (t.d vaxtarhormón) og einnig leifar af mjólkurmyndunarfrumum sem berast í mjólkina úr mjólkurkirtlinum og hvít blóðkorn úr blóðinu.


Til að flytja næringarefnin til júgursins þarf óhemjumikið blóðmagn og reiknað er með að það þurfi 400-1000 l af blóði fyrir hvert kg af mjólk sem myndað er (Collier, 1985). Ef miðað er við hlutfallið 500:1 og 30 kg dagsnyt þá þurfa um 15000 l af blóði að streyma gegnum mjólkurkirtilinn á sólarhring eða um 10 l á mínútu.

Tafla 1. Efnainnihald mjólkur og afurðir mjólkurefna við mismunandi nyt.

Stjórnun á þeim ferlum sem mynda mjólkurefnin er ekki þekkt til hlítar en almennt gilda þar sömu lögmál og í öðrum „verksmiðjum“. Það þarf að tryggja að nauðsynleg hráefni (glúkósi, edikssýra, ßOH-smjörsýra, amínósýrur, fitusýrur, súrefni) og stýriefni (hormón, hvatar o.fl.) séu til staðar og síðan þarf að losna við framleiðsluna (mjólkina) og úrgangsefnin (CO2 o.fl.). Mikið framboð hráefna virkar hvetjandi á þessa ferla en uppsöfnun framleiðslunnar (mjólkurinnar) veldur auknum þrýstingi sem hugsanlega, ásamt efnum í mjólkinni, virka letjandi á frekari framleiðslu (Heald, 1985). Ekki er talið að þessir ferlar séu lífefnafræðilega háðir hver öðrum en flutningar á vatni, próteini og sykri í mjólkina eru þó mun tengdari hver öðrum, heldur en fitumynduninni.

Til framleiðslu á mjólkurfitu, próteini og sykri þarf orku á formi ATP og helstu orkugjafar í mjólkurkirtlinum eru edikssýra, sumar amínósýrur og fitusýrur og jafnvel glúkósi (P.C. Thomas, 1984).


Mjólkursykurinn (laktósi) er tvísykra mynduð úr glúkósa og galaktósa, en hann er myndaður úr glúkósa í mjólkurkirtlinum.


Háprótein í mjólk (N x 6,38) er að mestu leyti hreinprótein (95%), en afgangurinn aðallega þvagefni. Af hreinpróteininu er kasein (ostaprótein) um 80% en afgangurinn svonefnd mysuprótein (globulin, albumin) (P.C. Thomas, 1984).


Mjólkurfitan er að stærstum hluta (97-98%) þríglyseríð, en afgangurinn er aðallega ýmsir fosfórlípiðar. Talið er að um helmingur af fitusýrum í mjólkinni komi úr blóðfitunni og er þar um að ræða lengri keðjurnar (>C18). Palmitínsýra (C16) kemur að hluta tilbúin úr blóðinu en styttri keðjurnar eru hins vegar samsettar í júgrinu úr edikssýru og ßOH-smjörsýru (Larson, 1985).

FÓÐRUN OG EFNAINNIHALD MJÓLKUR

Hér verður einungis fjallað um áhrif fóðurs á sykur, fitu og prótein í mjólk en að sjálfsögðu getur fóðrun haft áhrif á önnur efni í mjólkinni, svo sem vítamín og steinefni.

Mjólkursykur
Fóðrun hefur mjög lítil áhrif á hlutfall mjólkursykurs og er það aðallega vegna þess hve sykurinn er tengdur stjórnun á vökvaspennu í mjólkinni. Ef framleiðsla á mjólkursykri eykst, þá dregur hann með sér vatn í mjólkina þannig að mjólkurmagnið eykst, en hlutfall mjólkursykurs helst óbreytt. Á hinn bóginn hefði þetta aukna mjólkurmagn í för með sér lækkun á hlutfalli fitu og próteins í mjólkinni, þó svo engar breytingar hefðu í raun orðið á framleiðslu þeirra efna. Út frá þessu má færa rök fyrir því að réttara sé að skoða áhrif fóðrunar á efnainnihald út frá framleiddu heildarmagni efna (g/dag), frekar en styrkleika þeirra í mjólkinni (P.C. Thomas, 1984).

Mjólkurprótein
Undir venjulegum kringumstæðum er mjög erfitt að breyta hlutfalli próteins í mjólk svo einhverju nemi, en almennt má segja að prótein í mjólk fylgi betur orku en próteinfóðrun. Þannig hækkar prótein % í mjólkinni yfirleitt við aukna kjarnfóðurgjöf og einnig þegar kýr komast á beit á vorin, svo dæmi séu tekin. Þessu til stuðnings má benda á norskar (Vik-Mo, 1984), sænskar (Spörndly, 1989) og bandarískar (Emery, 1978) athuganir. Þessi aukning á próteini við aukna orkufóðrun er oftast tengd hærra hlutfalli própionsýru í vömbinni, þó ekki sé vitað nákvæmlega hvernig það gerist (P.C. Thomas, 1984).


Rétt er að benda á að oft er erfitt að greina sundur áhrif próteins og orku í fóðri. Ef orkan eykst með meira kolvetnafóðri þá eykst um leið örverupróteinmyndun í vömbinni og þar með væntanlega magn amínósýra í blóði. Á hinn bóginn getur aukið prótein í fóðrinu hækkað meltanleika á gróffóðrinu og þar með orkuframboð.


Próteinmagn í fóðri virðist ekki hafa veruleg áhrif á prótein í mjólk nema ef um er að ræða mikla undirfóðrun, þá lækkar prótein í mjólkinni. Algengara er að sjá niðurstöður sem sýna að aukið prótein í fóðri á fyrstu vikum mjaltaskeiðsins auki afurðir mjólkur og mjólkurefna, en ekki hlutföll þeirra. Þannig sýna danskar niðurstöður (sjá Hermansen & Pedersen, 1987) að hækkun á próteini í fóðri úr 15 í 21% af þe. auki afurðir mjólkur og mjólkurefna en lækki fitu %, en sé próteinið hækkað enn frekar (19-23%) hafi það ekki áhrif á hlutföll né afurðir mjólkurefna.


Það er þó athyglisvert, að ef kasein (ostaprótein) er gefið beint inn í vinstur þá eykur það nánast undantekningalaust afurðir af mjólkurpróteini, að hluta vegna aukningar á mjólkurmagni en að hluta vegna hækkunar á hlutfalli próteins í mjólkinni. Þessi áhrif eru og sérstaklega sláandi ef kýrnar eru undirfóðraðar í orku (P.C. Thomas, 1984).


Þekkt er að þvagefnið (urea) í mjólkinni breytist með breyttu þvagefni í blóði og því getur fóðrun á mjög auðleystu próteini (votheyi) valdið hækkun á hrápróteini í mjólkinni, þó enginn breyting sé á hreinpróteini (Thomas & Martin, 1988; Hermansen & Pedersen, 1987).


Hið tiltölulega litla samhengi milli próteins í fóðri og próteins í mjólk getur haft sínar eðlilegu skýringar. Í fyrsta lagi er ekki beint samband milli próteins í fóðri og amínósýra í blóðinu. Þar hafa bæði orka í fóðrinu og leysanleiki próteinsins í vömbinni einnig mikið að segja. Í tilraunum þar sem könnuð eru áhrif próteins í fóðri á prótein í mjólk er í fæstum tilfellum metið, hvað þá mælt, hve miklu af nýtanlegum amínósýrum fóðrið skilar. Í öðru lagi ef fóðrið skilar amínósýrum í blóðið umfram þarfir, þá nýtast þær bæði sem orkugjafar og til nýmyndunar glúkósa, en ekki bara til próteinmyndunar.


Fita í fóðri virðist í mörgum tilfellum, þó ekki öllum, valda lækkun á prótein % í mjólkinni. Þetta er þó háð bæði magni og gerð fitunnar í fóðrinu og menn eru ekki á eitt sáttir hvort þarna er um að ræða bein áhrif fitusýra á próteinmyndun í mjólkurkirtlinum (Palmquist, 1984), eða hvort eingöngu er um að ræða þynningaráhrif vegna aukins mjólkurmagns (Thomas & Martin, 1988).


Spörndly (1989) notaði gögn úr yfir 50 sænskum fóðrunartilraunum með mjólkurkýr til að athuga samband fóðrunar og próteins í mjólk. Hún fann neikvætt samhengi milli fitu í fóðri (eter extrakt) og hlutfalls próteins í mjólk, en jákvætt við próteinafurðir (g/d). Áhrifin á prótein % í mjólkinni voru óháð orku í fóðrinu, sem styrkir þá skoðun að þetta séu einhver „sérstök“ fituáhrif.


Hluti af skýringu á þessum áhrifum fitunnar gæti verið að þar sem fitan skilar ekki auknu örverupróteini í mjógirnið minnkar raunveruleg próteinfóðrun venjulega við fitufóðrun, nema magn og/eða torleysni próteins í fóðrinu sé aukið samhliða.

Mjólkurfita
Fitan er sá hluti mjólkurefnanna sem auðveldast má hafa áhrif á með fóðrun. Almennt gildir, öfugt við mjólkurprótein, að neikvætt samhengi er milli orkufóðrunar og fitu % og sjálfsagt eru best þekkt áhrif af aukinni kjarnfóðurgjöf til lækkunar á fituhlutfalli í mjólk. Þessi áhrif virðast vera tvenns konar. Í fyrsta lagi eykur kjarnfóðrið hlutfall própionsýru í vömbinni á kostnað ediks og smjörsýru og þar með minnkar framboð á „fitugefandi“ sýrum í blóðinu. Í öðru lagi þá veldur hátt hlutfall própionsýru því að insúlín hækkar og þar með er næringarefnum frekar beint til uppbyggingar á fitu í fituvef heldur en mjólkurkirtli (Sutton & Morant, 1989).


Bæði gerð kjarnfóðursins og hve oft það er gefið getur haft áhrif á hversu mikil lækkun verður í fitu %. Bygg meltist hraðar en t.d. maís og veldur því hærra hlutfalli própionsýru og þar með hærra insúlíni og því fylgir yfirleitt meiri lækkun á fitu %. Hins vegar virðist fóður sem inniheldur ýmsar sykrur en ekki sterkju t.d. melassi, mysa og rófur viðhalda fitu % betur, en undantekning virðist þó hreinn súkrósi (strásykur) (Sutton & Morant, 1989).


Við mikla kjarnfóðurgjöf er til bóta að gefa það oftar og minna í einu sennilega vegna minni insúlínáhrifa (Sutton, 1984).


Rétt er að taka fram að þessi áhrif kjarnfóðurs til lækkunar á fitu % koma ekki verulega fram nema kjarnfóður sé orðið 55-60% af þurrefni fóðursins (P.C. Thomas & Martin, 1988). Til að ná slíku hlutfalli þyrfti íslensk meðalkusa sjálfsagt að éta 9-10 kg af kjarnfóðri, nema át á gróffóðri væri þeim mun minna, en slík fóðrun er ekki algeng hérlendis.


Það er þó ekki eingöngu hlutfall gróffóðurs í heildarfóðri sem skiftir máli, heldur einnig „grófleiki“ þess (stubblengd, strágerð). Þannig getur mjög fínt saxað vothey (<1 cm), fínt malað þurrhey og mjög góð beit lækkað fitu %, en oftar en ekki eykur slíkt fóður þó einnig bæði át og afurðir. Ekki virðist samanburður á votheyi og þurrheyi sýna neinn afgerandi mun á áhrifum þessara fóðurgerða á efnainnihald mjólkur, þó til séu niðurstöður sem sýna jákvæð áhrif votheys (C. Thomas, 1984).


Áhugi á að blanda fitu í fóður mjólkurkúa hefur aukist mjög hin síðari ár vegna þess að fita er ódýr orkugjafi og með henni má auðveldlega auka orkustyrk og þar með orkuát kúnna. Jafnframt opnar fituíblöndun möguleika á að hafa bein áhrif á fitusýrusamsetningu mjólkurfitunnar og þar með áhrif á vinnslueiginleika og jafnvel hollustu. Þetta er þó bundið því að hægt sé að koma fitunni óbreyttri í gegnum vömbina.


Yfirleitt aukast afurðir mjólkur þegar fitu er blandað í fóðrið og er þetta oftast vegna meiri orkufóðrunar, en einnig vegna betri orkunýtingar. „Ódýrara“ er að taka tilbúnar fitusýrur úr blóðinu og setja í mjólkurfitu miðað við að byggja þær upp frá grunni í mjólkurkirtlinum (Palmquist, 1984; Östergaard et al., 1981).
Hins vegar er mun erfiðara að spá fyrir um áhrif fitunnar á fitu % í mjólkinni og er þar um samspil að ræða milli áhrifa fitunnar í vömbinni og í mjólkurkirtlinum. Aukinn fita í fóðri eykur framboð á löngum fitusýrum í blóði og þar með getur aukist myndun á þeim hluta mjólkurfitunnar. Á hinn bóginn eykur fita í fóðri hlutfall própionsýru í vömbinni, en minnkar ediks- og smjörsýru og minnkar þannig framboð og jafnvel upptöku á „fitugefandi“ sýrum inn í mjólkurkirtilinn og getur þannig minnkað myndun á þeim hluta mjólkurfitunnar. Magn af fitu í fóðrinu og fitugerðin (lengd fitusýra, mettun) hafa afgerandi áhrif á hver endanleg áhrif verða á fitu %, en stuttar eða ómettaðar fitusýrur virðast helst valda lækkun á fitu í mjólk (Sutton, 1989).

LOKAORÐ

1. Ljóst er að fóður og fóðrun hefur mikil áhrif á efnainnihald mjólkur. Oft eru áhrifin þó önnur en reiknað var með og oft er það vegna þess að þær einingar, sem notaðar eru til að lýsa næringarefnum í fóðrinu (hráprótein, FE, fita, tréni), tengjast ekki nægilega vel afurðum meltingarinnar (rokgjarnar sýrur, glúkósi, amínósýrur, fitusýrur), þ.e.a.s. þeim efnum sem raunverulega hafa áhrif á mjólkurmyndunina.

2. Fóður og fóðrun, öfugt við kynbætur, geta haft mjög skjótvirk áhrif á efnainnihald mjólkur og þar með aðlagað framleiðsluna kröfum markaðarins, ef þær eru ljósar.

3. Fitan, bæði magn og samsetning, er sá hluti mjólkurinnar sem auðveldast er að hafa áhrif á með fóðrun. Breytingar á hlutfalli próteins eru yfirleitt óverulegar og frekar virðist mega breyta samsetningu próteinsins með kynbótum en fóðrun.

4. Við aðstæður hérlendis er ekki að vænta verulegra áhrifa fóðurs á efnainnihald mjólkur, nema þá helst ef farið verður að nota í meira mæli nýjar fóðurtegundir til fóðrunar á mjólkurkúm t.d. fitu, meltu og mysu.

HEIMILDIR

Bruce, L.L., 1985. Biosynthesis and cellular secretion of milk. Í: Lactation (ritstj. B.L. Larson). The Iowa State University Press: 129-162.
Börsting, C.F. & M.R. Weisbjerg, 1989. Fatty acid metabolism in the digestive tract of ruminants. Ph.D. thesis. Institute of Animal Science, Copenhagen, 1989.
Chalupa, W. & D.T. Galligan, 1989. Nutritional implications of Somatotropin for lactating cows. J. Dairy Sci. 72: 2510.
Collier, R.J., 1985. Nutritional, metabolic and environmental aspects of lactation. Í: Lactation (ritstj. B.L. Larson). The Iowa State University Press: 80-127.

Emery, R.S., 1978. Feeding for increased milk protein. J. Dairy Sci. 61: 825.
Heald, C.W., 1985. Milk collection. Í: Lactation (ritstj. B.L. Larson). The Iowa State University Press: 198-226.
Hermansen, J.E. & J. Pedersen, 1987. Milk composition in relation to breeding and feeding. Í: Cattle Production Research. Danish Status and Perspectives. Landhusholdningsselskabets Forlag. Copenhagen: 140-154.
Moore, J.H & W.W Christie, 1984. Digestion, absorption and transport of fats in ruminant animals. Í: Fats in animal nutrition (ritstj. J. Wiseman). Butterworths: 123-150.
Palmquist, D.L., 1984. Use of fats in diets for lactating dairy cows. Í: Fats in animal nutrition (ritstj. J. Wiseman). Butterworths: 357-381.
Thomas, C., 1984. Milk compositional quality and the role of forages. Í: Milk Com-positional Quality and its Importance in Future Markets (ritstj. M.E. Castle & R.G. Gunn). Occasional Publication No. 9, British Society of Animal Production: 69-76.
Thomas, P.C., 1984. Feeding and milk protein production. Í: Milk Compositional Quality and its Importance in Future Markets (ritstj. M.E. Castle & R.G. Gunn). Occasional Publication No. 9, British Society of Animal Production: 53-67.
Thomas, P.C. & P.A. Martin, 1988. The influence of nutrient balance on milk yield and composition. Í: Nutrition and Lactation in the Dairy Cow (ritstj. P.C. Garnsworthy). Butterworths: 97-117.
Spörndly, E., 1989. Effects of diet on milk composition and yield of dairy cows with special emphasis on milk protein content. Swedish J. agric. Res. 19: 99-106.
Sutton, J.D., 1984. Feeding and milk fat production. Í: Milk Compositional Quality and its Importance in Future Markets (ritstj. M.E. Castle & R.G. Gunn). Occasional Publication No. 9, British Society of Animal Production: 43-52.
Sutton, J.D., 1989. Altering milk composition by feeding. J. Dairy Sci. 72: 2801-2814.
Sutton, J.D. & S.V. Morant, 1989. A review of the potential of nutrition to modify milk fat and protein. Livest. Prod. Sci. 23: 219-237.
Vernon, R.G., 1988. The partition of nutrients during the lactation cycle. Í: Nutrition and Lactation in the Dairy Cow (ritstj. P.C. Garnsworthy). Butterworths: 32-52.
Vik-Mo, L., 1984. Innstilling om fett/protein behovet i leverandörmelk. Norske Melkeprodusenters Landsforbund.
Östergaard, V., A. Danfær, J. Daugaard, J. Hindhede & I. Thysen, 1981. The effect of dietary lipids on milk production in dairy cows. Beretning nr. 508 fra Statens Husdyrbrugs forsög. Landhusholdningsselskabets Forlag: 140 bls.