Heysýni

Þó spretta sé dræm sökum þurrka líður að því að huga þurfi að heysýnatöku. Til að fá sem besta yfirsýn yfir heyforðann er gott að taka heysýni. Heysýnin nýtast bóndanum við fóðuráætlanagerð og einnig til að meta ástand túna og áburðarþörf. Best er að taka heysýnin þannig að þau lýsi þeim breytileika sem er í vetrarfóðrinu.

Verð fyrir hefðbundnar mælingar (með steinefnum) – kr. 5.700, á hvert sýni án vsk
Verð án steinefna – kr. 3.000, á hvert sýni án vsk
Viðbót fyrir NorFór kerfið (aska, sCP, NDF og iNDF – kr. 1.500, á hvert sýni án vsk
(Norfórgreining með steinefnum kr. 7.200 á sýni án vsk)

Áætlaður tími frá því sýnin koma í hús hjá LbhÍ þar til niðurstöður fást er 30 dagar.

Þeir bændur sem ætla að láta gera fyrir sig fóðuráætlun í NorFor er bent á að taka verkuð sýni (frekar en hirðingarsýni) svo gerjun sé búin að eiga sér stað og er þá talað um 4-6 vikum eftir að heyinu var pakkað inn.

Sé tekið hirðingarsýni er góð aðferð að ganga hornalínu spildunnar, rétt áður en hirðing hefst, og taka heyvisk í plastpoka á leiðinni. Ágætt er að miða við að heymagnið í sýninu verði um 300-400 g. Merkja þarf hvert sýni með upplýsingum sem koma hér fyrir á eftir og setja sem fyrst í frysti. Best er að geyma sýnin í frystikistunni til loka 1. sláttar og koma þeim þá á skrifstofu BHS sem sér um að koma þeim í greiningu. Sýni af hánni og því fóðri sem seinna er hirt má senda að loknum heyskap.

Hver og einn verður að meta það hversu mörg sýni ástæða er til að taka. Þó þarf að leggja áherslu á að taka sýni úr því fóðri sem notað verður sem uppistaða í fóðruninni næsta vetur. Hægt er að setja saman í sýni hey af spildum með svipuðu gróðurfari og eru slegnar og hirtar á sama tíma.

Merkja þarf sýnin með eftirfarandi upplýsingum:

– Nafn bónda, kennitala og heimilisfang
– Nafn eða nr. spildu
– Dags. sláttar og dags. hirðingar
– Hvort sýnið er af 1. eða 2. slætti
– Hvort heyið er ætlað í rúllur, þurrhey eða vothey
– Hvort sýnið er af túni eða grænfóðri

Betra er að taka sýni af verkuðu heyi ef það er hirt í útistæður. Þeir sem vilja slík sýni og eins þeir sem vilja fá tekin heysýni úr verkuðum rúllum, votheysgryfjum eða þurrheyshlöðum geta haft samband í heyskaparlok. Verður það einnig auglýst betur síðar, þegar við snúum aftur úr sumarleyfi.

Posted in BHS