Heimsókn kúabænda að Jörfa


Nautgripabændur í V- Hún eru almennt duglegir að fylgjast með nýjungum og einn liður í þeirri viðleitni þeirra er að heimsækja hvern annan og miðla þannig reynslu á milli manna. Á laugardaginn var skipulögð heimsókn til Ægis bónda á Jörfa í Víðidal. Hann hefur staðið í miklum framkvæmdum á síðustu árum og breytti hlöðu og fjárhúsum í legubásafjós með mjaltabás fyrir nokkrum árum.

Ástæða heimsóknar til Ægis núna var þó ekki síst vegna mikillar umræðu um heilfóður að undanförnu en á Jörfa er fóðurblöndunarvagn sem losar gróffóðurblöndu inn á hringlaga færiband sem kýrnar éta af. Í gróffóðrið er blandað kurluðu kjarnfóðri en auk þess eru kjarnfóðurbásar inni í fjósinu. Ægir taldi góða reynslu af þessu og nytin hefur verið að aukast í kúnum hjá honum en þær voru feitar og fallegar að sjá. Sérstaklega taldi hann þetta góða leið til að fá góða nýtingu á grænfóðurrúllur með því að blanda þeim saman við heyrúllur. Vegna þess hve búið hefur stækkað ört hjá Ægi þá hefur hann ekki haft undan að auka við ræktunina heima fyrir og því þurft að sækja heyskap langt að og nota mikla grænfóðurrækt.

Heimsóknir sem þessar skapa iðulega miklar umræður um hvernig best er að hafa hlutina og eru mjög af hinu góða. Það þarf ekki alltaf að fara mjög langan veg til að fá nýjar hugmyndir þó það sé að sjálfsögðu mjög gaman líka. GR

Posted in BHS