Hæst dæmdu lambhrútarnir haustið 2008 á svæði BHS

Þá er loksins búið að taka endanlega saman hæst dæmdu lambhrútana frá því í haust. Nánast sami fjöldi lamba var skoðaður nú og árið áður eða 15.070 gimbrar og 2.595 hrútar. Lömbin voru yfirleitt í mjög góðu standi og vænleiki þeirra víða meiri en árið áður.

Þykkasti bakvöðvi sem mældist í haust var 39 mm. Þá mælingu fékk reyndar ekki hrútur heldur tvær gimbrar úr A-Hún. Önnur er Raftsdóttir frá Akri og hin Papadóttir frá Hæli. Þrír hrútar mældust með 37 mm bakvöðva. Það voru Kroppssonur frá Bergsstöðum í Miðfirði, Bifurssonur frá Mýrum á Heggstaðanesi og Papasonur frá Hjallalandi í Vatnsdal.

Af sonum stöðvarhrúta voru synir Þráðs að koma almennt best út. Þeir stiguðust að meðaltali hæst og voru með þykkasta bakvöðvann og um leið þann fituminnsta. Þráður er undan Kveik, sem stimplaði sig rækilega inn í okkar sauðfjárrækt árið á undan. Þráður hefur verið lélegur sæðisgjafi og því voru til færri lömb undan honum en ella hefði verið. Aftur á móti var mikið til af Raftssonum. Einkenni þeirra var þykkt og fitulítið bak og afbragðs lærahold. Þeir gátu þó oft verið töluvert breytilegir að gerð, þó að vissulega hafi sést mikið af góðum hrútsefnum. Papi, Kroppur, Gráni og Bifur voru einnig að gefa mikið af öflugum hrútsefnum. Hrútarnir undan Bifri voru samt oft að mælast full feitir sem er í samræmi við Blup einkunn Bifurs fyrir fituflokkun.

Hjá kollóttu hrútunum var Spakur að koma mjög vel út en synir hans sýndu almennt geysilega góða kjöteiginlega, með þykkt bak og öflug lærahold. Eldur sýnir líka athyglisverðar niðurstöður. Þessir hrútar eiga þó það sammerkt að þeir munu ekki bæta ullargæði hjá kollótta fénu.

Hér fyrir neðan er hægt að sjá yfirlit yfir hæst stiguðustu lambhrútana eftir sýslum. Eins er samanburður á dómum fyrir syni sæðingastöðarhrútanna á okkar svæði. KÓE

Hæst dæmdu lambhrútar á svæði BHS haustið 2008

Dómar á lambhrútum undan sæðingahrútum haustið 2008 á svæði BHS

 

Posted in BHS