Komnar eru nýjar niðurstöður úr mælingum á fóðurgildi grassýna sem tekin eru vikulega víðs vegar um landið. Á okkar svæði höfum við tekið sýni í Sauðanesi í A-Hún undanfarin ár. Niðurstöðurnar sýna að fall í orkugildi grasanna er mjög svipað og það var árið 2007. Aðrir sýnatökustaðir á landinu sýna keimlíka niðurstöðu (sjá www.bondi.is).
Svipaða sögu má segja um eldra túnið í Sauðanesi og nýræktina. Þó verður að nefna það að enn er töluvert eftir af vallarfoxgrasi í eldra túninu og því líkist sprettuferill þess enn að einhverju leyti nýrræktartúni.
Ef litið er á uppskerumælingarnar samhliða orkugildi grasanna kemur nokkuð athyglisvert í ljós en það er að uppskeran í ár er að mælast mun meiri en hún hefur gert síðustu árin. Í raun er orkugildið að falla tiltölulega hægt miðað við uppskeruaukninguna á milli vikna. Ástæðan fyrir því er greinilega sú að vallarfoxgrasið er að ná mun meiri þéttni og grashæð nú í ár áður en það fer að skríða. Lægri lofthiti og meiri rekja í jarðvegi skýra trúlega þá hegðun en sumarið í ár er búið að vera tiltölulega kalt og spretta því jafnari en oft áður
Ef tíðarfar verður hagstætt næstu daga að þá ættu bændur að geta náð miklum og jafnframt góðum heyjum.
KÓE