Nú í vikunni luku 25 manns úr Húnavatnssýslum og af Ströndum námskeiði á vegum verkefnisins Vaxtarsprota. Þátttakendur vinna allir að ákveðnum verkefnum sem lúta að atvinnusköpun í sveitum. Um er að ræða fjölbreytt verkefni á sviði ferðaþjónustu, iðnaðar og þjónustu. Námskeiðunum lauk með kynningum þátttakenda á sinni vinnu á námskeiðstímanum.
Verkefnið Vaxtarsprotar fór af stað við Húnaflóa í upphafi þessa árs. Vaxtarsprotar er heildstætt stuðningsverkefni sem hefur það að markmiði að hvetja og styðja við fjölbreytta atvinnusköpun í sveitum. Verkefnið er á vegum Impru nýsköpunarmiðstöðvar og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins en er unnið í samstarfi við Búnaðarsamband Húnaþings og Stranda, SSNV Atvinnuþróun og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða.
Þann 1. nóvember næstkomandi verður haldin vegleg uppskeruhátíð á vegum Vaxtarsprotaverkefnisins. Markmið hátíðarinnar er að skapa formlega umgjörð um lok verkefnisferlisins, að hefja vinnu þátttakenda til vegs og virðingar og vekja athygli á verkefnum þeirra. Hátíðin verður haldin að Staðarflöt í Hrútafirði.
Frekari upplýsingar um Vaxtarsprotaverkefnið og uppskeruhátíðina má nálgast hjá Elínu Aradóttur, verkefnisstjóra hjá Impru nýsköpunarmiðstöð, s. 4607973 / 8930103, elina@nmi.is.