Fréttir af aðalfundi BHS 2011

Aðalfundur BHS var haldinn í Ásbyrgi í Miðfirði þriðjudaginn 12. apríl síðastliðinn. Á fundinn mættu 34 af 46 fulltrúum sem rétt áttu á setu á fundinum og auk þess stjórnarmenn BHS, ráðunautar og búnaðarþingsfulltrúar.
Rekstur BHS gekk þokkalega á síðasta ári en þó varð um 174 þús kr tap á rekstrinum. Tap á kúasæðingum varð um 1800 þús en það var með vilja gert til að eyða uppsöfnuðum hagnaði af þeirri starfssemi. Gjald fyrir kúasæðingar hækkar frá 1.maí 2011 sbr ályktanir fundarins hér á eftir.

Á fundinum voru kosnir tveir stjórnarmenn úr V-Hún og situr Ólafur Benediktsson í Miðhópi áfram í stjórninni en Gísli Magnússon á Staðarbakka kemur nýr inn í stjórn í stað Skúla Einarssonar á Tannstaðabakka sem gaf ekki kost á sér áfram. Aðrir í stjórn eru Jón Gíslason á Stóra-Búrfelli, Magnús Guðmannsson á Vindhæli og Matthías Lýðsson í Húsavík.
Gestir fundarins voru tveir starfsmenn Matvælastofnunar þeir Halldór Runólfsson yfirdýralæknir og Þorsteinn Ólafsson dýralæknir klaufdýra. Fluttu þeir fróðleg erindi um starfsemi Mast og helstu mál sem unnið er að.
Fundargerð fundarins birtist í heild sinni hér á heimasíðunni mjög bráðlega.

Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á fundinum:

Aðalfundur BHS haldinn í Ásbyrgi 12. apríl 2011 samþykkir að árgjald til BHS fyrir árið 2011 verði 3.000 kr á hvern félagsmann. Hjón og sambýlisfólk greiði eitt gjald. Framkvæmdastjóra BHS verði falið að leita hagkvæmustu leiða í innheimtu á félagsgjöldum. Greiða skal árgjald fyrir áramót.
Samþykkt samhljóða

Aðalfundur BHS haldinn í Ásbyrgi 12. apríl 2011 samþykkir að fulltrúar á aðalfundi BHS fái greitt sem nemur árgjaldi til BHS fyrir fundinn auk aksturspeninga skv. ríkistaxta fyrir akstur umfram 120 km gegn framvísun reiknings.
Samþykkt samhljóða

Aðalfundur BHS haldinn í Ásbyrgi 12. apríl 2011 samþykkir að laun stjórnarmanna verði sem hér segir:
Formaður fái 50.000 kr á ári
Aðrir stjórnarmenn fái 20.000 kr á ári
Auk þess fái stjórnarmenn 8.000 kr fyrir hvern fund svo og akstur skv. ríkistaxta.
Skoðunarmenn fái 10.000 kr á ári og akstur skv. ríkistaxta.
Samþykkt samhljóða

Aðalfundur BHS haldinn í Ásbyrgi 12. apríl 2011 samþykkir reikninga BHS fyrir árið 2010 eins og þeir hafa verið lagðir fram á fundinum.
Samþykkt samhljóða.

Aðalfundur BHS haldinn í Ásbyrgi 12. Apríl 2011 hafnar öllum hugmyndum um tilslakanir á reglum um innflutning á lifandi dýrum.
Samþykkt samhljóða

Aðalfundur BHS haldinn í Ásbyrgi 12. Apríl 2011 beinir því til stjórnar BHS að hún beiti sér fyrir því að við skil á fjárbókhaldi í skýrsluhaldsgrunn BÍ hafi bændur val um það hvort niðurstöður úr þeirra fjárbókhaldi eru birtar á landsvísu.
Samþykkt með með 13 atkvæðum gegn 2.

Aðalfundur BHS haldinn í Ásbyrgi 12. apríl 2011 beinir eftirfarandi tillögu til stjórnar BHS/Þróunarsjóðs:
Aðalfundur Búnaðarfélags Víðdælinga haldinn í Dæli 15. mars 2011 samþykkir að beina því til stjórnar þróunarsjóðs BHS að veitt verði framlag til hey- og jarðvegssýnatöku hjá félagsmönnum.
Samþykkt samhljóða

Aðalfundur BHS haldinn í Ásbyrgi 12. Apríl 2011 samþykkir að gjaldskrá fyrir kúasæðingar frá 1. maí 2011 verði þannig að sæðing á kvígu kosti 1.000 kr. , á kú 2.000 kr. og á grip utan skýrsluhalds 2.800 kr.
Samþykkt samhljóða

Aðalfundur BHS haldinn í Ásbyrgi 12. apríl 2011 samþykkir að BHS standi fyrir átaksverkefni í sauðfjárrækt á svæðinu. Byggt verði á niðurstöðutölum skýrsluhalds undanfarin ár. Jafnframt verði gert sérstakt átak til að stuðla að auknum ómskoðunum og stigunum lamba og afkvæmarannsókna hrúta. Niðurstöður alls þessa verði síðan nýttar til markvissari og einstaklingsmiðaðri leiðbeininga til sauðfjárbænda.
Samþykkt samhljóða

Fundargerð aðalfundarins í heild sinni má nálgast með því að smella hér

Posted in BHS