Frá Þjóðlendufundi á Blönduósi


Þriðjudagskvöldið 20. mars 2007 var haldinn fjölmennur fundur á Blönduósi um þjóðlendumál á vegum Búnaðarsambands Húnaþings og Stranda. Á annað hundrað manns mættu á fundinn og þar á meðal nokkrir þingmenn, ráðherrar og aðrir frambjóðendur í norðvesturkjördæmi.

Ólafur Björnsson hæstaréttarlögmaður byrjaði á að halda greinargott yfirlitserindi yfir þjóðlendumálin. Fór hann m.a. yfir þjóðlendulögin frá 1998 og nokkra úrskurði óbyggðarnefndar og dóma hæstaréttar sem fallið hafa um eignarrétt á landi bæði fyrr og síðar. Ólafur taldi ríkið hafa gengið alltof hart fram í sinni kröfugerð og einnig væru sumir dómar hæstaréttar illskiljanlegir. Þá virtist einnig gæta nokkurs ósamræmis milli jarða og svæða bæði varðandi kröfugerð og dóma þó forsendur mála virtust mjög svipaðar. Taldi hann að eina vonin um breytta stefnu ríkisins í þessum málum væri ef Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði að íslenska ríkið mætti ekki ganga fram gagnvart landeigendum með þeim hætti sem gert hefur verið. Óvíst er þó að það mál sem sent hefur verið til dómstólsins verði tekið þar til efnislegrar meðferðar. Einnig kom fram hjá honum að Hæstiréttur hafi nú í seinni tíð ekki viðurkennt að afréttur sem nýttur er sameiginlega til beitar af flestum/öllum íbúum sveitarfélags, sé eignarland. Ljóst er þó að jarðir sem lagðar hafa verið til afréttar eru áfram eignarlönd, hafi þær verið eignarrétti háðar, þegar það var gert.
Að lokum hvatti hann landeigendur til að hafa öll sín landamerkjamál á hreinu og leysa hugsanlegan ágreining um landamerki áður en óbyggðanefnd tekur svæðið til skoðunar.

Guðný Sverrisdóttir formaður Landssamtaka landeigenda á Íslandi skýrði sjónarmið og stefnu samtakanna. Taldi hún loforð fjármálaráðherra um breytt vinnulag við kröfugerðina spor í rétta átt. Einnig greindi hún frá því að stjórn samtakanna hefði hitt þingflokka allra stjórnmálaflokkanna og taldi hún að eftir þá fundi væri það alveg ljóst að ekki væri meirihluti á alþingi fyrir því að breyta þjóðlendulögunum. Hins vegar væru margir þingmenn ósáttir við þá stefnu sem framkvæmd kröfugerðar og dómar hafa tekið. Þá var spurt hvort dómarnir byggðust þá ekki á lögunum – fátt var um svör.

Gunnar Sæmundsson í Hrútatungu greindi frá aðkomu BÍ að þjóðlendumálum fram að þessu. Rakti hann gang málsins frá því að BÍ boðaði Árnesinga til fundar á Selfossi 29.mars 1999.
Búnaðarþing og stjórn BÍ hafa fjallað um þjóðlendumálið á hverju ári síðan og nú hafa Bændasamtökin ákveðið að styrkja fjárhagslega lögfræðivinnu vegna þjóðlendumáls sem nú hefur verið sent til Mannréttindadómstóls Evrópu.
Kynnti hann einnig ályktanir Búnaðarþings þar sem það er m.a. talið fráleitt að fram skuli settar kröfur um að afréttir og þinglýst eignarlönd bænda, sveitar- og/eða upprekstrarfélaga, verði að hluta eða að öllu leyti gerð að þjóðlendum og þar með eign ríkisins. Að lokum sagðist hann ekki hafa trú á að þingmenn ætluðu að beita sér til að breyta lögum um þjóðlendur og hvatti hann viðstadda þingmenn til að lofa ekki upp í ermina á sér rétt fyrir kosningar.

Á fundinn voru m.a. mættir alþingismennirnir Sturla Böðvarsson, Einar K. Guðfinnsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Herdís Sæmundardóttir og Jóhann Ársælsson. Ekki var að heyra á þeim að mikil þörf væri að breyta þjóðlendulögunum en eitthvað mætti gera framkvæmdina við kröfugerðina réttlátari gagnvart landeigendum.

Fundurinn var vel sóttur og málefnalegur og miklum fróðleik miðlað til fundarmanna og heimamenn því betur undir það búnir núna að takast á við þessi mál þegar að því kemur að þeirra landssvæði verða tekin til skoðunar hjá óbyggðanefnd.
GR

Posted in BHS