Dýralæknaþjónusta

Eins og flestum er kunnugt hefur staða dýralæknaþjónustu breyst umtalsvert við gildistöku nýrra laga um þau mál. Héraðsdýralæknir fyrir Norðvesturumdæmi er nú Egill Þorri Steingrímsson. Norðvestur­umdæmi er Skagafjörður, Austur-og Vestur-Húnavatnssýsla og Bæjarhreppur. Héraðsdýralæknir fyrir Vesturumdæmi er Flora-Josephine Hagen Liste. en undir það fellur Strandasýsla (utan við Bæjar­hrepp) ásamt öllu Vesturlandi.
Sem héraðsdýralæknar mega þau nú ekki lengur sinna almennri dýralækna­þjónustu. Þau sjá hins vegar um skipuleggja bakvaktir innan síns svæðis og er hægt að sjá hvaða dýralæknir er á bakvakt utan dagvinnutíma á heimasíðu Matvælastofnunar www.mast.is undir „Héraðsdýralæknar“.

Strandir
Matvælastofnun hefur gert þjónustusamning við Hjalta Viðarsson á þjónustusvæði 2 sem Strandirnar tilheyra (utan við Bæjarhrepp). Hann er því skuldbundinn til að sjá um dagvakt á því svæði alla virka daga ársins. Utan dagvinnutíma skipuleggur héraðsdýralæknir Vesturumdæmis bakvaktir og má sjá hver sinnir henni á hverjum tíma á heimasíðu Matvælastofnunar (sjá hér að ofan).

Bæjarhreppurinn hefur nokkra sérstöðu þar sem hann heyrir annars vegar undir héraðsdýralækni Norvestur­umdæmis en tilheyrir hins vegar þjónustusvæði 2 á samt Dalabyggð, Reykhólahrepp, Strandabyggð, Árneshrepp og Kaldrananeshrepp og heyrir þannig undir dýralækni í Búðardal. Samkvæmt því virðist sem íbúar Bæjarhrepps geti leitað til Hjalta á dagvinnutíma en fylgi Húnavatnssýslum og Skagafirði á kvöldin og um helgar.

Húnavatnsýslurnar
Matvælastofnun hefur gert þjónustusamning við Dýralæknaþjónustu Stefáns Friðrikssonar ehf. á Þjónustusvæði 4 þ.e. Húnaþing vestra og A-Húnavatnssýslu. Stefán Friðriksson er svæðinu kunnugur og hefur áður starfað sem héraðsdýralæknir í Austur-Húnaþingsumdæmi með aðsetur á Blönduósi en er núna starfandi dýralæknir í Skagafirði með aðstöðu á Sauðárkróki og í Glæsibæ. Með þessum þjónustusamningi er Dýralæknaþjónusta Stefáns skuldbundin til að sinna dýralæknaþjónustu á dagvinnutíma alla virka daga ársins. Bakvaktaþjónustunni á þessu svæði er eins og er einnig allri sinnt frá Skagafirði.

Í reglugerð nr 846 frá 16. sept 2011 um „Dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum“ er tekið fram að dýralæknir sem gerir þjónustusamning um ákveðið svæði „skuli vera með starfsstöð innan viðkomandi svæðis“. Til þess að ná þessum samningi við Stefán var þó horfið frá þessu ákvæði og sett ný reglugerð nr 1032 frá 3. nóv 2011 þar sem gefin er heimild til að víkja frá kröfu um starfsstöð á svæðinu ef einungis er gerður tímabundinn samningur. Því verður að líta svo á að þetta fyrirkomulag á dýralæknaþjónustu á þessu svæði sé einungis tímabundið og því verði breytt um leið og einhver dýralæknir sýnir áhuga á því að gera „hefðbundinn“ þjónustusamning og búa og starfa á svæðinu.

Eðlilega hafa margir spurt hvernig verði þá varðandi kostnað við akstur dýralæknis þegar hann býr í 40 km fjarlægð frá svæðinu. Því er til að svara að samkvæmt þeim reglum sem nú er unnið eftir þá á bóndi aldrei að borga meira en 80 km akstur (báðar leiðir) fyrir einstaka vitjun. Það sem hugsanlega er umfram þetta er greitt beint til dýralæknis úr ákveðnum akstursjöfnunarsjóði og þarf bóndinn ekki að sjá um það. Ef dýralæknir fer í vitjanir á fleiri bæi í sömu ferð á hann að skipta ferðakostnaði á milli þeirra.

Miðað við staðsetningu dýralæknis á Sauðárkróki þá má segja að allar stakar vitjanir á þjónustusvæðinu beri 80 km akstur. Því er nú sem aldrei fyrr nauðsynlegt að skipuleggja vel ferðir dýralæknis og um að gera að láta hann vita af verkefnum sem ekki eru bráðatilfelli og sinna má þegar tækifæri gefst.

Búnaðarsambandið hefur komið þeirri skoðun á framfæri við Landbúnaðarráðuneytið að það sé mjög óeðlilegt að bændur þurfi að sjá um ferðakostnað dýralæknis inn á þjónustusvæðið og hefur ráðuneytið lofað að skoða það mál og munum við fylgja því eftir að það verði gert.

Ef allir leggjast á eitt þá má sjálfsagt lifa við þetta skipulag tímabundið en það mun að sjálfsögðu ekki ganga til lengri tíma að húnvetnskir bændur sæki alla sína dýralæknaþjónustu til Skagafjarðar.

Rétt er að fram komi að þrátt fyrir þessa þjónustusamninga þá eru bændur að sjálfsögðu ekki skuldbundnir til að eiga viðskipti við þá dýralækna sem hafa gert þjónustusamningana. Menn geta auðvitað samið við hvaða dýralækna sem mönnum sýnist að því gefnu að þeir vilji sinna því. Dýralæknarnir með þjónustusamningana eru hins vegar skuldbundnir til að vera á dagvakt alla virka daga ársins og sinna því sem upp á kemur á þeim tíma.

Posted in BHS