Fagráð í sauðfjárrækt hefur ákveðið að halda áfram rannsókn á orsökum þess að lömb fæðast nýdauð, veik eða líflítil og deyja á fyrsta eða öðrum sólarhring, en eitthvað hefur borið á þessu undanfarin ár. Í fyrravor var sambærilegt verkefni í gangi en því miður skiluðu sér færri lömb til krufningar en vænst var miðað við umfjöllun bænda um umfang þessa vandamáls.
Sigurður Sigurðarson dýralæknir hjá Landbúnaðarstofnun, áður á Keldum hefur tekið að sér að sinna þessu verkefni í vor og þurfa þeir sem vilja láta athuga slík lömb að hafa samband við hann í síma og svara spurningum um vandamálið.
Lömbunum þarf að koma í kælingu strax til að hindra rotnun og tryggja árangur. Nota má ís eða snjó í lokuðum pokum eða það sem kannske er einfaldast, leggja hjá hverju lambi 1-2 litlar plastflöskur með frosnu vatni, sem menn hafa tiltækar í frystikistunni.
Framlag bænda til verkefnisins verður það að koma lambshræjum í kælingu strax heima ásamt stuttum upplýsingum, merkja þau eiganda, aldri móður og hvort hún var eðlileg, hvort um var að ræða einlembing eða tvílembing, hvort lífsmark fannst með lambinu, hvort bæði lömbin dóu eða annað lifði, hvort hildir komu eðlilega. Síðan skal koma lömbunum við fyrsta tækifæri á fyrirfram ákveðna staði, sem héraðsdýralæknir gefur upplýsingar um, en þar þarf að vera kæling líka þar til krufið verður innan viku. Hafa skal samráð við Sigurð Sigurðarson, sem sér um framhaldið, kryfur lömbin, sem safnað hefur verið og kemur sýnum til rannsóknar á Keldum, eftir því sem nauðsynlegt er.
Þess er vænst að þátttaka bænda verði mikil sé þetta vandamál til staðar. Annað svo sem fósturlát, lömb dauð fyrir nokkru og farin að rotna, sem útheimta sýklarannsókn og lömb sem fæðast eðlileg en veikjast 2-3ja daga eða eldri, ætti að senda beint að Keldum til rannsóknar eins og áður. Mikilvægt er, hvort sem sent er að Keldum eða í þetta verkefni, að ná hildum til rannsóknar og höfuðmál er að kæla allt strax. Ef ekki verður unnt að kryfja lambið innan viku verður að frysta hræið. Með þessu er komið til móts við bændur og um leið reynt að ná til rannsóknar lömbum, sem annars myndu varla skila sér. Mikilvægt er að ná þeim sem flestum til að fá marktækar niðurstöður.
Símanúmer Sigurðar er 892-1644 og tölvupóstfangið er sigsig@hi.is og sigsig@lbs.is(best er að hringja og/eða senda póst á bæði póstföngin). Einnig fást upplýsingar í síma Landbúnaðarstofnunar, 530 4800.
Hægt verður að safna lömbum með þessum hætti á tvo staði á svæði BHS. Annars vegar á Borðeyri og hins vegar á Blönduósi, við Særúnarhús, bakatil (gegnt húsi Björgunarsveitarinnar) á vegum Egils dýralæknis. Mikilvægt er að hafa fyrst samband við Sigurð Sigurðarson til að kanna hvort viðkomandi lömb koma til greina í rannsóknina og merkja þau vel eins og greint er frá hér að ofan.