Búið er að reikna út nýtt kynbótamat hrúta fyrir kjötgæði

Útreikningum á BLUP kynbótamati hrúta fyrir eiginleika í kjötmati er lokið. Byggt er á gögnum frá árunum 1998-2005. Hér fyrir neðan er hægt að sjá yfirlit yfir hæstu hrúta landsins:

Skrá yfir hrúta með hæstu heildareinkunn.

Í heildareinkunn hefur fita 60% vægi og gerð 40% vægi. Krafa er gerð um að hrúturinn eigi a.m.k. 15 afkvæmi með upplýsingar úr kjötmati og að hvorug einkunnanna fyrir fitu og gerð fari undir 90. Niðurstöðurnar sýna gríðarlega miklar framfarir í þesssum eiginleikum hjá íslensku sauðfé. Það endurspeglast í því að ungir hrútar eru yfirgnæfandi í töflunni yfir hæstu hrútanna. Á vef bændasamtakanna er einnig hægt að finna töflur yfir sæðingahrútana eingöngu og hrúta sem eru hæstir í BLUPi fyrir fitu eingöngu svo og gerð. Hægt er að nálgast þær upplýsingar með því að ýta hér.

Taflan með hæstu hrútunum einkennist mjög af sonum Hesthrútanna Áli 00-868, Lóða 00-871 og Hyl 01-883 þó að fjölmargir aðrir sæðingahrútar leggi mikið til eins og Leki 00-880 og Spakur 00-909. Hjá kollóttu hrútunum dreifast topparnir meira, þó virðast flestir hrútarnir vera ættaðir úr gamla Kirkjubólshreppi eða Árneshreppi.

Ef litið er á 3 efstu hrútanna kemur í ljós að þeir eru allir undan Hyl 01-883. Ylur sem er í fyrsta sæti er dauður og var auk þess arfhreinn áhættuarfgerðar. Flosi er í afkvæmarannsókn vegna stöðvanna í Borgarfelli í haust en nýtist ekki inn á stöð því hann er einnig með áhættuarfgerðina. Í þriðja sæti er Askur, sem var kominn í einangrunargirðingu fyrir stöðvarnar en tókst að drepast þar afvelta í byrjun ágúst.

Það á samt að vera óþarfi að örvænta því að margir hrútanna sem búið er að velja inn á stöðvarnar eru með ákaflega góðar tölur og ekki síður sá hópur sem bíður eftir niðurstöðum úr afkvæmarannsóknunum núna í haust. Hrútakosturinn á stöðvunum ætti því að geta orðið feikilega öflugur.

Eins og við mátti búast er töluverður fjöldi hrútanna af topplistanum af starfssvæði RHS. Ekki verður fjölyrðað um það hér en mönnum bent á að skoða listann. Þó er ekki hægt annað en að minnast á hrútinn sem er í fjórða sæti á listanum. Það er Lekasonurinn Lundi 03-945 frá Bergstöðum, sem kom inn á stöð síðasta haust. Það verður því fróðlegt og spennandi að sjá hvernig lömbin undan honum koma út núna í haust.

Posted in BHS