Atkvæðagreiðsla um nýjan sauðfjársamning

Nýr samningur hefur verið gerður um framleiðslu sauðfjárafurða, og fyrir liggur að hann fari í almenna atkvæðagreiðslu hjá sauðfjárbændum. Skilyrði fyrir þátttöku eru tvíþætt:

1) Að vera félagi í búnaðarfélagi /búnaðarsambandi og/eða í búgreinafélagi.
2) Að vera aðili að búrekstri með a.m.k. 50 vetrarfóðraðar kindur skv. nýjustu forðagæsluskýrslu.

Séu fleiri en einn félagsmaður á sama búinu, t.d. hjón / sambýlisfólk eða aðrir sem standa saman að rekstri á sama virðisaukanúmeri, hafa allir þátttökurétt, ef á búinu er a.m.k. 50 fjár. Gildir þá einu þótt einn sé félagi í búnaðarfélagi og annar t.d. í félagi sauðfjárbænda.

Kjörskrá fyrir Húnavatnssýslur og Strandir liggja frammi á skrifstofum Búnaðarsambandsins á Borðeyri, Hvammstanga og Blönduósi. Vegna fjarveru ráðunauta í vikunni (Fræðaþing landbúnaðarins) mun kjörskráin einnig liggja frammi á Bókasafninu á Hvammstanga og í Kaupfélaginu á Borðeyri. Einnig er hægt að skoða kjörskrána hér kjorskra-saudfjarsamningur-2007

Kærufrestur er til mánudagsins 19. febrúar og fram að þeim tíma geta menn gengið í félög ef þeir óska þess.

Atkvæðaseðlar verða sendir út í vikunni 12.-16. febrúar og síðasti dagur til að póstleggja atkvæði er miðvikudagurinn 21. febrúar.

Posted in BHS