Af sameiningarmálum búnaðarsambanda við Húnaflóa

Í síðustu viku héldu Búnaðarsamband V-Hún og Búnaðarsamband Strandamanna aðalfundi sína. Á báðum þessum fundum var samþykkt það samkomulag sem kynnt hefur verið varðandi væntanlega sameiningu BSAH, BSVH, BSS og Ráðunautaþjónustunnar í eitt Búnaðarsamband frá næstu áramótum. Sá samningur hafði áður verið samþykktur á aðalfundi BSAH.
Næstu skref í þessu máli eru því að vinna að gerð laga eða samþykkta fyrir nýtt Búnaðarsamband í samráði við búnaðar- og búgreinafélög á svæðinu og bera þær síðan upp til samþykktar á framhaldsaðalfundi Ráðunautaþjónustunnar í haust. Ráðunautaþjónustan breytist þá í búnaðarsamband (BHS, Búnaðarsamband Húnaþings og Stranda ??) frá og með 1.jan 2007.
Gömlu búnaðarsamböndin munu svo verða lögð niður í fyllingu tímans í samræmi við lög þeirra og samþykktir.

Fyrrnefnt samkomulag fylgir hér með en það var m.a. kynnt í fréttabréfi í vor. Strandamenn hafa gert ákveðinn fyrirvara um þá milljón sem þeim er ætlað að leggja fram og tengist hann hugsanlegum skuldbindingum þeirra vegna bókaútgáfu.

Samkomulag
Búnaðarsamband Strandamanna, Búnaðarsamband Austur – Húnavatnssýslu (BSAH) og Búnaðarsamband Vestur – Húnavatnssýslu (BSVH) gera með sér eftirfarandi samkomulag um að stofna eitt búnaðarsamband við Húnaflóa.

1. gr
Á aðalfundi hjá BSAH, BSVH og Búnaðarsambandi Strandamanna 2006 og 2007 skal borin upp tillaga um að leggja niður viðkomandi búnaðarsamband.

2. gr
Eigi síðar en 1. des 2006 skal halda framhaldsaðalfund Ráðunautaþjónustunnar (RHS). Á þeim fundi skal leggja fram tillögur að breyttum samþykktum fyrir RHS til samþykktar. Í þeim samþykktum skal m.a. kveðið á um:

– að RHS verði breytt í Búnaðarsamband sem taki til starfa frá og með 1. janúar 2007 og taki þá við allri starfsemi og eignum Búnaðarsambands Strandamanna, BSAH og BSVH sem hætti allri starfsemi frá sama tíma.

– að aðildarfélög hins nýja Búnaðarsambands skulu vera búnaðar- og búgreinafélög á starfssvæðinu.

– að hið nýja Búnaðarsamband hafi 5 manna stjórn þar sem tveir stjórnarmenn komi úr A-Hún, tveir úr V-Hún og einn af Ströndum.

– að stofnaður verði sérstakur Þróunarsjóður sem búgreina- og búnaðarfélög á starfssvæðinu geti fengið framlög úr.

– að hið nýja Búnaðarsamband starfræki kúasæðingar á öllu starfssvæðinu

– að hið nýja Búnaðarsamband hafi þrjá fulltrúa á Búnaðarþingi

3. gr
Ráðstöfun eigna Búnaðarsambandanna um áramót 2006-2007 verður með eftirfarandi hætti:

Til hins nýja Búnaðarsambands: Allar fasteignir og hlutafjáreign Búnaðarsambandanna.
Ennfremur 1 milljón frá Búnaðarsambandi Strandamanna og 1,4 milljónir frá BSVH

Til reksturs kúasæðinga: Frá Búfjárræktardeild BSAH 1200 þús og frá BSVH 700 þús.

Til Þróunarsjóðs: Aðrar eignir sem í árslok 2006 er í eigu BSAH, BSVH og Búnaðarsambands Strandamanna. (áætlað 6,0 – 6,5 milljón)
Fylgiskjal með nánari upptalningu á eignum og verðmæti þeirra skal fylgja samkomulagi þessu

4.gr
Aðilar eru sammála um að aðild Búnaðarsambands Strandamanna og fjárhagsleg ábyrgð þess á útgáfu Byggðasögu Strandamanna sem nú er á lokastigi, yfirfærist á engan hátt til hins nýja Búnaðarsambands.

5.gr
Samkomulag þetta er undirritað af formönnum búnaðarsambandanna, með fyrirvara um samþykki aðalfunda þeirra á árinu 2006 og þarf samþykki minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða, til að öðlast gildi.

Posted in BHS