Aðalfundur Landssamtaka landeigenda

Aðalfundur Landssamtaka landeigenda á Íslandi (LLÍ) verður haldinn í Harvardsal II, Hótel Sögu föstudaginn 20. febrúar 2009 kl. 16:00.

Dagskrá:
Venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt samþykktum félagsins.
Breytingar á samþykktum félagsins.
Heimildir landeigenda í eignarlöndum og inngrip ríkisvaldsins, Karl Axelsson, hæstaréttarlögmaður.
Sönnunargögn í Þjóðlendum, Friðbjörn Garðarsson, héraðsdómslögmaður.

Tillaga um aukið umboð Landssamtaka landeigenda
til hagsmunagæslu lögð fyrir aðalfund þeirra:

Stjórn Landssamtaka landeigenda á Íslandi vill að umboð samtakanna til hagsmunagæslu í þágu landeigenda um allt land verði aukið verulega, meðal annars gagnvart, stórfyrirtækjum, opinberum fyrirtækjum og stofnunum og aðilum á þeirra vegum. Stjórnin boðar lagabreytingatillögu þar að lútandi á aðalfundi samtakanna á Hótel Sögu á föstudaginn kemur, 20. febrúar, kl. 16:00.

Landssamtök landeigenda voru stofnuð í janúar 2007 til að berjast fyrir að réttindum landeigenda gagnvart ríkisvaldinu í þjóðlendumálum. Stjórn samtakanna telur að mikill árangur hafi náðst í þeim efnum sem meðal annars birtist í því að þáverandi fjármálaráðherra ákvað að falla frá hluta af kröfum ríkisins á vestanverðu Norðurlandi auk þess sem kröfur ríkisins eru ekki jafn harkalegar og óbilgjarnar og áður var.

Í ljós hefur komið að mikil þörf er fyrir mun umfangsmeiri hagsmunagæslu landeigenda en varðandi þjóðlendur, svo sem gagnvart Vegagerðinni, Landsvirkjun, Landsneti og RARIK og vegna annarra opinberra framkvæmda. Einnig gagnvart Alþingi og opinberri stjórnsýslu vegna laga og reglugerða þar sem til dæmis er gengið á rétt landeigenda varðandi eignarnám hins opinbera og framkvæmd eignarnáms.

Posted in BHS