Í vetur höfum við á fundum og í fréttabréfum beint nokkurri athygli að gróffóðurgæðum á svæðinu og áhrifum þeirra á afurðir. Nú í vorbyrjun er því rétt að eyða nokkrum orðum í áburðardreifingu sem eðlilega er fyrsta skrefið í gróffóðuröfluninni.
Það liggur fyrir að fóðurgildi heyja eru því meiri sem fyrr er slegið bæði hvað varðar meltanleika og prótein. Til að geta slegið snemma þarf þó einnig að bera snemma á. Síðustu sumur hafa verið einsleit hvað tvennt varðar; um vorið og fyrri hluta sumars hefur verið mjög lítil úrkoma og sumrin hafa verið óvanalega hlý. Það segir sig sjálft að í slíku tíðarfari er afar mikilvægt að nýta rakann sem er í jarðveginum fyrst á vorin til að leysa upp áburðinn. Í hlýjum sumrum fellur meltanleiki grasanna hraðar en þegar kalt er, sem þýðir að sláttutíminn þarf að færast framar í dagskrána en ella. Þetta hvort tveggja eykur þýðingu þess að koma áburðinum snemma á túnin.
Best er að haga áburðardreifingu þannig að áburðarefnin séu til reiðu þegar plöntunarnar þarfnast þeirra eða í „gapandi ginið á gráðugum gróðrinum“. Ágætt er að miða við að tún séu rétt að byrja að grænka og er t.d. ágætt viðmið að bera á ÁÐUR en meðalhiti sólarhrings nær 7-7,5 °C sem víðast gerist á tímabilinu frá miðjum maí til mánaðarmóta maí-júní.
Vissulega kann áburðargjöf svo snemma að vori að þýða að hluti áhrifa áburðarins fari í beitina séu tún beitt að vori. Heyuppskera kann þá að rýrna eitthvað að sama skapi. Þessi munur minnkar þó að öllum líkindum í þurrum sumrum, þar sem jarðraki verður takmarkandi þáttur, ef seint er borið á, sem vegur þar upp á móti. Sömuleiðis má ekki gleyma því að góð vorbeit ánna leggur grunn að auknum vexti lambanna sem þær mjólka.