Áburðaráætlanir

Nú eru allir áburðarframleiðendur búnir að gefa út verð og flestir veita afslátt ef pantað er fyrir miðjan marsmánuð. Það er því ekki til setunnar boðið ef menn vilja láta vinna áburðaráætlanir fyrir vorið. Í áburðaráætlun er tekið mið af áburðarþörf, nýtingu búfjáráburðar og verði. Við mat á áburðarþörfum koma hey- og jarðvegsefnagreiningar í góðar þarfir sem og ræktunarsaga og uppskera fyrri ára.

Allar áburðaráætlanir okkar eru unnar í jörð.is og þar eiga að birtast túnkortaspildur sem teiknaðar hafa verið inn í loftmyndagrunn Loftmynda ehf. Það er því afar þægilegt ef til er slíkt túnkort á bænum sem unnið er fyrir en alls ekki nauðsynlegt. Ef ekki er til slíkt túnkort eru tveir möguleikar, annars vegar að láta teikna slíkt eða þá stofnskrá spildurnar án loftmyndatengingar inn í jörð.is.

Þeir sem tóku að lágmarki 3 heysýni í sumar og eru með túnkort aðgengilegt á jörð.is fá í ár áburðaráætlanir endurgjaldslaust. Annars er fast gjald fyrir áburðaráætlun 6.000 kr. Fyrir mjög tímafrekar og/eða marg endurreiknaðar áætlanir verður rukkað aukalega á tímagjaldi BHS sem er 3.700 kr/klst. Inni á heimasíðunni okkar má nálgast eyðublað fyrir grunnupplýsingar þar sem hægt er að færa inn spildur, búfjáráburð, fyrirhugaða grænfóður- og/eða kornræktun o.s.frv. en það flýtir fyrir gerð áætlunar ef slíkt liggur fyrir við upphaf hennar. Þeir sem eru byrjaðir að nota jörð.is geta skráð sömu upplýsingar þar inn.

Posted in BHS