Styrkur úr Bjargráðasjóði vegna áburðarkaupa
Vegna gríðarlegra hækkana á áburði á síðustu mánuðum hefur stjórn Bjargráðasjóðs ákveðið að veita styrki úr sjóðnum til áburðarkaupa. Ekki er ljóst hversu mikið verður greitt á tonn og mun það ekki liggja fyrir, fyrr en í haust. Þeir sem hyggjast sækja um þennan styrk þurfa að gera eftirfarandi:

Fylla þarf út eyðublað sem má nálgast með því að smella hér. Þeir sem vilja geta sótt um rafrænt á www.bondi.is.

Leggja þarf fram reikninga vegna áburðar sem sannarlega er keyptur og notaður á vaxtarárinu 2009. Þetta á við um áburð sem er keyptur frá 10. ágúst 2008 – 10. ágúst 2009. Þeir sem sækja um rafrænt þurfa einnig að koma afritum af reikningum vegna áburðarkaupa til okkar á pappír.

Til greina koma reikningar vegna innflutts tún- og akuráburðar sem inniheldur að lágmarki 11% N. Varðandi gróðurhúsaáburð og fljótandi áburð er miðað við að N, P, og K gildi blöndu eða eingildra tegunda samanlagt sé í samræmi við þarfir, að lágmarki 7% N í því samhengi fyrir gróðurhúsaplöntur en 11% fyrir aðrar plöntur til matvæla- eða fóðurframleiðslu.

Umsækjendur verða að standa fyrir búrekstri á lögbýli og greiða búnaðargjald.

Umsækjendur skulu skila umsókn ásamt framlögðum reikningum til Búnaðarsambandsins fyrir 20. ágúst.

Á sama eyðublaði er jafnframt hægt að sækja um framlag m.a. til gras- grænfóður- og kornræktar og er upplagt að gera það í leiðinni. Það verður síðan tekið út í haust.

Posted in BHS